19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Þessar upplýsingar hv. frsm. (M. T.) breyta ekki þeirri mynd, sem jeg hefi dregið af fjárhagnum. Jeg hefi tekið það skýrt fram, að tekjuhlið fjárlaganna væri mjög varlega áætluð. Þegar jeg lagði fram fjárlögin í hv. Nd., sagði jeg um þetta: „Tekjuhlið fjárlaganna hygg jeg sje mjög varlega áætluð, og býst jeg því við, að ef fjárlögin færu út úr þinginu, eins og þau eru nú úr garði gerð, þá mundi enginn halli verða á þeim“.

Það hefir verið siður allra stjórna vorra í mörg ár, að leitast við að áætla tekjuhlið fjárlaganna mjög varlega, og af því að þeirri gullnu reglu hefir verið fylgt, þá hefir hallinn oft unnist upp. Stjórnin taldi sjálfsagt að halda áfram á þessari braut, og þeim mun fremur, þar sem erfitt var að segja, hvernig umhorfs yrði í heiminum og hver áhrif það hefði á okkur. Að hinu gekk jeg ekki ódulinn, að tekjurnar yrðu meira en áætlað var, og jeg býst við, að fjárhagsnefnd hv. Nd-líti og svo á þetta mál. En það má ekki gleyma því, að ýms útgjöld ríkissjóðs eru ekki færð í fjárlögunum, og þarf ekki annað en líta í landsreikninginn til þess að sjá, að útgjöld samkvæmt sjerstökum lögum er ekki lítil fúlga, og svo verður það áfram. Við vitum af launalögunum, og svo hygg jeg ekki ofdjúpt tekið í árinni, þótt jeg segi, að útgjöld eftir öðrum lögum nema fyllilega því, er hv. nefnd hefir hækkað tekjuliðina.

Þetta tek jeg fram til að sýna, að mynd sú, er jeg brá upp af fjárhagnum, er alveg rjett í öllum aðalatriðum.

Jeg sje ekki ástæðu til að ræða hverja brtt. fyrir sig, læt jeg mjer nægja að vísa til athugasemdanna með frv. stjórnarinnar, enda hygg jeg, að tekjurnar verði eins miklar og nefndin áætlar.

En rjett hefði má ske verið að færa meðal útgjalda í fjárlögunum sjerstaka upphæð, er kölluð væri: „Útgjöld samkvæmt sjerstökum lögum“, og býst jeg þá við, að þá sæist berlega, hve rjett og skýr mynd mín af fjárhagsástandinu er.