13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal geta þess, að jeg átti tal við ýmsa menn um þetta atriði áður en frv. var lagt fram, því að jeg var fyrst að hugsa um að komast hjá að auka útgjöld landssjóðs, með því að stofna sjerstaka stöðu. Þá átti jeg meðal annars tal við Ágúst Flygenring, sem er mjög vel að sjer í þessu máli og hefir kynt sjer það, eins og hv. þm. Borgf. (P. O.) tók fram, á aðallögskráningarskrifstofunni í Kaupmannahöfn. Hann rjeð mjer til að setja á stofn sjerstaka skrifstofu til þess að annast skrásetninguna. Annars yrði hún kák. Hann kvað þetta vera mikilsvert mál og nauðsyn bera til að fá duglegan mann til þess að annast það, fara utan og kynna sjer málið þar og koma svo heim aftur til þess að takast það á hendur.

Það er ekki til neins að hugsa sjer, að endurbætur verði gerðar á þessu máli, nema nægileg sjerþekking verði fengin. Að ausa út fje í þessu skyni til lögreglustjóranna, ef alla yfirumsjón með sjerþekkingu vantar, er hreinn hjegómi.

Jeg sje, að nefndin álítur ekki nauðsynlegt að þessu sje þegar komið í gott horf og það má ef til vill segja, að ýmsir hlutir sjeu nauðsynlegri. En þó að því verði slegið á frest að þessu sinni, þá er jeg sannfærður um, að að því rekur, áður en langt um líður, að mínar till. verða allar teknar til greina.

Mjer þótti það mjög einkennilegt, að hv. frsm. (P. O.) vitnaði til Þorkels Þorkelssonar sem sjerfræðings í þessu efni. Mjer er ekki kunnugt um, að hann hafi nokkurn tíma fengist við skipamælingar. (P. O.: Jú.) Hvar? (P. O.: Fyrir norðan). Má vera, en því miður hefir honum ekki tekist að koma skrásetningunni í gott horf þar.

Eftir því, sem hjer er gert ráð fyrir, á skrásetningin að vera framvegis í höndum stjórnarráðsins. Og Páll Halldórsson skólastjóri hefir haft hana á höndum hingað til. Hann lítur svo á, að hann þurfi að fara utan, til þess að kynna sjer þetta efni betur.

En jeg býst við, að ekki dugi að deila við dómarann. Reynslan mun skera úr, hver hefir rjett í þessu máli. En jeg er sannfærður um, að þessar endurbætur verða gerðar bráðlega, þó að þær verði látnar undir höfuð leggjast á þessu þingi. Jeg er viss um, að enginn fjármálaráðherra getur unað því, að starf, sem heyrir honum til, sje í jafnmegnu ólagi og þetta mál nú er. Ekki veldur sá, er varir. Og skrifstofukostnaðurinn verður hinn sami, þó að sjerstök deild í stjórnarráðinu verði látin annast skrásetninguna. Hjer er verið að gera sparnaðartilraun, sem borgar sig ekki til lengdar.