29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Frsm. (Benedikt Sveinsson):

Eins og getið er um í nál. og brtt. samvinnunefndar í stjórnarskrármálinu bera með sjer, er allur þorri brtt. einungis orðabreytingar, til þess að bæta málið á frv. í ýmsum atriðum. Um þetta þarf ekki að eyða mörgum orðum, því að breytingarnar bera það með sjer, að þær eru ekki efnisbreytingar. En málið á gömlu stjórnarskránni var ekki sem best; það er skrifstofustíll 19. aldar. Þetta orðbragð gömlu stjórnarskrárinnar er víða óbreytt í frv. stjórnarinnar. Nefndinni þótti ástæða til að vanda málið á þessum lögum, ekki síður en öðrum.

Það er reyndar orðabreyting að „lögráður“ hefir verið bætt inn í 12. gr. En það gerir ákvæðið skýrara og hefir víst verið tilætlun stjórnarinnar, að þetta væri fólgið í ákvæðinu.

Þá er brtt. við 13 gr., að orðin: „Á fundum þessum ræður afl atkvæða“ falli burt. Nefndin var á einu máli um það, að þetta ákvæði geti tæplega staðist, að afl atkvæða skuli ráða á ráðherrafundunum, því að ef svo færi, að forsætisráðherra yrði í minni hluta, mundi hann verða að biðjast lausnar. En það mun þó ekki vera tilætlunin. Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að breytingarnar við 14. og 15. gr. eru orðabreytingar, þar sem lagt er til, að orð falli burtu, sem er ofaukið eða ekki eru nauðsynleg.

Við 16. gr., staflið b., hefir nefndin lagt það til, að á eftir þeirri grein komi ný (17.) grein, svo hljóðandi: „Konungur gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sjer fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi, eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarskipun ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“ Þetta er viðbót, sem nefndin er ásátt um að bera fram Það hefir verið skoðun sumra, að konungur gæti afsalað rjettindum landsins, án samþykkis Alþingis, og þótti nefndinni nauðsyn til bera að girða fyrir allan vafa um svo mikilvægt atriði.

Nefndin leggur til, að 17. og 18. gr verði dregnar saman í eitt, því að efni þeirra fer vel saman í sömu grein, og breytist greinatalan samkvæmt því.

Þá hefir nefndin gert lítils háttar breytingu við 19. gr. Hún er fólgin í því, að orðin: „hins reglulega“ falli burtu. Nefndinni þótti rjett, að sömu ákvæði giltu í þessu efni um aukaþing sem aðalþing. Þá hefir og nefndin stytt frestunartímann úr 4 vikum í 2 vikur.

Við 20. gr. hefir nefndin gert þá breytingu, að í stað 12 mánaða komi 8 mánuðir, sem leiðir af því, að gert er ráð fyrir, að Alþingi komi saman á hverju ári.

Um breytinguna við 24. gr. urðu nokkrar umræður. Vildu sumir fella greinina niður. Varð það þó úr að láta ákvæðið standa og orðinu „saksókn“ bætt inn í greinina.

Við 25. gr. gerði nefndin að eins orðabreytingar, til málfegurðar.

Um 26. gr. var mikið rætt í nefndinni, og komu fram ýmsar till. til breytinga; en þær voru mjög ólíkar og skoðanir manna sundurleitar, og varð því niðurstaðan sú, að nefndin skyldi ekki sem slík gera neinar verulegar breytingar á frv. stjórnarinnar. En þó varð það að samkomulagi í nefndinni, að svo framarlega sem fram kæmi brtt., þá skyldu nefndarmenn hafa óbundnar hendur. Nefndin hefir lagt til, að skotið væri inn í þessa grein nýrri málsgrein, svo hljóðandi: „Með lögum má ákveða, að þingmenn Reykjavíkurkaupstaðar skuli kosnir hlutbundnum kosningum, og gilda þá um kosningarrjett og kjörgengi sömu reglur sem við óhlutbundnar kosningar.“ Nefndinni þótti rjett að taka upp þessa heimild fyrir Reykjavík, svo að eigi þyrfti að breyta stjórnarskránni síðar, þótt fjölgað yrði þingmönnum í Reykjavík En það þótti gagnslítið að fjölga fulltrúum bæjarins á þingi, ef meiri hluti í bænum rjeði einn úrslitum kosninganna, eins og nú á sjer stað. En jafnframt var gert ráð fyrir því í nefndinni, að um leið og þessi breyting yrði í lög tekin væri öðrum núverandi tvímenningskjördæmum landsins breytt í einmenningskjördæmi.

Af þessari breytingu stafa ýmsar orðabreytingar við 27., 28., 29. og 30. gr., og þarf jeg ekki að skýra það mál frekara.

Um 29. gr. varð mikil deila í nefndinni. En af því að það verður alllangt mál. áður en á enda sje kljáð. þá mun jeg geyma það þangað til jeg hefi farið yfir aðrar smærri brtt.

Við 34. gr. hefir nefndin að eins bætt inn því ákvæði, að sameinað Alþingi hafi heimild til að senda konungi ávörp, eins og hvor þingdeild fyrir sig. Þetta hefir reyndar verið venja á undanförnum tíma, en orkað tvímælis, hvort löglegt væri Þótti nefndinni rjettara, að þetta vari heimilað berum orðum í stjórnarskránni.

Þá hefir nefndin lagt til, að sú breyting yrði gerð á 36. gr., að í stað orðanna: meina af jarðeignum“ komi: „neina af fasteignum landsins nje afnotarjett þeirra“. Nefndinni þótti ákvæðið „jarðeignum“ eigi nógu víðtækt.

Þá kem jeg að 27. brtt. nefndarinnar, við 38. gr. frv., þar sem talað er um fjárlagafrumvarpið og að í því skuli fólgin greinileg skýrsla um tekjur ríkisins og gjöld. Þetta fanst nefndinni ekki sem best orðað, að nefna greinilega skýrslu það, sem ekki getur verið annað en áætlun eða spádómur, meira eða minna nær sanni, um hverjar verði tekjur ríkisins og gjöld; því þótti nefndinni betur fara að setja þar „greinargerð“.

Þá eru allar næstu brtt. ekki annað en orðabreytingar, alt út að 33 brtt.; þar vill nefndin að bætt sje inn í „eða drengskaparheit“. Jeg tók það fram áður, er jeg talaði um 7. brtt., að það væri í samræmi við lög vor um eiða og drengskaparheit, og væri því rjettara að láta það einnig koma fram í stjórnarskránni.

Með 35. brtt. breytir nefndin orðinu „talað“ í „sagt“. Sagt er nokkru víðtækara; það tekur og yfir það, sem þm. hefir ritað, t. d. í nefndaráliti.

36. brtt. er að eins orðabreyting.

37. brtt. er í raun rjettri ekki annað en lagfæring þess orðalags, sem stendur í stjórnarskránni og frv. stjórnarinnar, því að auðvitað er hjer átt við meira en helming þm. í hvorri deild, en ekki helming allra þm.

38. brtt. er líka orðabreyting, en skýrara orðuð en í stjórnarfrv., þar sem það er þannig orðað, eins og það sje ekki ályktun að vísa máli til stjórnarinnar.

Með 39. brtt. er 53. gr. stjórnarskrárinnar orðuð upp, en er engin efnisbreyting.

40. og 41. brtt. eru og orðabreytingar.

Í 42. brtt. er prentvilla. Seinni hluti greinarinnar á að vera þannig orðaður samkvæmt brtt.: „nema eftir dómsúrskurði, eða sjerstakri lagaheimild.“ Þetta bið jeg forseta að athuga.

43. brtt. er í samræmi við það, sem áður er komið og jeg gat þá um. Nefndinni þótti rjett, að það væri tekið fram í stjórnarskránni, að ef ákvæði vantaði um heimild útlendinga til þess að eiga, ekki einasta fasteignir, heldur og fasteignarjettindi hjer á landi, þá skyldi því skipað með lögum.

44. brtt. er að eins orðabreyting.

Sama er að segja um 45. brtt. og enn fremur 46. brtt., þar sem nefndin leggur til, að í stað orðanna: „breytingu á sambandinu milli“ komi: „breytingu á sambandslögunum“.

Jeg hefi nú minst á flestar breytingar nefndarinnar og vona, að hv. þingdm. geti áttað sig á þeim við samanburð á þeim og stjórnarfrv., og hafi mjer sjest yfir eitthvað, mun jeg síðar geta skýrt það, eða aðrir samnefndarmenn mínir.

Þá kem jeg síðast að þeirri brtt., sem jeg geymdi áðan, brtt. við 29. gr. frv. Hún hefir valdið mikilli og langri deilu.

Nefndin hefir klofnað um kosningarrjettarákvæðin í 29. gr. stjórnarskrárfrv., eins og nefndarálitið ber með sjer, og vil jeg skýra þann skoðanamun frá sjónarmiði meiri hlutans nokkru gjör en gert er í nefndarálitinu og jafnframt rifja upp helstu atriðin, sem þar eru tekin fram.

Fyrst vil jeg víkja að þeim ramma misskilningi sem mjög bryddir á manna á meðal og rækilega hefir verið studdur og árjettur í sumum blöðum hjer, að brtt, meiri hlutans, 5 ára búsetuskilyrði í stjórnarskránni fyrir kosningarrjetti, sje eitthvert nýmœli, sje breyting frá því, sem er, og uppátæki nýjungagjarnra þingmanna, sem sum blöðin hafa verið að kenna einum þeirra og öðrum. Í þessu birtist furðumikil fáfræði, þar sem 5 ára búsetuskilyrðið stendur í núgildandi stjórnarskrá.

Ákvæðið var fyrst tekið upp í stjórnarskrárfrumvarp í efri deild 1911, af stjórnarskrárnefndinni þar, allri í einu hljóði, og hefi jeg ekki sjeð, að það hafi valdið neinum andmælum í þinginu.

Ákvæði þetta var síðan tekið óbreytt upp í stjórnarskrárfrv. það sem vjer þrír þingmenn bárum fram í Nd. 1913. Sætti það þá engum mótmælum. Báðir flokkar studdu það jöfnum höndum, og engin rödd heyrðist á móti því. Komst svo ákvæðið í lög í stjórnarskipunarlögunum 19. júní 1915.

Það var fyrst í sambandslaganefndinni í fyrra, að dönsku fulltrúarnir hreyfðu því að afnema yrði mismun þann, sem nú er í stjórnarskránni á kosningarrjetti en skilyrði fyrir kosningarrjetti, sem hjer um ræðir, eru sem kunnugt er þau, að annaðhvort þarf maðurinn að vera fæddur á Íslandi, eða hafa verið hjer búsettur síðustu 5 árin áður en kosning fer fram.

Þessi ákvæði þótti dönsku fulltrúunum koma í bága við jafnrjettisákvæðið í 6. gr. sambandslaganna, þar sem búsetuskilyrðið náði ekki til Íslendinga.

Andstæðingar sambandslaganna óttuðust að nema þyrfti burtu 5 ára skilyrðið, samkvæmt sambandslögunum, og var það eitt meðal annars, er þeir bygðu á mótstöðu sína gegn lögunum.

En þessu var harðlega neitað af öllum forsvarsmönnum sambandslaganna í báðum deildum þingsins, í nefndarálitum meiri hlutans og ræðum framsögumanna og annara, sem til máls tóku. Staðhæfðu þeir og leiddu rök að, að eins mætti afmá þann mismun, sem dönsku fulltrúarnir töldu vera, með því að láta 5 ára búsetuna nú til allra jafnt, hvort sem fæddir væru á Íslandi eða ekki. Var því meira að segja heitið þá, að sá breyting skyldi á þessu verða gerð, af öðrum helsta flutningsmanni sambandslaganna hjer í deildinni, og hefir hann nú sýnt, að hugur fylgdi máli, og hefir ekki gengið á bak orða sinna.

Sambandslagafrumvarpið var því beint samþykt af þinginu í fyrra með þeim skilningi, því fororði og þeim áskilnaði, að svo skyldi breytt til um fyrgreindan „mismun á kosningarrjetti“, sem meiri hl. mælir nú fram með.

Sama var meðal kjósenda utan þings. Því var haldið fast fram í ræðu og riti af fylgismönnum sambandslaga, að svo skyldi úr þessu ráðið, sem meiri hlutinn leggur til, og er enginn vafi á því, að þessi skilningur og þetta fororð hefir ráðið mjög miklu um fylgi málsins meðal kjósenda í landinu.

Allir geta því sjeð, hve öfugt og fráleitt það er að bregða meiri hlutanum um, að hann sje að bera hjer fram nýmæli.

Hjer er ekki um nýmæli að ræða frá öðrum en stjórninni, er nú fellir búsetuskilyrðið niður í frv. sínu. Er þetta undarlegt tiltæki af stjórninni, og hafði þjóðin síst búist við slíku. Vænti hún þess þvert á móti, að staðið yrði við það, sem sagt var í sambandi við sambandslögin og þau studd með. Bjóst ekki við, að þar yrði látið sitja við orð tóm, heldur látið koma til framkvæmda nú þegar, og mundi þjóðin þykjast harla grátt leikin, ef slíkur rjettarspillir næði nú fram að ganga.

Stjórnin telur fæðingjarjettinn einhlítan sem skilyrði fyrir kosningarrjetti, til þess að varna áhrifum aðvífandi manna, og ber það fyrir sig, að slíkt ákvæði sje látið duga víðast hvar í öðrum löndum. Ef hjer stæði eins á sem í öðrum fullvalda ríkjum, þá mundum vjer og telja fæðingjarjettinn einhlítan. — En því miður, hjer á landi stendur alveg sjerstaklega á, alt annan veg en í flestum eða öllum öðrum þjóðlöndum. Vjer erum í sambandi við annað langt um fjölmennara ríki, og borgarar þess eiga að njóta að öllu sama rjettar hjer í landi sem íslenskir ríkisborgarar. Af þessu leiðir, að trygging sú, er fæðingjarjettur veitir, er ekki slík hjer á landi sem í öðrum löndum; tryggingin hverfur algerlega gagnvart Dönum. Því er það með öllu óhjákvæmileg varnarráðstöfun, að fimm ára búsetuskilyrðið haldi áfram að standa í stjórnarskránni, með þeirri einni breyting, að það nái til allra jafnt, Íslendinga sem Dana. Kosningarrjetturinn felur í sjer svo mikið vald til afskifta og umráða í landinu, að til engra mála getur komið að hrapa enn lengra í því að veita þegnum annars ríkis greiðari aðgang að honum en þegar er orðið, láta enn meir undan síga um þann rjett, sem Íslendingar ættu einir með að fara í sínu landi. Meiri hlutinn fær með engu móti gengið að slíku rjettartjóni, telur það óverjandi gagnvart kjósendum landsins og allri hinni íslensku þjóð.

Hvers vegna er stjórnin að taka upp þetta nýmæli?

Ekki hefir nokkur einasta rödd heyrst á nokkrum einasta þingmálafundi í landinu eða annarsstaðar, sem óskaði þess. Ekki hefir Alþingi óskað eftir því. Hjer hefir nýmæli stjórnarinnar alls ekkert fylgi. Jafnvel minni hlutinn, sem fylgir forsætisráðherra, vill breyta stjórnarfrv. í þessu efni. Hann telur, að búsetutíminn megi ekki styttri vera en tvö ár og vill auk þess, að heimilt sje að lengja hann fram úr því með sjerstökum lögum, hve nær sem ástæða virðist til þess. Hann kveðst fús að lengja hann fram úr 5 árum, ef þörf þyki. — Þetta sýnir ljóslega, að minni hlutinn er allfjarlægur forsætisráðherra í þessu og þykir ákvæðið í stjórnarfrv. óhafandi. En hvers vegna vill minni hlutinn þá vera að breyta þessu atriði frá því, sem nú er í lögum?

Meiri hlutinn sjer alls enga minstu ástæðu til þess.

Því er haldið fram til málsbóta, að þetta sje tilhliðrun við Dani. Svo er víst um frágang forsætisráðherrans, en till. minni hlutans eru þar tvíbentari. En hvað sem því líður, þá virðist stjórn og þingi meiri vandi á höndum við Íslendinga sjálfa, að efna við þá gefin loforð og gæta hagsmuna þeirra og helgustu rjettinda, heldur en að þoka þeim til hliðar fyrir hagsmunum einstaklinga annarar þjóðar.

Minni hl. hefir reynt að leiða rök að því, að 5 ára búsetan sje óþörf. Er sú meginástæða hans, að litlar líkur sjeu til, að Danir fari að fjölmenna hingað. Um það atriði vil jeg skírskota til nefndarálitsins. Þarf eigi annað en nefna fossaiðnað, járnbrautafyrirtæki, fiskveiðar, verslun, o. s. frv., til þess að minna á verkefnin handa þeim hjer í landi. Er það kunnugt, að fyrir styrjöldina vantaði að eins herslumuninn að þeir væru byrjaðir á slíkum stórfyrirtækjum hjer, fossavirkjun og járnbrautarfyrirtækjum, — mundu jafnvel þegar hafa verið byrjaðir, ef ekki hefði strandað í bili á meiri hl. Alþingis.

Minni hlutinn telur það af ólíklegra, að Danir fjölmenni hingað, þar sem þeir fái nú nýtt svigrúm suður á bóginn, og muni þeir snúa framkvæmd sinni þangað.

Þetta virðist meiri hl. öfugt. Hann telur Íslandi einmitt hættuna meiri vegna Danmerkur-aukans. Danir taka þar fullbygt, þjettbýlt, þrautræktað land sem ekki getur tekið við innflutningi þeirra. En Dönum bætist þar mikið fjölmenni. Suður-Jótar eru ötulir framkvæmdamenn, engir eftirbátar annara Dana. Þessari efling dönsku þjóðarinnar hlýtur að fylgja þjóðleg vakning til nýrra dáða og framkvæmda. Væri þá ekki óeðlilegt, að þeir leituðu helst þangað, er þeir telja verkefnin ærin og þeir hafa trygt sjer opnastar gáttir og óbundnastar hendur, en það er á Íslandi. Hættan er því auðsælega vaxandi.

Minni hl. er og ekki alls kostar ugglaus um þennan málsstað sinn, því að hann gerir þó ráð fyrir, að Danir kunni að flykkjast hingað síðar, en þykist þá hafa vaðið fyrir neðan sig, er hann heimilar, að lengja megi búsetuskilyrðið með einföldum lögum. Telur hann þá aðferð fljóttækari, ef til komi, heldur en að breyta stjórnarskránni, ef lengja þurfi tímann fram úr 5 árum.

En hjer mætti nú spyrja þá, sem þykjast vilja hliðra til við sambandsþjóðina, hvort Dönum mundi þá verða geðfeldara, að breytt yrði um búsetuskilyrðin þeim í óhag, er þeir fara að vera hjer fjölmennir, straumurinn byrjaður, áhuginn í algleymingi að leita hingað, heldur en nú, að óbreytt standi ákvæði stjórnarskrárinnar meðan þeir eru hjer fáir og áður en straumurinn er hafinn? — Allir sjá, að minni hlutinn lendir hjer í ógöngur, því að ekki mundu Danir síður heita á ráðgjafarnefndina til fulltingis sjer þegar fara ætti að svifta fjölmennan flokk þeirra fengnum rjettindum.

Minni hlutinn telur fullborgið yfirráðum Íslendinga í landinu, þótt ekki sjeu strangari skilyrði sett um búsetuna en hann ákveður. Býst hann við, að innstreymi útlendinga verði svo hverfandi lítið. En fyrir þessu vantar allar sannanir, og sönnunarskylda hvílir hjer á þeim, sem breyta vilja útlendingum í hag. Vjer höfum leitt sennilegar líkur að auknum innflutningi. Svo er á það að líta, hve Íslendingar eru fámennir; kjósendur einar 30 þúsundir, og er þjóðfjelag vort því viðkvæmara en öll önnur fyrir útlendu aðstreymi. Tiltölulega fáir menn, miðað við mannfjölda nágrannaþjóðanna, þyrftu að flytjast hingað til þess að ná hjer sterkum tökum. Vjer verðum því að gæta þess eftir megni, að útlendingar vaxi oss eigi yfir höfuð hjer í landinu. Þetta á ekki skylt við neina „innilokunarstefnu“, eins og sumir blekkingamenn hafa verið að tönnlast á. Slíkt er einungis ryk, sem þyrlað er upp til þess að villa almenningi sýn. Það er alt annað, að vilja tryggja sem best rjettindi og hagsmuni landsins, eða hitt, að útiloka öll erlend áhrif á íslenskt þjóðlíf. Skilyrðið er látið standa í stjórnarskránni til þess að aftra því, að þekkingarlausir útlendingar geti ráðið of miklu í þjóðmálum vorum. Er sannarlega ekki til of mikils ætlast, þótt þeir verði að dveljast hjer 5 ár til þess að kynnast landslögum og þjóðháttum, áður en þeir standa til fulls jafnrjettháir landsins börnum til þess að ráða fyrir um örlög þess.

Minni hlutinn finnur 5 ára búsetunni það til foráttu, að hún komi hart niður á þeim Íslendingum, sem búsettir hafa verið erlendis og slept hjer búsetu. Hefir það verið látið klingja óspart, að sambandslagaandstæðingar hafi talið það ókost á sambandslögunum í fyrra, að þau mundu leiða af sjer þessa rjettarskerðing Íslendinga, sem látið hafa landsvist og sest að erlendis. Vjer sambandslagaandstæðingar erum enn sömu skoðunar. Teljum þetta baga löndum vorum erlendis. Hefðum vjer kosið sambandslögin öðruvísi, enda reyndum að fá þeim breytt. En oss tókst það ekki. Þess vegna verður ekki komist hjá afdrifum laganna, en betra er þó, að ákvæðin komi niður á nokkrum einstaklingum þjóðar vorrar, heldur en öll þjóðin sje sett í hættu.

Annars ferst andstæðingum vorum tæplega að bregða oss um hverflyndi í þessu atriði, því að þegar vjer bentum á það í fyrra, að sambandslögin kæmu hjer í bága við rjett landa vorra erlendis, þá gerðu flestir lítið úr því, og heyrðust jafnvel þau orð úr fleirum áttum en einni hjer í deildinni, að þeir menn ættu ekki betra skilið, sem „brugðið hefðu trygð við land sitt“, en að fá að doka dálítið eftir kosningarrjetti, ef þeir kæmu heim aftur. En nú virðist hjartalagið orðið annað, að því er uppi er látið.

Þá hefir minni hlutinn sagt, að Danir mundu vænta þess, — „og það ekki að ástæðulausu, þar sem stjórnarskrárfrv. var lagt fyrir þá í ráðgjafarnefndinni“ — að ekki yrðu sett frekari búsetuskilyrði en „þörf krefðist“,1) en á hinn bóginn mundu sætta sig við þá breytingu seinna, þegar þeir færu að streyma í landið. — Jeg mintist áðan á þetta síðara atriði og benti á, hversu það væri fjarstætt öllum líkum og sanni, að þeim þætti ákvæðið því betra, sem það kæmi niður á fleirum þeirra. Þetta getur varla verið minni hl. alvörumál.

En að því er kemur til ráðgjafarnefndarinnar þá er það getgáta ein eða hugboð minni hl., að henni, eða danska hlutanum af henni, mislíki búsetuskilyrðið, eða hann muni verða fyrir vonbrigðum. Og enn fjarlægara er að tala um „gabb“ við Dani í þessu sambandi. — Hinu verður ekki neitað, að það væri beint gabb við íslenska kjósendur, íslensku þjóðina, eftir yfirlýsingarnar í sambandsmálinu í fyrra, ef forsætisráðherranum tækist að koma frumvarpi sínu óbreyttu fram. En þegar ræða er um kosningarrjett á Íslandi, verður að hafa hag Íslands eingöngu fyrir augum, en ekki ímyndaða geðþekni erlendrar þjóðar.

Annars þykir mjer nú eiga að fara að gera meira en lítið úr þessari ráðgjafarnefnd. Í fyrra var hún af sambandslagamönnum hjer í þinginu kölluð „barnagull“, og sagt, að hún mundi brátt trjenast upp á íhlutun sinni um mál vor, ef tillögur hennar væru ekki teknar til greina. En nú á að snúa öllu við. Þótt ekkert liggi fyrir frá nefndinni, þá á nú að geta sjer til um vilja hennar og breyta eftir því! Samkvæmt þessu öllu má því engu breyta í stjórnarfrumvörpum, er legið hafa fyrir nefndinni, nema víst sje, að dönsku nefndarmönnunum falli breytingin í geð. Grundvöll að slíkri stjórnmálavenju legði minni hl., ef hann fengi sitt fram. Og söm er hans gerð, þótt hann fái því ekki framgengt.

Það er augljóst, hvert stefnir um vald Alþingis, ef slíku færi fram. Fer það þá heldur en ekki að færa saman kvíarnar, og kemur þá að því, sem sagt var í fyrra um tilætlun Dana með þessari sælu nefnd, ef sú venja yrði þegar hafin á fyrsta þinginu, að samþykkja það eitt — óbreytt — sem „lögjöfnunarnefndin“ hefði fjallað um og fengið því í hendur. Þá væri laglega af stað farið á fyrsta Alþingi hins „viðurkenda fullvalda ríkis“ á Íslandi!

Annars höfum vjer óræk rök fyrir því, að það er síður en svo, að stjórnmálamenn í Danmörku telji búsetuskilyrði fyrir kosningarrjetti nokkra fjarstæðu eða óbilgirni. Hefir meiri hlutinn í því sambandi leyft sjer að benda á ritgerð eftir dr. Knud Berlin, í tímaritinu „Det Nye Nord“. Getur doktorinn þar ekki dulið skoðun sína um þetta efni, þótt aldrei hafi hann talinn verið mikill Íslandsvinur. En um þetta kemur skoðun hans alveg heim við skoðun meiri hlutans. Hann er að ræða um sameiginlegan ríkisborgararjett á öllum Norðurlöndum. Leiðir hann rök að því, hve hættulegt sje fyrir smáþjóð að gera fullkominn jafnrjettissamning við sjer stærri nágrannaþjóð, og nefnir í því sambandi Dani og Þjóðverja. Mætti af því ráða, hversu hyggilega honum þyki Íslendingum hafa farið í samningunum í fyrra. Og sameiginlegan ríkisborgararjett meðal Norðurlandaþjóðanna sjálfra telur hann óhyggilegan og lítt framkvæmanlegan, því að þjóðirnar mundu þá neyðast til að verjast hver annari með löngu búsetuskilyrði fyrir kosningarrjetti, jafnvel 10–25 árum. Drepur hann á það, að Íslendingum kynni að vera nauðsyn á að grípa til slíkra úrræða, til þess að verða ekki með öllu ofurliði bornir í landi sínu, ef hin Norðurlöndin, Svíþjóð og Noregur, fengju þar samskonar rjettindi sem Danir.

Þessi danski stjórnmálamaður telur því langt búsetuskilyrði löglegt og framkvæmanlegt — og jafnvel lífsnauðsynlegt.

Sjálfur minni hlutinn er ekki fjarri þessu, þegar til kastanna kemur, því að hann klykkir út með því í nefndaráliti sínu, að honum þyki 5 ára búsetuskilyrðið eigi „fullörugg trygging“ gegn dönskum áhrifum á úrslit mála vorra, og kveðst því vilja búa svo um, að tafarlaust megi lengja búsetuna fram úr 5 árum, ef þurfa þyki!!

Hjer tekur minni hlutinn skyndilega að bera um seglin og hefja nýja stefnu. Hjer er hann alt í einu orðinn svo lafhræddur við Dani, að honum þykir ekki „fullörugg trygging“ gegn þeim að bíða eftir stjórnarskrárbreytingu til þess að lengja búsetuna, jafnvel fram úr 5 árum, heldur telur nauðsynlegt, að það verði gert í einum svip, með einföldum lögum.

Það lægi nærri að ætla, að minni hlutinn færi hjer með tóm látalæri, eða væri að „gera að gamni sínu“, svo þveröfugt kemur þetta við aðra röksemdaleiðslu hans. Mun einhverjum þykja broslegt, er minni hlutinn gerist svo hátíðlegur, og þykist standa mun betur á verði fyrir rjett landsins heldur en meiri hlutinn!

En þessi fyrirsláttur villir engan. Ef nauðsynlegt reynist að lengja búsetuskilyrðið úr 5 árum, sem vel má vera, þá er ekki loku fyrir skotið að það verði gert, þótt meiri hlutinn ráði nú, — eins og minni hlutinn virðist gefa í skyn. Vandinn er sá einn, að gera breyting á þessu atriði í stjórnarskránni.

Munurinn er sá, að meiri hlutinn vill láta svo mikilvægt atriði vera háð breytingu á stjórnskipulegan hátt, borið undir kjósendur landsins, sem hvert annað stjórnarskráratriði, en ekki háð einræði eins sjerstaks Alþingis, sem þá gæti breytt því á bak við kjósendur, enda mætti þá vera, að búsetuskilyrðið stæði ekki á stöðugu og sjá allir, hve óviðurkvæmilegt væri að hringla með það ýmislega, eftir því, hversu þing kynni að vera skipað í hvert sinn.

Þegar þessa er gætt, er það því næsta einkennilegt, að eitt blað hjer hefir lagst á móti margnefndri tillögu meiri hlutans, sakir þess, að hann vilji fara með mál þetta bak við kjósendur!! Sennilega er það prentvilla (E. A.: Eða fáfræðisvilla), því að það er ekki meiri hlutinn, heldur minni hlutinn, sem vill fara með þetta bak við kjósendur.

Ekki væri sú skipun málsins sem minni hlutinn ræður hjer til, álitlegri fyrir Dani ef nokkurt mark mætti taka á því, að þessi síðasta röksemd hans væri borin fram í alvöru.

Eða hvers vegna ætti þeim að vera hugþekkara að lúta ákvæði, sem stæði í einföldum lögum, heldur en stjórnarskrá, — nema þá af því, að þeim væri hægra að fá breytt einföldu lögunum sjer í hag?

Meiri hlutinn heldur fast við það, sem höfuðatriði í þessari deilu, að almenn skilyrði fyrir kosningarrjetti sje eitt af helstu grundvallaratriðum stjórnarskipulagsins og eigi hvergi heima nema í stjórnarskránni. Þegar af þeirri ástæðu telur hann eigi geta komið til mála að hafa slík ákvæði í einföldum lögum.

Sum blöðin hafa verið að átelja það, að sjö atriði væru nú í stjórnarskrárfrv., sem „breyta mætti með lögum“. Fjarlægast væri að bæta búsetuatriðinu við sem því áttunda.

Loks vil jeg taka það skýrt fram, að hjer er ekki um búsetuskilyrðið eitt að ræða. Það er að eins sem einn angi á limaríku trje. Hjer kemur fram stefnumunur í sjálfstæðismálum þjóðarinnar, sem á sjer dúpar rætur í sögu undanfarins árabils, og kemur hvarvetna fram í viðureigninni við erlenda valdið, og hlýtur að veiða þjóðinni örlagaríkur, enda mun skifta henni hjer eftir sem hingað til í andvíga flokka. — nema minni hlutinn sjái að sjer í tíma og bæti ráð sitt.

Hjer er um það að ræða, hvort þegar eigi að hefja undanhald í sjálfstæðismálunum, hopa til baka frá því, sem áunnist hefir eða hafa í fullu trje og sækja fram til öruggara og traustara sjálfstæðis.

Það voru margra ummæli í fyrra þegar deilan var um sambandslögin, að mjög væri komið undir framkvæmd laganna og hversu Íslendingar kynnu að halda á rjetti sínum næstu árin. Meiri hlutinn kannast við þetta og vill láta það á sannast, að hann ætlar hvergi að láta undan síga. Vil jeg lesa nokkur orð úr nefndaráliti hans því til stuðnings og árjettingar. Þar segir svo:

„Loks vill meiri hlutinn láta þess getið að sambandslögin hafa eigi verið samþykt í því skyni, að Íslendingar skyldu láta nokkuð undan þokast um, rjetturinn frá því, sem þar er ákveðið, heldur sje einstætt að neyta rjettinda sinna samkvæmt þeim hjer í landi, svo sem fremst má, og heldur styrkja en veikja, hve nær sem tækifæri gefst. Þau spor viljum vjer marka þegar á þessu fyrsta þingi, sem háð er eftir að breyting er orðin á sambandinu.“

Þá skal jeg snúa mjer að þeim brtt., sem fram hafa komið frá einstökum þm. Skal jeg taka þær í þeirri röð, sem þær eru á þingskjölunum.

Fyrst koma brtt. á þgskj. 49, frá háttv. þm. Dala. (B. J.). Eru þær tvær og báðar við 29. gr. Um þá fyrri er það að segja, að hún er að efni til tekin upp af nefndinni, og mun því háttv. þm. (B. J.) taka hana aftur. En síðari brtt. reyndist að áliti nefndarinnar ekki hæf. Var meiri hl. henni mótfallinn, en auðvitað hefir deildin óbundnar hendur um það, hvernig hún snýst við till.

Næst er brtt. á þgskj. 52, frá háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.). Nefndin hefir ekki getað fallist á þá till. Var bent á það, að ef undanþiggja ætti þá frá gjöldum til háskólans, sem ekki væru í þjóðkirkjunni, þá mundi fara að þynnast í hinni rúmgóðu þjóðkirkju. Og níu menn af tólf, sem í nefndinni eru, lögðust á móti brtt.

Þá er brtt. á þgskj. 64, frá háttv 1. þm. Reykv. (J. B.) við 29. gr., þess efnis, að á eftir orðunum „óflekkað mannorð“ komi: „tali og riti íslenska tungu stórlýtalaust“. Í nefndinni var þessi till. rædd og hafði nokkurt fylgi að efni til, en flestum þótti hún ganga nokkuð langt og til nokkuð mikils mælst, að menn töluðu og rituðu íslenska tungu stórlýtalaust eftir 5 ár. Svo þótti og sumum, sem erfitt mundi að fylgja fram ákvæðinu. Og um það er ekkert talað í till., hvernig því skuli komið í framkvæmd. Líklega yrði að hafa sjerstaka reglugerð að fara eftir. En svo gæti líka orðið álitamál, hvað það er að tala og rita tunguna stórlýtalaust. Till. hlaut því ekki fylgi, eins og hún er orðuð.

Einir tveir voru með henni. En með því er ekki loku fyrir það skotið, að till., sem gengi í líka átt, næði fram að ganga. Gæti flm. (J. B.) ef til vill komist að hagkvæmari niðurstöðu og breytt till. þannig, að hún gangi fram, því að efni til hafði till. allmikið fylgi í nefndinni.

Næst kemur brtt. á þgskj. 80, við 31. gr., og er hún flutt af tólf þingmönnum. Hún mælir svo fyrir, að Alþingi komi saman 15. febrúar ár hvert, „eða næsta virkan dag, ef helgidagur er, hafi konungur ekki tiltekið annan samkomudag fyr á árinu“. Það var eins með þessa brtt. og aðrar brtt. frá einstökum mönnum, að það reyndist ekki gott að fá úrskurð nefndarinnar með henni. En till. hlýtur að hafa mikið fylgi í deildinni, eftir flutningsmannafjöldanum. Meiri byr hafði það í nefndinni að flytja þingtímann til hausts og láta þing standa fyrri hluta vetrar, en þó vildi hún ekki bera fram tillögu í þá átt.

Á þgskj. 297 er brtt. við 76. gr., þess efnis, að aftan við aðra málsgr. bætist orðin: „Sama skal og gilda, ef lagabreyting verður gerð á kirkjuskipuninni samkvæmt 58. gr.“ Um þetta var nefndin ekki samhuga, og leist nefndarmönnum best, að þm. hefðu óbundnar hendur, og leggur þar ekkert til málanna.

Brtt. á þgskj. 556, við 26. gr., er komin frá 1. þm. Reykv. (J. B.) og þm. S.-Þ. (P. J.), og er um það að fjölga þingmönnum. Eins og getið er um í nál., var mjög mikið rætt um greinina í nefndinni, án þess að nokkur niðurstaða fengist. Eins fór á síðasta fundi nefndarinnar, sem haldinn var í morgun, að þá náði breytingartill. þessi ekki samþykki meiri hlutans, en var feld. Þó voru sumir nefndarmenn ekki á móti brtt. af því, að þeir væru á móti fjölgun þingmanna, heldur var fylgi þeirra við brtt. háð því, hvort þingrof skyldi ná til landskjörinna þm. Ef svo væri, mundu þeir vart standa á móti till. Að sjálfsögðu verður hjer að skeika að sköpuðu um, hvað hv. deild vill vera láta í þessu máli, en meiri hluti nefndarmanna leggur á móti till. og vill heldur láta greinina standa óbreytta, eins og hún er í stjórnarfrv.

Sumir nefndarmanna töldu það varhugavert að fjölga tölu þingmanna, því að með því yrði ofmjög dregið úr mætti einstakra kjördæma. Fjölmennustu hjeruðin mundu þá ráða minstu. En þótt þau hafi nú fleiri kjósendur móts við hvern þingmann en hin fámennari kjördæmi, þá er aðstaða þeirra á annan veg þeim mun betri á þinginu, að þau þurfa ekki að kvarta um, að hallað sje rjetti þeirra. Ef farið er að miða kjördæmin, eða tölu þingmanna, við höfðatölu, þá er mikil nauðsyn að minnast þess, hversu iðnaðarbæir fossafjelaganna (t. d. „Íslands“ og Títans“) geta orðið fjölmennir á skömmum tíma, kann ske miklu fjölmennari en Reykjavík, og ætti þá sá útlendi lýður að geta krafist þingmanna eftir höfðatölu og sent fleiri menn til þings en heilir landsfjórðungar, eða jafnvel hálft landið. Sumir í nefndinni töldu því mjög varhugavert að fara inn á þessa braut, þótt aðrir, er skemra horfa fram, sjái enga hættu í bili.

Á þgskj. 557 er brtt. við 29. gr., frá hv. þm. S.-Þ. (P. J.) og hv. 1. þm. Eyf (St. St.), „um búsetuskilyrðið“. Þessi till. var feld í nefndinni með 7:5 atkv., og sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um hana. Hún sýnir að eins hugarþel flutningsmanna, en fylgi mun hún ekki hafa.

Loks er hjer brtt. frá háttv. þm. Dala. (B. J.), á þgskj. 573, og hefi jeg áður minst á, að þær breytingar, sem þar er farið fram á, öðluðust ekki fylgi nefndarinnar Jeg verð að kannast við það, að jeg er ekki hrifinn af því að tala hjer fyrir nefndarinnar hönd, þar sem svo lítið samkomulag náðist um flestar brtt., að varla var unt að fá eindreginn úrskurð um nokkra þeirra.

En það verður að segja hverja sögu sem hún gengur.

Aðalniðurstaða nefndarinnar var sú, að ef brtt. yrðu samþ., þá gæti orðið vafasamt, hvort stjórnarskráin næði fram að ganga á þessu þingi. Þess vegna vildi hún skirrast við að bera fram aðrar tillögur, eða veita öðrum tillögum fylgi, en þeim, sem nokkurn veginn væri víst að verulegt fylgi hefðu í þinginu.

Þ. e. frá þeirra sjónarmiði.