15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

29. mál, siglingalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Eiginlega hafði jeg ekki hugsað mjer að taka til máls fyr en háttv. 2. þm. Árn. (E A.) hefði talað með brtt. sínum, en þar sem jeg sje, að háttv. þm. (E. A.) bíður eftir því, að jeg taki fyrst til máls, þá gríp jeg nú tækifærið.

Nefndin, sem fjallaði um þetta mál í hv. Ed., fjelst á stjórnarfrv. svo að segja óbreytt, og er það nú komið til hv. Nd. Fyrst lýsti nefndin, er hafði frv. til athugunar hjer í hv. deild, því yfir, að hún fjellist algerlega á stjórnarfrv., en eftir að brtt. háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hafa komið fram lýsir sama nefnd því yfir, að hún fallist á þær, með þó einni allverulegri breytingu, sem jeg benti háttv. nefnd á, að undir öllum kringumstæðum yrði að gera við brtt. hv. 2. þm. Árn. (E. A.).

Sundurliðanir þær á brtt. hv. 2. þm. Árn. (E. A.), eftir því, hvort skipið er eign einstaks manns, eða fjelags, þar sem sumir hafa fulla ábyrgð, en aðrir takmarkaða ábyrgð, eða hvort það er hreint hlutafjelag, o. s. frv., eru engin efnisbreyting, því þeir liðir, sem hjer eru taldir, falla undir 2 aðalreglur frumvarpsins, um hlutafjelög og þá, sem hafa fulla persónulega ábyrgð á skuldum.

En aðalþungamiðjan í breytingartill. hv. 2. þm. Árn. (E. A.) er það sama, sem greindi á milli stjórnarinnar og dansk-íslensku nefndarinnar, nefnilega það, að nefndin vildi, að ríkisborgarar og þeir, sem njóta sama rjettar og þeir, Danir, gætu átt skip, þó þeir hefðu ekki búsetu hjer að neinu leyti. Þetta gat jeg ekki fallist á, og tók þessar breytingar dansk-íslensku nefndarinnar ekki til greina.

Af því leiðir aftur, að ef t. d. Danir lenda í ófriði, sem Íslendingar geta algerlega verið utan við, þá gætu þeir komið flota sínum undir íslenskan fána.

Hin aðalbreyting háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) er það, að hann vill, að þeir, sem ekki eru ríkisborgarar hafi ekki rjett til að eignast íslensk skip og fá það lögskráð fyr en þeir hafa verið hjer í 5 ár.

Í stjórnarfrv. er það tekið fram í athugasemdunum, að fara megi þá leið í þessu máli, að heimta ríkisborgararjett + 1 árs dvöl og lengri búsetu fyrir útlendinga. Í sjálfu sjer hefir stjórnin því vakið eftirtekt á þessum lengri dvalartíma, og getur því ekki snúist öfug á móti þeirri brtt., þó hún telji hættulaust og hagkvæmast að hafa tímann styttri.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði um, að ef málið yrði afgreitt þannig, að heimta eins árs dvöl fyrir alla, þá leiddi þar af, að þeir, er uppfylt hefðu þetta skilyrði, fengju rjett til að veiða hjer í landhelgi, þó þeir væru ekki ríkisborgarar. Á þetta get jeg ekki fallist, og vil að eins vísa í lög um þetta efni frá 1901. Er þar gert beint að skilyrði fyrir því að veiða í landhelgi, að hafa ríkisborgararjett.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði um, að það bæri ekki mikinn vott um ræktarsemi við íslenska fánan, að gera ekki skilyrðin erfiðari til þess að fá að nota hann. Mjer finst háttv. þm. (E. A.) höggva hjer nærri sjer, því jeg sje ekki betur en að heilli þjóð, sem er miklu stærri en við, sje skilyrðislaust leyft að nota fánann, ef brtt. hans um ríkisborgararjettinn einan, sem skilyrði fyrir að eiga skip, verða samþyktar. Sbr. ákvæðin í sambandssamningnum.

Í núgildandi lögum eru engin ákvæði um hvað búseta fyrir útlendinga eigi að vera löng, að eins nóg að þeir hafi búsett sig hjer, en nákvæm skýring á því, hvað til þess heimtist, er engin. Stjórnarfrv. heimtar aftur eins árs búsetu, og átti sá tími að vera trygging fyrir því, að útlendingar gætu ekki á stríðstímum skrásett skip sín hjer, og gert það sem „hermanövre“. En þegar ársdvöl er skilyrði fyrir að geta eignast skip, þá er ekki mikil hætta á því.

Þar sem nú í stjórnarfrv. er minst á, að einnig mætti fara þá leið, að krefjast ríkisborgararjettar + búsetu, þá get jeg ekki risið á móti frv., þó sú breyting yrði sett inn í frv. Þó vil jeg leggja áherslu á, að ekki má samþykkja breytingartill. hv. 2. þm. Árn. (E. A.), nema brtt. nefndarinnar verði samþykt, eins og jeg hefi tekið fram hjer á undan.