19.08.1919
Efri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það mun ekki vera til neins að hafa langar umræður um þetta mál að þessu sinni. Flest, sem nokkurs er inn vert í málinu, mun hafa komið fram í umræðunum í gær. Það var að eins út af ummælum hv. þm. Ak. (M. K.), sem jeg vildi segja nokkur orð. Hann hneykslaðist á, að jeg skyldi tala um misskilning hjá nefndinni. Í nál. stendur þessi klausa: „Hjer í Reykjavík þarf auðvitað að hafa endurskoðanda mælingarbrjefanna, og þyrfti hans jafnt hvort sem skrifstofa þessi, sem um ræðir í 4. gr. frv., væri sett á stofn eða ekki.“

Þarna liggur misskilningurinn. Það nær ekki nokkurri átt, að það þyrfti endurskoðanda auk skrifstofunnar. Mig skal ekki furða, þó hv. nefnd legðist á móti þessu atriði í stjórnarfrv., fyrst henni hefir skilist það svona. En jeg vona þá líka, að nefndin fallist nú á rjett mál, þegar þetta er upplýst. Ef meðferð þessara mála á áfram að vera í stjórnarráðinu, skilst mjer, að nefndin ætlist til, að endurskoðunaskrifstofa sje höfð einhversstaðar úti í bæ. En þá er orðið mjótt á milli mín og hv. nefndar. Þá get jeg ekki sjeð, að neitt sje sparað með brtt. hv. nefndar, um að fella burt skrifstofuna, sem um ræðir í 4. gr. frv.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) fann að því, að jeg flytti þetta mál með kappi. Jeg veit ekki betur en að háttv. þm. Ak. (M. K.) sje vanur hinu sama þegar hann flytur mál hjer í deildinni. Segi jeg þetta síst til lasts. Það er ekki nema gott og sjálfsagt, að menn flytji mál sín af kappi, þegar þeir eru sannfærðir um rjettmæti þeirra.