15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

29. mál, siglingalög

Fjármálaráðherra (S. E ):

Jeg veit ekki, hvort jeg má skilja hv. 2. þm. Árn. (E. A.) þannig að hann álíti, að danskir ríkisborgarar geti ekki fengið skip sín skrásett hjer á landi, nema sem íslenskir ríkisborgarar, nje heldur íslenskir ríkisborgarar í Danmörku. Þó skilst mjer skoðun hans vera sú. Með því að þetta snertir fleira í sambandslögunum, væri fróðlegt að fá að heyra af vörum hv. þm. (E. A.), hvort öll sambandslaganefndin hafi verið sammála og haft sömu skoðun á þessu sem mjer sýnist hv. þm. (E. A.) hafa. Jeg vil gera mjer far um að skilja sambandslögin sem rjettast og samkvæmast því, sem höfundar þeirra ætluðust til að þau ættu að skiljast, og því þykir mjer mikils vert að fá yfirlýsingu um þetta frá einum í nefndinni. Eftir mínum skilningi er það ótvírætt, að Danir hafa rjett til að fá skip sín skrásett hjer, ef ekki er gerð önnur krafa en ríkisborgararjetturinn einn, án nokkurrar búsetu.

Jeg ætla svo ekki að fara út í önnur atriði sem jeg og hv. 2. þm. Árn. (E. A.) höfum rætt um, því það yrði að miklu leyti endurtekning á því, sem jeg hefi áður sagt. En út af ummælum hv. þm. Borgf. (P. O.) tel jeg það heppilegra, að frv. stjórnarinnar sje samþykt óbreytt, og þótt jeg geti ekki andmælt breytingum þeim, sem vikið er að í athugasemdum við stjórnarfrv., þá álít jeg þá leið sem stjórnin leggur til að farin sje í frv., óbrotnasta og í alla staði hættulausa. En vilji hv. deild heldur fara hina leiðina, hefir stjórnin ekkert sjerlegt móti því að segja, þótt hún kjósi fremur, að hin leiðin sje farin.