15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

29. mál, siglingalög

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Eins og nál. á þgskj. 238 ber með sjer, er frv. þetta, sem er stjórnarfrv., komið frá háttv. Ed. Er það bein afleiðing sambandslaganna. Aðalbreytingin, sem á því hefir orðið í hv. Ed., er sú, að bætt hefir verið inn í frv. nýrri grein, sem veitir þeim skipum, er tekin hafa verið upp í skipaskrá yfir íslensk skip 1. des. 1918, undanþágu frá ákvæðum 1. gr. frv. Hafði sjávarútvegsnefndin ekkert verulegt að athuga við þetta. En síðan sjávarútvegsnefnd gaf út álit sitt um frv. þetta hefir komið fram brtt., við það frá háttv. 2. þm Árn. (E. A.). Í þeirri brtt. er kveðið svo á um, að þeir einir, þegar um einstaka menn er að ræða, megi láta skip sín sigla undir íslenskum fána, sem hafi íslenskt ríkisfang, eða hafi að öðrum kosti óslitna 5 ára búsetu að baki sjer hjer á landi síðustu árin. Í stjórnarfrv. er aftur á móti ríkisfangið ekki sett sem skilyrði fyrir notkun fánans, heldur 1 árs búseta.

Þegar um fjelagseign á skipi er að ræða er heimild þessi nokkuð nánar sundurliðuð í brtt. en í stjórnarfrv., eftir því, hvernig ábyrgð hvers fjelaga á skuldum fjelagsins er háttað.

Eins og framhaldsnál. á þgskj. 347 ber með sjer, hefir nefndin, eftir að hafa athugað brtt. allrækilega, komist að þeirri niðurstöðu, að rjett muni vera að fallast á hana, en þó að eins með þeirri breytingu, að þeir, sem hafa íslenskt ríkisfang, hafi enn fremur eins árs búsetu hjer á landi. Nefndin leggur mjög mikla áherslu á brtt. þessa og leggur mikla áherslu á, að hún verði samþykt. Ef þessi ákvæði verða þrengd, eftir því sem brtt. háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) og nefndarinnar fara fram á, verður betur fyrir það girt, að erlendar þjóðir geti undir sjerstökum kringumstæðum komið skipastól sínum, og jafnvel flota, undir íslenskan fána. Gæti það orðið bagalegt, eins og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) bendir á í greinargerðinni fyrir brtt. sínum, ef aðrar þjóðir, t. d. á stríðstímum, ættu hægt með að koma flota sínum undir fána vorn. Á þessa leið, sem hjer er farin, er einnig bent í athugasemdunum við stjórnarfrv., en þó er horfið að hinni, þar sem sagt er, að eins árs búseta sje einfaldari.

Þar sem tryggilegar virðist um hnútana búið með því að samþykkja áminstar brtt., álítur nefndin rjett að hallast að þeim. Í þessu máli sem öðrum gildir málshátturinn gamli: „allur er varinn góður“.