13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg sje, að nefndin hefir fallist á breytingar Ed. En aðalbreyting Ed. er sú, að hún vill ekki setja á stofn sjerstaka skrásetningarstofu, eins og gert var ráð fyrir upphaflega, heldur að stjórnarráðið annist hana. Jeg hefi ekki komið með brtt. við frv., en það má ef vill, fyrir 3. umr.

Það, sem vakti fyrir stjórninni. er hún fór fram á, að sett væri á stofn sjerstök skrásetningarskrifstofa, var, að slík störf eiga ekki heima í stjórnarráðinu, og að skrásetningin er ekki í því lagi, sem æskilegt mætti þykja. Áleit stjórnin, að bæta mætti skrásetninguna með því, að setja á stofn skrásetningarskrifstofu, sem væri undir eftirliti sjerfróðs manns, er aflaði sjer upplýsinga um þetta efni erlendis Þessi endurbót er flókið starf, og jeg veit ekki, hvort nokkur maður hjer á landi er fullnuma í því.

En nefndin hefir ekki fallist á þessa till. stjórnarinnar og telur hægt að leiðrjetta þetta með því, að bæta við starfskröftum á skrifstofu lögreglustjóra, og sama skoðun varð ofan á í Ed.

Mín skoðun er það, að eina skilyrðið til, að þessu verði kipt í lag, sje að fá sjerfróðan mann til þess að annast skrásetninguna. Ef til vill má segja, að það skifti ekki miklu máli, þó að skrásetningin sje ekki höfð í lagi. En jeg býst við, að eftirmaður minn finni þörfina á þessu, ef málið nær ekki fram að ganga á þessu þingi.

Jeg læt ósagt um, hvort jeg kem með brtt. við frv. við 3. umr.