19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárhagsnefndar (Magnús Torfason):

Eins og sjá má á þgskj. 803 og nál. á þgskj. 802. hefir nefndin lagt til að gerðar væru þó nokkrar breytingar á tekjuáætluninni, og munu það vera þær frekustu breytingar, sem gerðar hafa verið á tekjubálkinum í þessari hv. deild.

Alt hefir sína orsakir, og þetta líka, en aðalástæðan fyrir þessum till. er sú, að stjórnin hefir í þetta sinn áætlað tekjurnar óeðlilega lágar, en það stafar af því, að stjórnin hefir alla þessa öld skilað fjárlagafrv. með nokkrum tekjuhalla.

Formaður og frsm. fjárhagsnefndar í hæstv. Nd. (M.G.) er ekki óskyldur stjórninni, og því ekki að undra, þótt hann gerði ekki brtt. við áætlunina, og hv. Nd. lítur út fyrir að hafa verið svo ánægð með þetta, að þar kom ekki fram brtt. við nokkurn lið. Einu breytingarnar sem þar voru gerðar, voru þær hækkanir, sem voru óhjákvæmilegar vegna tekjuauka, sem hafa verið samþ. á þinginu. Þetta er mjög fágætt, og eftir því, sem nefndin hefir getað litið til, þá hefir það ekki komið fyrir, að Nd. hafi ekki hækkað tekjuliðina í fjölda mörg ár. Þetta er því alveg nýtt og því eðlilegt, að fjárhagsnefndin hjer líti svo á, að hún þyrfti að gera það.

Þessi hækkun á tekjunum gefur raunar ekki meiri tekjur í sjóðinn, en samt eru fullnægjandi ástæður til að áætla tekjurnar nær sanni, auk þess, sem tekið er fram í nál.

Við hjer á þinginu rembumst eins og rjúpa við staur við að auka á allan hátt tekjur ríkissjóðs, og það hefir verið eitt af aðalhlutverkum okkar hjer á þinginu.

Jeg verð að líta svo á, að það væri óverjandi. ef þingið skildist svo frá fjárlögunum, að þar væri verulega stór tekjuhalli, því auk hans bætast við ýms útgjöld samkvæmt lögum samþ. á þinginu. Ef útkoman væri sú, að skattarnir eða árstekjur ríkissjóð væru minni en útgjöldin í fjárlögunum, þá virðist mjer, að þjóðin hlyti að líta svo á, að þingið hefði litla ábyrgðartilfinningu fyrir því, að sjá hag ríkissjóðs borgið, og það yrði ekki til þess að að auka virðingu þjóðarinnar fyrir starfi þingsins, og það á þingið alls ekki skilið, að því er þetta atriði snertir.

Jeg skal þá snúa mjer að einstöku brtt.

Fyrsta brtt. er um, að ábúðar- og lausafjárskatturinn verði færður upp um 20 þús. kr., og vænti jeg, að hv. þm. sjái, að það sje ekki mikið, þegar allar afurðir hafa hækkað svo gífurlega í verði. Áætlunin er auk þess varleg, því skattur þessi varð síðasta ár 100 þús. kr.

Önnur brtt., um að tvöfalda húsaskattinn, er gerð samkvæmt lögum, sem hafa verið samþ. hjer.

Tekjuskatturinn leggjum við til að verði hækkaður um 150 þús. kr. Stjórnin áætlaði þennan lið 250 þús. kr., en eftir þeim upplýsingum, er nefndin hefir fengið, þá nemur tekjuskatturinn nú í Reykjavík einni fyrra árið 400 þús. kr., og það virðist því vera sæmilegt að áætla aðeins þá upphæð, eða að skattur þessi um land alt utan Reykjavíkur sje að eins fyrir vanhöldum. Tekjuskattur sá, er á að greiða þessi ár, er af tekjunum árin 1918 og 1919, og árið 1918 er gott í þessu efni, mun betra en árið 1917, en 1919 ágætt, svo þetta ár hlýtur að verða hreint jubelár fyrir ríkissjóðinn. Sama er að segja um dýrtíðarskattinn og tekjuskattinn.

Aukatekjurnar leggur nefndin til að hækka um 50 þús., og er það gert með tilliti til frv. þess, sem hefir verið samþ.

Erfðafjárskattinn hefir stjórnin áætlað 11 þús. kr., en á að eins 3 mánuðum hefir skattur þessi orðið hjer í Reykjavík 20 þús. kr., og áætlun nefndarinnar um að hækka þennan lið um 6 þús. kr., eða 1/3 part, er geysivarleg.

Vitagjaldið er hækkað samkvæmt samþ. lögum frá þinginu.

Útflutningsgjaldið leggur nefndin til að verði hækkað um 50 þús. kr. Þessi liður er fremur óábyggilegur, því hann fer mjög eftir því, hvernig síldveiðin reynist, en hún er stopul. En þessi hækkun er bygð á útreikningi stjórnarinnar um þetta við annað mál, og þar sem einn aðalliður gjaldsins hefir verið sexfaldaður, og nýjum liðum bætt við, þá ættu tekjurnar á þessum lið að fara fram úr áætlun í hverju litlu meðalári.

Áfengistollurinn leggur nefndin til að verði hækkaður um 25 þús. kr., og er það gert með tilliti til þess, hvernig hann hefir reynst, og það eru því miður litlar líkur til þess, að hann minki.

Þá leggur nefndin til, að stimpilgjaldið verði hækkað. Það er áætlað afarlágt, en fer talsvert eftir síldaraflanum. Nefndin hefir haft það 50 þús. kr. hærra fyrra árið, vegna þess, að þá verða og fluttar út vörur frá þessu ári.

Pósttekjurnar leggur nefndin til að verði hækkaðar um 10 þús., og er það með tilliti til þess, að burðargjald undir blöð og tímarit hefir verið hækkað. Auk þess má gera ráð fyrir, að tekjurnar verði meiri þegar póstferðum fjölgar, og eins ef vörutollslögin verða samþ.

Um símatekjurnar hefir nefndin farið milliveg á milli stjórnarinnar og landssímastjórans, og telur nefndin áætlunina um þetta varlega, því alt bendir á, að þær fari mjög hækkandi.

Árið 1918 urðu tekjur af Íslandsbanka 140 þús. kr., og það er alt útlit fyrir, að þær verði ekki minni þetta ár, því það er gott ár fyrir bankana. Nefndin leggur því til, að þessi liður verði hækkaður upp í 120 þús. kr. fyrra árið, en lætur hann standa óhaggaðan síðara árið, því á þessum byltingarinnar tímum er ómögulegt að segja hvernig þá veltur.

Ágóðahlutinn af Landsbankanum hefir orðið fjórum sinnum meiri en stjórnin áætlar, og nefndin lítur svo á, að það megi ekki áætla þann lið meiri en helmingi lægri en reynslan bendir til. Annars er það um þennan lið að segja, að hann er einn með sárustu tekjum ríkissjóðs, því hann er tekinn frá eigin barni ríkisins. Jeg þekti eitt sinn mann, er hjálpaði bróður sínum um peninga, og áskildi sjer 20% í vöxtu, en hjer tekur ríkið af barni sínu 22%. (M. K.: Barnið er fært um það). Það getum við má ske sagt. Stjórnin greiðir bankanum nú 100 þús. kr. á ári, en tekur svo alt af honum aftur í sköttum. Hvar er þá styrkurinn? Því það var tilgangurinn að styrkja bankann. En þetta mun koma af því, að það hefir enginn búist við því, að bankinn ætti slíka framtíð fyrir höndum. Annað mál er að vanvirðulítið er að taka við þessu á meðan Landsbankinn kvartar ekki.

Loks ber nefndin fram nýjan tekjulið, 10 þús. kr., og er það gert eftir nýsamþyktum lögum frá þinginu, um skatt á brjóstsykurs gerð.

Nefndin leit svo á, að vel mætti hækka ýmsa smærri liði, þótt hún kæmi sjer saman um að bera ekki fram brtt. um það.

Alls nema hækkanir nefndarinnar 1188 þús. kr.; af því eru 240 þús. samkvæmt lögum, en 948 þús. frá nefndinni.

Eins og fjárlögin komu hingað frá hv. Nd., þá var nokkur halli á þeim, en ef brtt. nefndarinnar verða samþ., verður tekjuafgangur tæplega 700 þús. kr., en vafalaust mun takast að höggva talsvert skarð í það hjer í hv. deild. En svo hefir ríkissjóður ýms gjöld, sem ekki eru í fjárlögunum, og jeg teldi því illa gengið frá þeim með tekjuáætlun, sem væri ekki varleg. Hún verður að vera miðuð við það, sem tekjur ríkisins ættu að vera í laklegu meðalári. Jeg hygg, að á næstu árum aukist tekjurnar, því framleiðendur hafa mikla atburði til að auka framleiðsluna. Nægir að benda á, að margir trollarar eru í smíðum, sumir væntanlegir hingað í ár, aðrir að ári, og það drýpur drjúgum.