28.08.1919
Efri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

29. mál, siglingalög

Magnús Kristjánsson:

Mjer skilst helst á hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), sem hann álíti brtt. nefndarinnar vel fallna til þess að ganga fram, og skal mig ekki undra, þótt það reynist rjettur skilningur á hinum óákveðnu orðum ráðherrans, því að brtt. er í fullu samræmi við frv. stjórnarinnar, eins og það var í upphafi. Jeg vil taka það skýrt fram, að þó að sjávarútvegsnefnd neðri deildar fylgdi aðalbreytingu neðri deildar, þá var það að eins með hangandi hendi. Því má búast við, að háttv. Nd. fallist á þá brtt., sem væntanlega verður gerð hjer, þegar þangað kemur. Enda er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að reisa eigi of rammar skorður við því að menn geti aukið skipastól landsins eins og þörf krefur. Ef nánar er að gætt, er ekki minsta hætta á, að útlendingar reyni til að fá skip sín skrásett hjer. Skilyrðin hafa til þessa verið svo væg, að eitthvað hefði sú hætta átt að gera vart við sig. Áður var gert talsvert að því, að láta skrásetja útlend fiskiskip hjer, en því var fljótt hætt, því reynslan sýndi, að það var óhentugt. Útlendingar gátu ekki notað skip sín hjer nema stuttan tíma ársins. En hinn tíma ársins varð svo íslenska skrásetningin þeim til óþæginda. Þess vegna ljetu þeir brátt umskrá skipin aftur heima hjá sjer.

Vegna þessarar reynslu, sem á er komin, leikur mjer grunur á, að breyting Nd. sje gerð aðallega til þess að breyta og til að láta líta svo út, að deildin væri að bjarga okkur frá einhverju ógurlegu glappaskoti. Jeg tel sjálfsagt, að háttv. deild haldi fast við þá skoðun, sem hún hefir áður fallist á í þessu máli, og jeg vona, að hún muni sigra í sameinuðu þingi, ef til kemur.