28.08.1919
Efri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

29. mál, siglingalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Aðalbreyting Nd. á frv. er sú, sem háttv. nefnd hefir rjettilega getið um, að útlendingum er sett 5 ára búsetuskilyrði fyrir rjettinum til þess að eiga skip hjer á landi. 1. gr. frv. er að öðru leyti meira sundurliðuð en áður. En í raun og veru falla sundurliðanirnar nákvæmlega undir hinar tvær aðalreglur, sem skift var eftir í frv. stjórnarinnar: 1. skip, sem eru eign einstakra manna, og 2. skip, sem eru eign hlutafjelaga. Auk þess er bætt við í sömu grein ákvæði um, að sjerhver stjórnandi í hlutafjelagi skuli eiga hlut í fjelaginu. Sama ákvæði stendur í sænskum siglingalögum. En það skiftir litlu máli, því að aldrei verða vandræði með að útvega stjórnanda lítinn hlut í fjelagi, sem hann á að veita forstöðu, ef þess er krafist. Þessar breytingar eru því smávægilegar og gera hvorki til nje frá. En aðalbreytingin er sú, sem jeg fyrst gat um.

Í núgildandi lögum er búseta í landinu eina skilyrðið til þess að geta eignast íslenskt skip. Að vísu er engin föst lögskýring til á orðinu „búseta“, en sennilega mundi það verða skýrt svo, að menn yrðu að hafa hjer dúk og disk, eða vera alfluttir hingað að allra vitorði, til að teljast hjer búsettir. Kröfurnar eru því meiri í stjórnarfrv., þar sem eins árs heimilisfesta er sett að skilyrði. En breyting Nd. fer lengst. Aðalástæða flutningsmanns þessarar brtt. í Nd. mun hafa verið að koma með þessu í veg fyrir, að útlendingar gætu á ófriðartímum skrásett skip sín hjer á landi til að koma þeim undir hlutlaust flagg. Flutningsmaður mun og hafa haldið, að svo framarlega sem útlendingar öðluðust þennan rjett til að eignast íslenskt skip eftir 1 árs búsetu, þá mundu þeir og öðlast rjett innlendra manna til að fiska í landhelgi. En þetta er ekki rjett. Þann rjett hafa engir aðrir en þeir, sem orðnir eru ríkisborgarar. Eins ætti 1 ár að vera nógu löng töf til þess, að útlendingar gætu ekki átt við það að koma skipum sínum undir íslenskt flagg á ófriðartímum. Það, sem aðallega vakti fyrir stjórninni, er hún hafði heimilisfestuna ekki lengri, var það, að engin ástæða virðist til að meina nokkrum manni að eiga íslenskt skip, ef hann er búsettur hjer. Skoðanamunurinn er ekki svo mikill, að ástæða sje til fyrir stjórnina að steyta hnefann framan í háttv. Nd. En jeg tel leiðina, sem farin er í stjórnarfrv., greiðari og einfaldari, og mun því greiða atkv. með brtt. nefndarinnar.