21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

29. mál, siglingalög

Frsm. (Karl Einarsson):

Frv. þetta, sem stjórnin hefir lagt fyrir þingið, er eðlileg afleiðing sambandslaganna, sem gengu í gildi 1. des. 1918. Breytingarnar eru nálega eingöngu þær, að að eins íslenskum skipum er heimilt að sigla undir íslenskum fána; aðrar breytingar, sem gerðar eru, standa í sambandi við það. Í núgildandi lögum eru skilyrðin fyrir að fá skip skrásett hjer á landi annaðhvort innborinna manna rjettur eða búseta. Hjer er ekki krafist innborinna rjettar, en hlutaðeigandi verður að hafa haft eins árs heimilisfestu hjer á landi, en flytji hann af landi burt, missir hann rjettinn, og er það ákvæði eins og í núgildandi lögum.

Nefndin vill ráða hv. deild til að samþykkja frv. óbreytt að efni til. Fyrsta brtt. nefndarinnar er eingöngu orðabreyting, og önnur brtt. er að eins til að skýra ákvæði greinarinnar betur. Þriðja breytingin er um, að þau skip, sem voru skrásett hjer fyrir 1. des. síðastliðið ár, haldi þeim rjetti. Fjórða brtt. er bein afleiðing af hinum. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða um þetta mál meir, en legg til, að hv. deild samþykki frv. með á orðnum breytingum.