10.09.1919
Efri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Þegar bornar eru saman gömlu skuldirnar og nýju skuldirnar, að frádregnu fje því, sem er í landsverslun og skipum, þá sjest hjer um bil, hvað mikið fje hefir farið til eyðslu. Að vísu er þetta ónákvæmt, því að bæði var fje í sjóði, er stríðið byrjaði, og svo hafa hins vegar ýmsar upphæðir aftur aukið eign landsins, en mjög miklu munar hjer ekki, sbr. skýrslu fjárhagsnefndar um þetta atriði í Nd.

Það er alveg rjett, eins og hv. þm. (M. K.) sagði, að lán til eyðslu eru óþægilegustu lánin, og því hefi jeg altaf verið að reyna að berjast gegn fjárlagahallanum. Aftur á móti eru lán til framleiðslufyrirtækja, sem landssjóður græðir á, enginn baggi fyrir landssjóðinn. Öðru máli er að gegna um húsabyggingarlán. Þó að þau sjeu ekki til eyðslu, þá þarf þó landssjóður stöðugt að greiða vöxtu af þeim, án þess að þau gefi arð af sjer, þó að þau sjeu verðmæt eign.

Þess ber yfirleitt að gæta, að tekjuaukarnir ofbjóði ekki gjaldþoli manna. Jeg ítreka það, að einmitt af því, að þetta þing hefir gengið svo langt inn á lánabrautina, þá sje þeim mun meiri ástæða til þess að gæta að því, að árlegi hallinn verði ekki mjög mikill; ella myndi fjárhagur landsins verða bágborinn. Lánstraust landsins er nú að vísu gott, en ef menn með köldu blóði, eins og menn virðast nú gera, ganga frá fjárlögunum með miklum halla, þá efast jeg um það, að lánstraustið haldist.