28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg þarf ekki mörgu við að bæta það, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði viðvíkjandi ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Viðvíkjandi rúgmjölinu, sem skortur var á í vor, get jeg upplýst að skipaskortur var þá mjög mikill, og svo var það af skornum skamti, er stjórnin fjekk af þessari vörutegund í Danmörku.

Það er þó sjerstaklega eitt atriði, sem jeg vil nefna, og er það, að nú síðan þing hófst hefir það vakað fyrir stjórninni að leggja fyrir þingið sem allra greinilegasta skýrslu um allan hag landsverslunarinnar, og ráðgast svo um það við hæstv. Alþingi, hvernig haga skyldi fyrirkomulagi þessarar verslunar í framtíðinni. Að þessi skýrsla er ekki komin fram enn stafar af því, að ekki er enn þá hægt að sjá fram úr, hvernig verslunarástandið verður í heiminum, en þó stafar það sjerstakega af því, að einn af forstjórum landsverslunarinnar hefir ekki verið hjer í bænum. Hans er nú von innan skamms, og verður þá þessi skýrsla lögð fyrir hæstv. Alþingi.

Jeg vil taka fram í þessu sambandi út af orðum háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að jeg vona, að öll bönd verði sem fyrst leyst af versluninni. Það hefir altaf verið mín skoðun að verslun eigi að vera sem minst bundin af lagafyrirmælum, og beri sjerstaklega að varast að nota hana sem tollstofn, heldur verði að afla tekna á annan hátt. Um verslunina hafa sjerstaklega tvær stefnur verið að togast á um hríð, en það er mín skoðun, að þær báðar, bæði samvinnufjelög og kaupmenn, eigi að berjast á sem jöfnustum velli og óhindraðar af lagafyrirmælum. Það má því heita nokkurn veginn víst, að landsversluninni verður ekki haldið lengur áfram en þangað til sjeð verður fyrir endann á verslunarteppunni og hægt er að hætta við hana landinu að skaðlausu.

Jeg skal taka það fram, að það verður töluverður vandi að ganga svo frá öllu, að ekki verði vöruþurð neinstaðar, og verður því að sjá svo um, að bæði kaupfjelögum og kaupmönnum verði heimilað að flytja inn kornvörutegundir löngu áður en einkasalan hættir. Það er ekki nema sjálfsagt að stjórnin hafi eftirlit með þessu í samráði við landsverslunina og kaupmannaráðið. Vona jeg svo, að þegar landsversluninni verði hætt, þá verði það ríkinu að skaðlausu og að nægar matvörutegundir verði þá fyrir hendi í landinu.