15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

29. mál, siglingalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hefi ekki getað skilið sambandslögin á aðra leið en ef ákveðið væri, að íslenskir ríkisborgarar hefðu þennan rjett, hefðu danskir ríkisborgarar hann líka. Sú skoðun hefir yfirleitt vakað fyrir mjer, eins og hv. 2. þm. Árn. (E. A.) veit, að ekki sje eðlilegt að veita öðrum mikinn rjett hjer á landi en þeim, sem ætla að dveljast hjer. Og jeg álít, að þetta eigi að gilda jafnt um íslenska ríkisborgara sem aðra, t. d. Vestur-Íslendinga, er ekki hafa búsetu hjer á landi.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) vísaði til 2. liðs í áliti samninganefndarinnar og skildi hann á þá leið, að nefndin hafi gert ráð fyrir, að hvoru landi væri frjálst að setja í lög sín þau skilyrði í þessu efni hlutafjelögum um heimilisfang og bústað sem því sýndist.

Um búsetuna er það rjett, að hún er hvergi skilgreind í íslenskum lögum. En jeg held, að dómstólarnir mundu líta þann veg á þetta atriði, að maður, sem hefði hjer dúk og disk, væri hjer búsettur. Hins vegar veit jeg ekki, hvað kynni að verða heimtað af einstökum mönnum, sem ekki hefðu hjer dúk og disk; ætli það væri ekki nóg, að þeir hefðu tekið sjer hjer bólfestu og ætlað væri að þeir mundu vera hjer áfram?

Hitt má deila um, hversu fresturinn á að vera langur. Það sem skiftir mestu máli í þessu sambandi, er það, hvort varhugavert sje, að maður, sem hefir verið búsettur hjer á landi 1 ár, megi eignast skip undir eins að þeim tíma loknum. Eina sýnilega hættan við þetta ákvæði er sú, að það gerði mönnum auðvelt að koma skipum sínum undir íslenskan fána á ófriðartímum. Þar sem enginn getur fengið hjer skip skrásett, nema hann hafi dvalið hjer eitt ár, þá væri það nokkuð seinleg ófriðarráðstöfun að koma manninum fyrir til ársdvalar hjer, áður en skipin yrðu skrásett. Jeg held þess vegna, að eitt ár sje nægilega langur tími.

Um landhelgisrjettinn er það að segja, að ef hann væri veittur fleirum en er, væri þetta atriði, sem hefði töluverða þýðingu. Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hjelt, að varðskipi mundi verða erfitt að þekkja sundur skip, sem hefðu rjett til að veiða hjer í landhelgi, og hin, sem ekki hefðu þennan rjett. En þar til er því að svara, að jeg skil ekki annað en varðskipið gæti þekt þau í sundur á númeri og nafni. Enda mætti gera ráð fyrir, að þeir, sem hefðu þennan rjett, mundu segja til hinna, sem ekki hefðu hann. Þetta virðist því fremur vera grýla. En þó fresturinn fyrir útlendinga sje lengdur, þá má vel vera, að það skifti ekki mjög miklu máli, en varla er það til hagsmuna fyrir oss. Það er alt öðru máli að gegna um búseturjett eða kosningarrjett hjer á landi, rjettinn til að ráða í landinu. Það er eðlilegt, að gerðar sjeu strangar kröfur til þess að tryggja þennan rjett. Hitt er ekki eins mikils virði.

Það er rjett, sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að stjórnin lítur svo á, að best væri að krefjast eins árs búsetu fyrr alla Hann mintist þess í byrjun ræðu sinnar, að orðin í 1. gr. mundu mega vera meira til skýringar, en fæli hins vegar ekki annað í sjer en það, sem sagt er í frv. stjórnarinnar. Þó er eitt nýtt atriði, sem hjer kemur til greina. Það er, að stjórnendur hlutafjelaga verða að eiga hlut í fjelaginu.

Mín skoðun er þá í stuttu máli þessi: Jeg álít í sjálfu sjer einfaldast að samþykkja stjórnarfrv. Hins vegar álít jeg ekki hættulegt að samþykkja till. 2. þm. Árn. (E. A.), ef till. nefndarinnar eru samþyktar með, en það er nauðsynlegt, og þá er fyrirkomulagið á málinu það, sem stjórnin vjek að í athugasemdum sínum.