19.08.1919
Efri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það getur verið, að háttv. deild hafi í fljótu bragði virst það sannfærandi, sem háttv. frsm. (K. D.) orðaði svo lævíslega, að jeg vilji lækna hið sjúka trje í toppinn, en háttv. nefnd vilji lækna það í rótina. En ef betur er að gáð, er þetta hin mesta fjarstæða. Ef t. d. stjórn landsins þykir fara í handaskolum, er þá bætt úr því með því að skifta um dyravörð í stjórnarráðinu? Nei, meinið er læknað í toppinn. Það er skift um stjórn. Hjer er sama máli að gegna. Mestu skiftir um skrásetninguna, að aðalmaðurinn sje góður, og það er það, sem jeg er að berjast fyrir.

Mig furðar stórkostlega á því, að háttv. frsm. (K. D.) skuli leyfa sjer að fullyrða, að skrásetningarskrifstofur annarsstaðar hafi ekki endurskoðun á hendi. Þetta fullyrðir hann ofan í alla undanfarna reynslu hjer á landi. Er það ekki einmitt skrásetningarskrifstofan í Kaupmannahöfn, sem hefir haft á hendi endurskoðun á íslenskum mælingum? Þetta virðist mjer nokkuð langt gengið.

Annars efast jeg um að háttv. þm. Vestm. (K. E.) sje nokkuð betur kunnugt um þessi mál en mjer. Jeg hefi verið lögreglustjóri á tveim stöðum, þar sem oft þurfti að sinna þessum málum. Auk þess kynti jeg mjer nákvæmlega öll lög á Norðurlöndum, er að skrásetningu lúta, þegar jeg undirbjó þetta frv. Nei, alt þetta bendir til þess, að háttv. nefnd er komin í bobba. Hún er orðin röksemdaþrota. Henni er best að játa þann sannleika.

Að endingu vona jeg, að nefndin byggi ekki atkvæði sitt á þeim misskilningi, að endurskoðunin fari hvergi fram í samskonar skrifstofum.