19.08.1919
Efri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Magnús Kristjánsson:

Þó skýring hæstv. fjármálaráðherra geti verið góð, þá játaði hann nú, að hann hefði beint því til nefndarinnar, að hún hefði tæplega reynst starfi sínu vaxin. Jeg kalla það virðingarvert, að hann hefir nú lýst yfir því hjer í deildinni, að þetta var eigi meint eins og það var talað. Jeg vil halda fast við það, þrátt fyrir allar skýringar hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), að nefndin hefir ekki orðið sek um neinn misskilning. Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) ljet í ljós í gær, að ekki mundi vera völ á nema einum manni til endurskoðunarstarfsins, og hann væri ófáanlegur. Það má því telja víst, að forstöðumaður skrifstofunnar yrði allsendis óhæfur til endurskoðunarstarfsins og yrði að vera upp á aðstoðarmenn kominn með alt, er að því lýtur. Kann og að vera, hvað sem öðru liði að forstöðumaðurinn teldi endurskoðunarstörfin sjer ekki samboðin.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) þarf ekki að fyrtast af þessum undirtektum nefndarinnar undir frv. Þær bera ekki vott um neina óánægju með stjórnina. Við treystum henni til að halda áfram að hafa þær framkvæmdir á hendi um skrásetning skipa, sem hún hingað til hefir haft. Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) virðist ekki treysta henni til þess. Þessi er munurinn.

Hitt væri happaráð, sem jeg mintist á í gær, að draga saman þessar skrifstofur, sem eru víðs vegar úti um bæinn og hafa skyldum störfum að gegna, en þá þarf líka hæfur og duglegur maður að standa fyrir þeirri aðalskrifstofu. Slíkar umbætur væru þarfar. Árangurinn yrði góður, en kostnaðurinn lítill.