15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

29. mál, siglingalög

Einar Arnórsson:

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma býst jeg ekki við, að þetta mál verði neitt þrætuepli.

Jeg hefi að vísu sagt, að jeg áliti það „principielt“ rjett, að ríki skyldi veita þegnum sínum rjett til þess að sigla undir fána sínum. Þó mun jeg geta sætt mig við brtt. sjávarútvegsnefndar til samkomulags. Og þar sem brtt. mínar ganga í sömu átt og stjórnin getur um í athugasemdum sínum, að eins vel geti komið til mála og tillögur stjórnarinnar, þá get jeg ekki sjeð, að hjer beri svo mikið á milli, að deila þurfi mikið um það.

Jeg vildi þó athuga nokkur atriði í ræðu hæstv. fjármálaráðh. (S. E.).

Það er rjett, að till. mín stefnir í sömu átt og álit hinnar dansk-íslensku ráðgjafarnefndar, í 1. tölulið fundargerðar hennar um þetta mál, og allir nefndarmennirnir voru sammála um þetta atriði Þar segir svo: „Nefndin álítur það æskilegt, að 1. gr. í báðum þessum lögum sje þannig orðuð, að annaðhvort íslenskur ríkisborgararjettur eða alllöng dvöl, t. d. um 5 ár samfleytt, sje gerð að skilyrði fyrir því, að maður fái skrásett skip sitt á Íslandi“. Það er einmitt þetta atriði, sem jeg hefi farið fram á, og það varð samkomulag allra nefndarmannanna.

Jeg talaði við hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) um ástæðuna fyrir því, að setja ríkisborgararjett + 1 árs búsetu. Og skoðunarmunur okkar í þessu efni stafar af því, að okkur greinir á um, hvernig beri að skilja eitt atriði í sambandslögunum. Það er, að Danir hafi heimild til að láta skrásetja skip sín hjer og sigla undir íslenskum fána sem hjerlendir menn. En þetta er ekki rjettur skilningur á þessu atriði sambandslaganna. Jeg hygg, að engum nefndarmanni hafi dottið í hug í fyrra, að jafnrjettið væri svo víðtækt. Og jeg hygg, að Danir líti svo á, að íslenskir ríkisborgarar geti ekki átt heimtingu á þessum rjetti í Danmörku, og ráðgjafarnefndin hefir litið svo á málið. Því að í 2. tölulið nefndarálitsins stendur: „Enn fremur vill meiri hluti nefndarinnar skjóta því til íslensku og dönsku stjórnarinnar, hvort ekki virðist vel til fallið að breyta íslenskum og dönskum siglinga- og skrásetningarlögum þannig, að skilyrði þau, er sett eru hlutafjelögum og stjórnum þeirra um heimilisfang og bústað, eigi sjer ekki stað millum Íslands og Danmerkur innbyrðis.“

Jeg hygg, að óhætt sje að fullyrða, að nefndin hafi gert ráð fyrir, að sín hvor lög og rjettur giltu hvor í sínu landi. Annars skal jeg ekki deila um þetta, því jeg ætla ekki að gera mínar brtt. að ágreiningsatriði við brtt. nefndarinnar. Vegna þess vafa, sem hjer lýsir sjer, vil jeg slá af þessari meginreglu, sem gildir annarsstaðar, að hver ríkisborgari hafi skrásetningarrjett, þótt hann hafi ekki búsetu í viðkomandi ríki. En svo er það þó annarsstaðar. Norðmenn, Bretar og Þjóðverjar, t. d., leyfa sínum þegnum að sigla undir fána ríkisins hvort sem þeir eru búsettir utan ríkis eða innan. Danir hafa aftur á móti haft tvennskonar skilyrði, ríkisborgararjett eða 5 ára búsetu.

Hæstv. fjármálaráðh. sagði, að ef Danir færu í stríð, gætu þeir siglt flota sínum undir íslenskum fána. Ef skilningur hans á umræddu atriði sambandslaganna væri rjettur, væri þessi skoðun á rökum reist. En þetta gæti orðið svipað eftir frv. stjórnarinnar. Því að þótt talað sje um búsetu í þrengri eða rýmri skilningi, þá er hætt við, að framkvæmdarvaldið eigi erfitt með að gera greinarmun á þessu. Jeg veit ekki til, að til sje nein skilgreining á búsetu. Það þyrfti að gera grein fyrir búsetu í þrengri skilningi. Að mínum dómi þyrfti hún að vera skilgreind á þá leið, að maðurinn hefði ekki að eins herbergi, eldstó og matseld innan ríkisins, heldur og fjölskyldu sína. En þessa skilgreiningu vantar í frv. og sömuleiðis í löggjöf vora. Jeg hygg, að útlendingum veitist tiltölulega auðvelt eftir frv. stjórnarinnar að fá skip sín skrásett hjer og koma þeim undir íslenskan fána, ef þeir sæju sjer á annað borð hagnað í því. Og jeg er hræddur um, að ófriðarþjóðir mundu ekki virða það mikils, þótt skip sigldu undir íslenskum fána á stríðstímum, þar sem jafnauðvelt er að koma skipi undir íslenskan fána eftir frv. stjórnarinnar. Jeg er hræddur um, að íslenskur fáni mundi ekki skýla mikið skipum, íslenskum eða öðrum, ef skilyrðin til að sigla undir honum eru ekki strangari en í stjórnarfrv. Þetta vegur mikið í mínum augum, og tel jeg því nauðsynlegt að breyta frv. í þá átt, sem jeg legg til. Það gæti vel hugsast, að margir flyttu skip sín hingað í stríðsbyrjun, áður en hafbann kæmist á, hefðu þau hjer lögákveðinn tíma og ljetu síðan skrásetja þau hjer og kæmu þeim undir íslenskan fána.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) talaði um landhelgisgæsluna. Að vísu hafa íslenskir þegnar og danskir nú einir leyfi til að fiska í íslenskri landhelgi, samkv. lögum nr. 35, 27. sept. 1901, og 6. gr. sambandslaga 30. nóv. 1918. En ef aðrir en þessir geta siglt skipum sínum undir vorum fána, þá fá þeir raunverulegt færi á að fiska hjer í landhelgi, því að hvernig ætti að banna þeim það? Hvernig ætti varðskip að þekkja sundur útlend skip, sem sigldu undir íslenskum fána, og íslensk skip, sem sigla undir sama fána, er um landhelgisbrot væri að ræða. Jeg fæ ekki betur sjeð en það yrði að láta sjer nægja að reka þau ein skip úr landhelginni, sem ekki hefðu íslenskan fána. Jeg veit ekki, hverja aðra leið varðskipið gæti farið. Hjer með á jeg þó auðvitað ekki við botnvörpunga, því að lögin ganga jafnt yfir þá alla, og það er auðvelt að þekkja þá frá öðrum skipum. Og þessu atriði verður að leggja töluvert upp úr.

Jeg finn ekki ástæðu til að eyða fleirum orðum að þessu, því að jeg hefi engan ákveðinn andstæðing og síst nefndina; og jeg sje ekki betur en stjórnin megi vel við una, þar sem hún hefir beinlínis vikið að þessum möguleikum og sýnist ekki telja þetta óþarft, heldur að eins álitamál, hvora leiðina skuli fara.