29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Bjarni Jónsson:

Jeg sje mjer ekki fært að láta þetta merka mál fara svo gegnum hv. deild, að jeg lýsi ekki skoðun minni á þessum litla meiningarmun, sem ræðuskörungurinn á undan mjer vildi sannfæra háttv. deild um að væri milli háttv. meiri og minni hluta.

Jeg vil þá hefja mál mitt á því, sem allir vita, að stjórnarskrá er sett til þess að ákveða mönnum takmörk, sem þeir mega að fara, en ekki yfir. Stjórnarskránni er því á sinn hátt líkt farið og hegningarlögum, sem eru sett sem varnarhringur um önnur lög, en væru óþörf ef enginn bryti lög. Í stjórnarskrá eru og sett ýms almenn ákvæði, sem eiga ekki við neina yfirvofandi hættu, heldur það, sem fyrir getur komið. Þannig er í stjórnarfrv. settar ýmsar reglur, sem eiga ekki við neinar sjerstakar yfirvofandi hættur, heldur það, sem fyrir getur komið, og eru því nokkurskonar varúðarreglur, ef einhverjum skyldi detta í hug að gera öðruvísi en það, sem væri í samræmi við hið ákveðna stjórnarfar í landinu.

Þetta kemur að því leyti við því, sem um er deilt, að þótt hættan sje ekki yfirvofandi, þá er þó best að hafa alla varúð, og aldrei er of varlega farið. Ef hættan verður aldrei nein, sakar ekkert að hafa farið varlega, en ef hættan skyldi dynja á, er ilt að vera ekki undir búinn, því að það er of seint að herklæðast, er á hólminn er komið.

Nú stendur svo á, að þetta er fyrsta löggjafarþingið eftir að Íslendingar fengu viðurkenningu Dana fyrir því, að þeir væru fullvalda ríki. Það munu nú allir hafa samþykt þennan sáttmála með þeim ráðna hug, að sjá á þessu þingi borgið í framtíðinni öllu frekara sjálfstæði landsins. Var það haft á orði, bæði í fullveldisnefndinni, sem skipuð var, og manna á milli, að nú skyldi setja öll þau ákvæði inn í stjórnarskrána, sem kæmi í veg fyrir hvern þann háska, hvort heldur yfirvofandi eða ekki, sem hinu unga fullvalda ríki gæti stafað hætta af. Komst þá búsetuskilyrðið til orða meðal annars, og lýsi jeg því þá yfir, að jeg mundi koma með þessa brtt., ef engir aðrir yrðu til þess. Jeg vona, að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) kannist við, að jeg hafi látið hann vita um þetta fyrir löngu, svo að það þýðir ekki að saka mig um þetta; hann hefir þá ekki heldur sjálfur gert slíkt, en flokksmenn hans hafa gert það.

Þetta getur verið nokkurskonar inngangur að svari við því, sem háttv þm. Suður-Dana, nei, jeg ætlaði að segja Suður- Þingeyinga (P. J.) hefir sagt. Þessi háttv. þm. (P. J.) hafði af speki sinni fundið það út, að stjórnarskrárnefndin væri óklofin, og því gæti hann ekki heitið frsm. minni hlutans.

Þetta er rjett að því leyti, sem nál. er ekki í tvennu lagi, en þrátt fyrir það er nefndin klofin um búsetuskilyrðið (P. J.: Þetta sagði jeg líka). Háttv. þm. (P. J.) gerist nú allgamlaður, er hann man ekki, að hann vildi ekki fallast á, að nefndin væri klofin um þetta atriði. Svo var þessi sami háttv. þm. (P. J.) að tala um, að sjer fyndist enginn munur á tryggingunum, sem felast í till. meiri og minni hlutans um búsetu manna. Jeg vil þó benda honum á, að ef í búsetuskilyrði er trygging fólgin, þá er þó meiri trygging í fimm ára ákvæðinu heldur en í tveggja ára ákvæðinu. Í öðru lagi er það tryggara sem stendur í stjórnarskrá, heldur en það, sem stendur í almennum lögum, vegna þess, að ef breyta þarf stjórnarskránni, kemur til kasta kjósenda, og er það því þeirra vilji sem ræður. En ef þetta ákvæði stæði að eins í einföldum lögum, þá gætu menn tekið sig til, er þing væri hagstætt, t. d. þegar fylgismenn minni hlutans væru í meiri hluta, og numið þetta skilyrði úr gildi. Mjer finst því harla lítil trygging fólgin í þessu viðbótarákvæði minni hlutans, um að ákveða rægi búsetuna lengri með einföldum lögum Hún er fyrst og fremst háð því, að menn svíkist ekki um að semja slík lög, þótt þeir sjái næga ástæðu til, og í öðru lagi er hún háð því, að menn vanti ekki glöggskygni að sjá, hve nær hættan er fyrir dyrum Það er því betra að hafa þetta ákvæði í stjórnarskránni, svo að ef einhverjir vilja afnema það, verði þeirra gull þó að hafa hreinsast í kosningareldinum. Þá vildi hv. þm. (P. J.) halda því fram, að hann og hans fylgifiskar byði betri kjör en meiri hlutinn, þar sem þeir kæmi með till. um, að lengja mætti enn meir þennan tíma með einföldum lögum. Þetta er rjett, og jeg held, að jeg mundi geta fallist á að setja þetta inn í stjórnarskrána á eftir búsetuskilyrðinu, og jeg held, að mjer sje óhætt að lofa fyrir meiri hl. nefndarinnar hönd, að hann muni ganga að þessu. Það er að minsta kosti ekki torsótt að fá mig til að fylgja því, að búsetuskilyrðið verði lengt upp í 10–15 ár. (Forsœtisráðherra: Knud Berlin taldi það öruggara). Já, það getur verið, að mjer hafi ekki gengið vel að greina á milli hæstv. forsætisráðh. (J. M.) og hans, því að þeir hafa svo oft staðið nærri hvor öðrum.

Háttv. frsm. minni hlutans (P. J.) talaði um, að Dani og Íslendinga greindi á um búsetuskilyrðið, og er hann talaði út frá sjónarmiði Dana, fyndist sjer stappa nærri, að þetta væri brot á sáttmálanum, ef samþykt yrði. Bygði hann þessa skoðun sína á athugasemdunum við 6. gr. sáttmálans. En er betur er að gáð, kemur það í ljós, að háttv. þm. (P. J.) hefir ekki skilið athugasemdirnar. En setjum nú svo, að það sje brot á sáttmálanum að setja fimm ára búsetuskilyrði inn í stjórnarskrána, hvað mundi þá háttv. frsm. minni hlutans (P. J.) halda um að setja tveggja ára búsetuskilyrði eða þótt það nú ekki væri nema eins árs, eins og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) vill vera láta. Jeg álít, að það þurfi ekki skarpskygna menn til að sjá, að hjer er um algerlega sama lögbrotið að ræða. Jeg held því, að það væri best fyrir háttv. þm. (P. J.) að kistuleggja þessar röksemdirnar nú þegar.

Þá var háttv. frsm. minni hlutans (P. J.) að tala mikið um ráðgjafarnefndina, og vandræðast út af, að henni hefði verið misboðið. Af hverjum? Af okkur? Eða ætli við Íslendingar höfum misboðið okkur sjálfir? Nei, líklegast mun það koma í ljós, að Dönum hafi verið misboðið, eftir hans skoðun. En af hverju? Er það af því að þessi ráðgjafarnefnd er ekki sett til þess að vera ráðgjafarnefnd þm. Dala. (B. J.)? Hvergi mun hún geta gefið mjer ráð eða jeg tekið við ráðum frá henni. Annars er það alger misskilningur, ef menn halda, að einstaka háttv. þm. eigi að spyrja þessa ráðgjafarnefnd um einstök lagafrv., sem samþykt kynni að verða hjer á Alþingi Íslendinga, eða brtt. við þau. Hún færi þá að gerast nokkuð voldug. Þessi nefnd hefir enga ástæðu til að búast við því, að engar breytingar verði á stjórnarskránni; hún má vita það, að þótt hún gefi ráð, þá er enginn skyldur að fara eftir því ráði, hvorki Alþingi Íslendinga nje ríkisþing Dana. Þeir, sem því halda þeirri vitleysu fram, að ráðgjafarnefndinni sje misboðið, þótt vjer breytum stjórnarskránni, þeir geta alveg eins komið með tillögur um að leggja niður Alþingi og ríkisþingið og hafa þessa ráðgjafarnefnd sem einskonar yfirþing. Annars er þetta svo fjarri öllum sanni, að ekki einu sinni þeir, sem bera þetta fram úr vitsmunasjóði sínum, geta trúað því, að þetta sje frambærileg ástæða á nokkru þingi, þar sem menn sitja með nokkurri skynsemi. Þá talaði hv. frsm. minni hlutans (P. J.) um, að hann vildi sýna drengskap í því, að brjóta ekki sáttmálann við Dani. Það eru fleiri, sem vilja gera það. En eftir þessu er það þá ódrengskapur að vilja setja inn fimm ára búsetuskilyrðið, en drengskapur, er hann vill setja inn tveggja ára búsetuskilyrðið. Háttv. frsm. minni hlutans vill sýna Dönum drengskap, og það vil jeg líka, en jeg vil ekki þar fyrir sýna Íslendingum ódrengskap.

Jeg vil halda því fram, að meiri hluti nefndarinnar hafi viljað sýna og hafi sýnt fulkominn drengskap báðum aðiljum, Dönum og Íslendingum, með því að rjúfa ekki sáttmálann á neinn hátt á Dönum og leggja hins vegar fram meiri tryggingu en minni hlutinn vill til handa Íslendingum.

Þá skal jeg geta þess, að minni hlutinn álítur það nægilega tryggingu til handa Íslendingum, að búsetuskilyrðunum megi breyta með einföldum lögum, ef þingið sjái þörf á. En jeg hefi getið þess áður, að glöggskygni manna er misjöfn og trúmenska þeirra einnig, svo að ekki er eigandi undir því, hvað einstakt þing kann að gera í þessum efnum. Það er miklu tryggara að hafa þetta ákvæði í stjórnarskránni. Það gæti vel hugsast, að glöggskygnin brygðist, og að of seint yrði að byrgja brunninn, þegar barnið væri dottið í hann. Segjum, að það væri fastráðið að virkja stóran foss, t. d. frsm. minni hlutans (P. J.) fengi leyfi fyrir það fjelag, sem hann er stjórnandi fyrir, að virkja stærsta fossinn á landinu. Þá gæti vel svo farið, að tugir þúsunda erlendra verkamanna flyktist inn í landið og hefði þau áhrif á kosningarnar, að margra ára búsetuskilyrði næði ekki fram að ganga. Þá væri þetta um seinan, og gæti svo farið, að frsm. (P. J.) lenti í sínum eigin fossi. Það skaðar engan, þó ákvæðið sje sett í stjórnarskrána, og það er ástæðulaust að leggja á tæpasta vaðið, þegar með því verður hvorki bjargað sínu lífi nje annara.

Þá gat frsm. minni hl. (P. J.) þess, að þetta væri ekki höfuðástæðan, til þess að forðast sáttmálsrof, að þeir hjeldi fram tveggja ára búsetuskilyrði, sem síðan má lengja með einföldum lögum: það væri ekki gert vegna Dana, heldur vegna Íslendinga, sem dveldi erlendis og kynni að vilja flytja hingað og setjast hjer að. En ræðumaðurinn varðist allra frjetta um það, hversu þessir menn væru margir og hvaðan þeir mundu koma. Jeg hygg, að þessir menn sjeu ekki svo margir, að þingið þurfi að veigra sjer við að setja þetta ákvæði í stjórnarskrána þeirra vegna. Það mundu einkum verða menn, sem hingað flyttu frá Kaupmannahöfn. Því að þótt landar vorir vildu flytja hingað vestan um haf, þá eru þeir flestir orðnir þegnar annars ríkis, og mönnum, sem eru þegnar annars ríkis, er engin linkind gefin. Landar vorir vestan hafs verða flestir hverjir ekki taldir Íslendingar í þessum skilningi. Þetta ákvæði getur því að eins átt við þá Íslendinga, sem búa á strjálingi úti um heim og kynni að flytjast hingað. Og ef þetta væri eitthvert hróplegt ranglæti, gæti jeg skilið, að þessi umhyggja minni hlutans væri runnin frá rjettlætiskend. En þegar þess er gætt, hversu þetta er eðlileg krafa, verður ekki sagt, að hjer sje um rjettlætisbrot að ræða. Því að hvers vegna ætti maður, sem væri ókunnugur öllum háttum hjer í landi og væri ef til vill Bolshewich, eða af hinum endanum, að njóta hjer sama rjettar sem aðrir, sem hafa unnið hjer og skapað hjer lög í landi? Og er nokkur ósanngirni í því, að menn, sem dvalið hafa lengi erlendis og eru orðnir ókunnugir högum landsins, sje ekki látnir fá undir eins sömu rjettindi sem landsmenn. Það er ekki rjettlætistilfinning minni hlutans, sem hefir valdið þessari 2 ára búsetu, heldur Danskurinn. Enda er það góður prófsteinn á rjettlætiskend þessara manna, að þeir svifta menn kosningarrjetti fyrir það eitt, að þeir eru fátækir. (P. J.: Sveitarlimi). „Sveitarlimi“ segir fossastjórinn. En jeg er ekki svo ríkur, að jeg geti ekki skilið hug þessara manna. Af þessu má nú ráða, að það er ekki rjettlætiskend þessara manna gagnvart Íslendingum, sem hjer ræður. Ef þeir hjeldi þessu fram af hreinni rjettlætiskend og misskilningi á ákvæði sambandslaganna, mundi jeg ekki taka hart á því.

Þá talaði frsm. minni hlutans (P. J.) og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) um það, að undantekningar væru óeðlilegar, og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) tók það fram, að sendimenn yrðu taldir að eiga búsetu hjer, þótt þeir dveldist erlendis; þess vegna væri óþarft að setja ákvæði um það í stjórnarskrána. En jeg lít svo á, að það skaði ekki, að það sje sett inn.

Þá er að minnast á það, hvort námsmenn og sjúklingar eiga að teljast búsettir erlendis fyrir þá skuld að þeir verða að leita sjer fræðslu eða heilsubótar í öðrum löndum. Hvaða ástæðu skyldu Danir hafa til að misvirða þetta við oss? Dettur nokkrum í hug, að þeir gerði þá kröfu, að sjúklingar, sem dveldist sjer til heilsubótar í Danmörku, skyldi teljast þar heimilisfastir? Og aldrei hafa Danir krafist þess af oss, sem dvalist höfum 6 ár við nám Danmörku, að vjer greiddum skatt eða intum af hendi herþjónustu. En þetta sýnir, að þeir hafa ekki talið oss búsetta þar í landi. En jeg tel rjett, að þetta sje tekið fram í stjórnarskránni, til þess að fyrirgirða misskilning. Menn kynni annars að gera sjer sömu von um þessa menn og mig, þegar jeg var sendimaður, er menn vildu meina mjer kosningarrjett og þingsetu fyrir það, að jeg væri búsettur í Þýskalandi. Jeg álít rjett að setja ákvæðið í stjórnarskrána, ef menn skyldi verða svo treggáfaðir eða samviskulausir, að þeir byggi til rangan skilning á lögum, til þess að útiloka menn frá þjóðfjelagslegum rjettindum, sem þeir eiga heimtingu á. En þar sem forsætisráðh. (J M.) vildi halda því fram, að þetta væri annað en það, sem í lögum stæði, þá er það ekki rjett, því að í 9. gr. laga um ríkisborgararjett stendur: „Eigi skal það talið heimilisfang á Íslandi samkvæmt þessari grein, þótt danskur maður hafi dvalist þar 1. des. 1918 sem sjúklingur á sjúkrahúsi, við nám, í fangelsi eða sem þurfamaður, nema sú vist sje áframhald af heimilisfangi á Íslandi“.

Háttv. frsm. minni hlutans (P. J.) talaði um það, þegar hann klykti út, að þetta ákvæði væri sjerstaklega miðað við Íslendinga, sem dveldist erlendis. Mjer skilst þó, að það geti ekki náð til Vestur Íslendinga (P. J.: Það er satt), sem eru enskir borgarar. Og flestir þeirra nú eru orðnir enskir þegnar, því ekki þarf nema 3 ára búsetu til þess að verða breskur þegn. Ást minni hlutans getur því ekki náð til þessara manna. Og það má undur heita, ef þessi ást hans verður ekki svo heit, að hún bræði þá fáu Íslendinga, sem hún nær til.

Háttv. sami þm. sagði, að vjer þyrftum ekki að óttast innflutning, og rakti hann ýmislegt þeirri staðhæfingu til sönnunar, t. d. að Norðmenn gætu ekki flutt hingað með sjer kvenfólk, til þess að kverka síld (P. J. : Jeg nefndi ekki kvenfólk). Nei, en það var að eins fyrir kurteisissakir. En jeg get ekki sjeð, að þetta sanni á neinn hátt, að Dönum geti ekki komið til hugar að setja hjer á fót útgerðarfjelög og flytja hingað fólk, til þess að læra af Íslendingum. Má í því sambandi minna þennan atvinnufræðing á það, hvernig Englendingar fóru að bola Hollendinga út af fiskimiðum sínum. Þótt fjelagsskapur sá, sem þeir höfðu gert til þess að reka fiskiveiðar, færi þrisvar eða oftar á höfuðið, þá lærðu þeir þó að lokum af Hollendingum, og nú situr engin erlend þjóð yfir fiskimiðum Englendinga. Og Danir eru eins gáfuð og dugleg og mentuð þjóð sem Englendingar. Og ef þeir setti slík fjelög á fót hjer á landi, þá gæti svo farið, að ræðumaðurinn dytti ekki einungis í sinn eigin foss, heldur og niður í danskt slortrog, áður en hann fengi ráðrúm til að lengja búsetuskilyrðið með lögum.

Jeg sje ekki ástæðu til að rekja tal hans um námana.

En þá eru fossarnir. Frsm. (P J.) er sjálfur í stjórn fossafjelags, sem er mjög auðugt og getur vafalaust byrjað að reka stóriðnað hve nær sem vill. Og sameinaða fjelagið á ekki svo óhraðskreið skip og er ekki svo óviljugt á að vera brjóstvörn Dana, eins og komist er að orði, að það flytti ekki hingað danskan verkalýð, ef á þyrfti að halda. Og það er hægt að flytja 20 þús. manns úr sjálfri Kaupmannahöfn, án þess að á beri. (P. J.: Jeg skal aðvara þm. Dala). Jeg læt ekki villa mjer svo sýn. Jeg veit, að hann getur sjálfur leitt alla þessa hættu yfir þjóðina á hálfu ári og látið síðan verkalýðinn greiða atkvæði móti sjer við næstu kosningar.

Þá á jeg eftir að minnast á traust hans á framtíðinni. Oss ber að sjálfsögðu að treysta því, að hún verði ekki verri en nútíðin. En því að eins getum vjer gert oss vonir um það, að vjer látum ekki eftir oss liggja ill eftirdæmi. Framtíðin getur ekki orðið góð, nema nútíðin sje það. En það er ekki að gefa gott fordæmi, að skjóta á frest þeim málum, sem miða að því, að tryggja Ísland sem best á öllum sviðum, síst af öllu þegar því máli er frestað, sem felur í sjer mannrjettinda grundvallaratriði.

Þá talaði forsætisráðh. (J. M.) um áskilnað nefndarinnar. Hann taldi það vera ótækt að áskilja stjórninni leyfi til að leggja frv. fyrir þingið, án þess að hafa lagt þau áður fyrir konung. Hann sagði, að þessi venja ætti sjer hvergi stað og jeg hefi enga ástæðu til að efast um að það sje rjett; það liggur í hlutarins eðli; því að jeg veit ekki til, að menn þurfi að sækja með slík mál yfir 6 daga hafa nema á Íslandi. Og það er hart að þurfa að flýja á náðir nefnda eða einstakra manna, í hvert skifti sem stjórninni hugkvæmist að leggja frv. fyrir þingið, sem nauðsynlega þarf fram að ganga á því þingi. Það getur ekki móðgað konung, þó að fengið sje fyrirfram leyfi hjá honum til þessa. Stjórnin getur símað konungi um hvert slíkt frv. Þetta er alls ekki gert til þess að rýra vald konungsins, heldur til að bæta úr vandkvæðum, sem Íslendingar eiga við að búa, meðan konungurinn hefir búsetu erlendis.

Þá talaði hann um hættuna af fossunum og heyrðist mjer á honum, að hann harmaði, að ekki bljesi byrlega fyrir stóriðnaði hjer á landi. En þar til er því að svara, að enn þá er enginn úrskurður fallinn í því máli. Stóriðnaður gæti orðið leyfður hjer á landi, þótt það væri á móti vilja þeirra manna, sem varlega vilja fara. Jeg veit ekki nema þessir hugdjörfu menn verði ofan á, sem halda, að þessar 90 þúsundir þoli tugi þúsunda af erlendum verkalýð. Og hver veit nema slíkir ofurhugar sitji á næsta þingi. Aftur á móti eru Danir miklu hugdeigari en Íslendingar í þessum efnum. Margir vitrustu menn Dana voru hugsjúkir út af því, að bandamenn höfðu ákveðið, að atkvæðagreiðsla skyldi fara fram í þriðja (syðsta) beltinu á Suður-Jótlandi. Þeim stóð stuggur af, að 2–3 hundruð þúsund manna bættist við innan konungsríkisins, þótt þeir sæti á óðulum sínum og hefði þar sína menningu. En hjer eru ofurhugar, sem ekki óttast. Það er ekki samjöfnuður á hugrekki þessara manna og Dana. Jeg hygg, að hver gætinn maður vilji ganga svo frá stjórnarskránni, að fossaiðnaður yrði ekki hjer að meira tjóni en óhjákvæmilegt er.

Hins vegar tel jeg það óviturra manna hátt að byggja á því að þetta verði ekki gert fyrir það, að nokkrir menn hafa látið íljós þá skoðun. Fyrst skyldi til reynt um, hvað kjósendur vilja. Hjer vil jeg vera hugdeigur, eins og Danir. Hættan er sú, að eitt eða tvö af fjelögum þeim, sem sótt hafa um að virkja fossa, fái leyfi til þess, og jeg býst við að hæstv. fjármálaráðh. (J. M.) þekki menn, sem sje því fylgjandi, að leyfið fáist. Þar er fossahættan.

Þá er að fara nokkrum orðum um fyrirspurn hæstv. forsætisráðh. (J. M.). Hæstv. forsætisráðherra þótti vanta í 20. brtt. nefndarinnar, við 29. gr. stjórnarskrárfrv., samsvarandi ákvæði þeim, sem eru í síðustu málsgr. 9. gr. frv. um ríkisborgararjett; meira að segja, hann sagði að annað stæði í brtt. en í frumvarpsgreininni. En svo er ekki. Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sýnist ekki hafa athugað brtt. nógu vandlega. Þar stendur svo: „Ekki slítur það heimilisfestu manns þótt hann dvelji erlendis, af því að hann er sendimaður ríkisins, við nám eða til lækninga“. Þessi málsgrein svarar til þess, sem stendur í niðurlagi 9. gr. í frv. um ríkisborgararjett, þar sem svo segir, að eigi skuli það talið heimilisfang á Íslandi, þótt danskur maður hafi dvalið þar 1. desember 1918 sem sjúklingur í sjúkrahúsi eða við nám. Hjá nefndinni er með öðrum orðum sleginn sami varnaglinn í upphafi brtt. sem er í síðustu málsgrein 9. gr. frv. um ríkisborgararjettinn, og þurfti því ekki að endurtaka hann í niðurlagi brtt. Þessa mun hæstv. forsætisráðh. (J. M.) eigi hafa gætt.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) kvað þetta stappa nærri því að vera brot á sambandslögunum. Jeg skil ekki í, hvernig svo gáfaður maður og góður lögfræðingur, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) er, skuli láta sjer slíkt til hugar koma, hvað þá að láta sjer það um munn fara. Honum hlýtur að vera þetta meira en lítið kappsmál, svo fjarri sem það er, að það komi sáttmálanum við. Hann taldi þetta meira að segja vera undanbrögð, til þess að komast fram hjá sáttmálanum. En það er fjarstæða, því að þesskonar dvöl í Danmörku, sem hjer ræðir um, hefir aldrei verið talin búseta, að minsta kosti ekki þeirra, sem þar hafa við háskólanám verið; það sýnir öll framkoma Dana við þá og undanþágur frá herskyldu og gjöldum.

Mjer kemur ekki við, þótt þeir hníflist, hæstv. forsætisráðherra (J. M.) og háttv. frsm. (B. Sv.), enda mun hann maður fyrir að bera sjálfur hönd fyrir höfuð sjer. En langt þótti mjer hæstv. forsætisráðherra (J. M.) seilast er hann fór að vitna í ummæli Knud Berlins um búsetu.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hlýtur að vera mjer samdóma, þegar hann fer að gerskoða málið, að það sje ekki móti anda sambandslaganna, þótt vjer settum búsetuskilyrði inn í stjórnarskrá vora. Í þessu sambandi mætti og minna á, að Danir hafa í ár sett lög um einn atvinnuveg, þar sem ekki er einungis ákveðin 5 ára búseta til að mega reka hann, heldur og „Indfödsret“, og útiloka þau því Íslendinga jafnt sem aðra.

Það er og rangt að segja, að Danir hafi ekki vitað, að búsetuskilyrðið mundi verða sett fyrir kosningarrjetti; því að bæði stóð það í nefndaráliti meiri hlutans í fyrra, og jeg gat um það í framsöguræðu minni; hið sama tók og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) fram. Jeg hreyfði og málinu í samninganefndinni í fyrra og spurði um það, hvort Danir vildi eigi afnema búsetuskilyrði sín, svo að vjer mættum t. d. sitja hjer og eiga verslun þar, svo sem verið hefir um Dani, að þeir hafa mátt sitja í Danmörku og eiga hjer verslanir, selstöðuverslanir. J. C. Christensen svaraði, að það gæti ekki látið sig gera; ekki fyrir Dani að undanþiggja Ísland búsetuskilyrði, vegna „mestbegunstigelses“-rjettar annara, því að öðrum kosti kæmu þeir og heimtuðu hið sama. En vjer gætum sett búsetuskilyrði hjer hjá oss, sagði hann. Danir hefði því aldrei þurft að undrast, þótt þessi búsetuskilyrði yrði sett, þar sem því hafði bæði verið lýst yfir á sambandslagafundi og í þingi, að svo mundi verða gert. Auk þess ljetu þeir þýða fyrir sig bæði umræðurnar um málið á þingi og nefndarálitið, og höfðu þetta hjá sjer í Danmörku. Þeir vissu það eins vel og hæstv. forsætisráðherra, að jeg mundi bera fram málið á þessu þingi.

Mjer þótti það undarlegt, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) skyldi enda ræðu sína með því, að hann fjellist á röksemdaleiðslu prófessors Lárusar Bjarnasonar um þetta.

Eftir sambandslögunum eiga allir Danir að hafa sömu rjettindi hjer á landi sem Íslendingar fæddir hjer. Breytingin á 10. gr. stjórnarskrárinnar varð því fram að fara, því annars hefði þeir Danir verið útilokaðir, sem eru ekki fæddir hjer. En úr því umsamins jafnrjettis hefir verið gætt í brtt. nefndarinnar, þá er samningnum fullnægt að þessu leyti. Þá verð jeg að minnast á einstöku brtt. hv. þm., og þá sjerstaklega brtt. á þgskj. 556, um að landskjörnum þingmönnum sje fjölgað um helming, svo að þeir verði 12. Þessi brtt. stefnir nákvæmlega í sömu átt sem baráttan gegn búsetuskilyrðinu; hún stefnir að því, að hafa alt svo laust, að útlendingar, sem inn í landið flytja, geti náð sem föstustum tökum á öllu hjer. Setjum svo, að iðnaður efldist í landinu, og Danir flytti hingað í stórhópum, ef til vill tveir eða þrír tugir þúsunda. Það má gera ráð fyrir, að þeir mundu setjast að í einum eða tveimur iðnaðarbæjum, og þá líklegt, að þeir næði að minsta kosti einu kjördæmi í sínar hendur. Þeirra mundi og ekki gæta lítið við landskjörið, og því meir, því fleiri sem landskjörnir þingmenn væri. Það lægi miklu nær, bæði af þessum sökum og fleiri, að afnema alt landskjör. Í brtt. gægist fram sú hættustefna, að vilja opna á gátt allar dyr fyrir útlendingum, sem inn í landið vilja flytja, líklega þó sjerstaklega fyrir einni þjóð. Jeg læt þess getið, að jeg mun taka aftur fyrri lið brtt. á þgskj. 549, því að jeg get fallist á, að 5 ára tími sje nægur. En síðari lið till. dettur mjer ekki í hug að taka aftur, enda geta þeir, sem sitja hjer á þingi, varla verið svo innrættir, að þeir geti hugsað til þess, að þeir, sem eru svo óhamingjusamir, að þurfa fátækrastyrk, sjeu látnir fyrir þá sök missa þegnrjettindi sín. Það liggur slíkt djúp harðýðgi og tilfinningarleysis til grundvallar fyrir slíku, að ótrúlegt er, að nokkur löggjafi vilji halda í þessar leifar miðaldahugsunarháttar. Það er ekki heldur mikil hætta á því, að það mundi valda mikilli röskun eða byltingum, þótt allir þurfamenn fengi kosningarrjett, svo margir eru þeir ekki, sem betur fer, og því síður þeim mun óhæfari að neyta kosningarrjettarins en þeir, sem nú hafa hann. Jeg vona, að menn verði svo sanngjarnir, að fallast á þessa breytingartillögu, þar sem jeg hefi slakað svo til, að jeg hefi ekki tekið þá með, sem þolað hafa lagarefsing. Jeg veit þó varla, af hverju flestir leggjast svo á móti slíkum óhamingjumönnum, nema ef það væri af því, að þeir fyndu sig svo rjettláta og óbreiska sjálfa, að þeir vilji ekki hafa þá í neinu samfjelagi við sig. Það getur þó fremur verið óhapp en afbrot, að maður verði að þola refsingu fyrir að hafa skrifað ranglega kvittun fyrir 25 aurum, og lengi mætti að vera, ef rekja ætti rætur og tildrög afbrota og glæpa. Sú fræði er enn stutt á veg komin, sem til þess þarf, og hefir lítt verið stunduð. Segjum svo, að rjett sje að taka ein dýrmætustu mannrjettindi, kosningarjettinn, af þeim, sem eyðslusamir eru, latir og ráðlausir. En því þá ekki að halda próf yfir mönnunum, áður en þeir eru sviftir rjetti þessum, því að próflaust er torvelt að þekkja þá úr, og láta svo þá eina missa kosningarrjettinn, sem ekki standast prófið. En jeg spyr: Er það hugsanlegt, að löggjafarvaldið uni við það, að drýgja það ranglætsverk til langframa að svifta dugnaðarmanninn, ef til vill oddvita og forsprakka sinnar sveitar, manninn, sem alið hefir upp heilan tug barna handa þjóðfjelaginu, eða er kominn vel á veg með það manninn, sem ætti skilið verðlaun og lof alþjóðar getur þjóðfjelagið verið svo harðsvírað, segi jeg, að svifta slíkan mann dýrasta mannrjetti sínum, kosningarrjettinum, fyrir þá sök, að hann þrýtur mátt, oft og einatt fyrir óviðráðanleg óhöpp, til að færa þjóðfjelaginu barnahópinn sinn að gjöf sem fullveðja borgara, eða fyrir það, að hann hefir eytt svo heilsu og kröftum við það strit, að hann stendur uppi ósjálfbjarga? Og fyrir hverjar sakir fer þjóðfjelagið þannig að ráði sínu? Það gerir það í vonsku yfir því, að vera kunni, að fáeinir letingjar og slæpingjar fljóti með. Jeg skal svo ekki segja fleira um þetta. En sannlega mun svartur blettur koma á tunguna á hverjum þeim, sem greiðir atkvæði móti brtt. minni. (Til brosandi prests). Það sæmir ekki að brosa að þessu, síst þeim, sem hafa það að atvinnu að prjedika kærleika Krists.

Jeg vil svo enda ræðu mína með því, að minnast lítið eitt á orðheldni. Jeg lít svo á, að orðheldni sje ekki einungis kostur, heldur lífsnauðsyn, jafnt í stjórnmálum sem í daglegu lífi: „Ein Mann, ein Wort“, segir orðheldnasta þjóðin í heiminum. Jeg tel stjórnmálamönnum sæma allra manna verst að vera óorðheldnum. En þingið gerist óorðheldið, ef það setur ekki búsetuskilyrðið inn í stjórnarskrána. Sökum þeirrar hættu, er stafað gæti af jafnrjettisákvæðum 6. gr. sambandslaganna, þá var borið fram af mjer og fleiri háttv. þm., að sú bót lægi við hættunni, að setja mætti búsetuskilyrði í stjórnarskrána. Þetta skildi almenningur sem loforð, og þótt sumir vilji nú hverfa frá þessum ummælum, mun almenningur ekki þola þeim það. Hann mun standa fast á því, að það sje ekki nóg að segja, hvað gera megi, heldur eigi að framfylgja því, sem talað hafi verið. Ef háttv. minni hluti hefði ekki á síðasta þingi skoðað þetta sem loforð, þá hefði hann átt að rísa þá upp og segja alþjóð, að þeir ætluðust ekki til, að þetta væri gert, þótt máttulegt væri. Mjer er það nóg til þess að halda fast við, að búsetuskilyrðið sje nú sett inn í stjórnarskrána, ekki skemra en nú er farið, heldur helst fyllra, mjer er það nóg, að jeg sagði í fyrra, að það ætti að gerast. Jeg skil ekki, hvernig menn leyfa sjer nú að leitast við að draga úr þessu og halda því fram, að hjer sje eftir krókaleiðum verið að fara á svig við sambandslögin.

Jeg hefi áður sýnt fram á, að ákvæðið mundi snerta fáa Íslendinga. Þeir, sem eru á móti búsetuskilyrðinu, hljóta að finna til þess með sjálfum sjer, að hjer er um stefnumun að ræða, þótt þeir vilji ekki kannast við það. Jeg skil ekki, hvað þessum mönnum gengur til. Þeim fer líkt og bókbindara, er setur álíming á bók. En slíkur álímingsskapur er ekki að mínu skapi. Jeg er ekki myrkur í máli og vil jafnan segja berlega, hvað jeg ætla og vil. Þess vegna held jeg búsetuskilyrðinu fast fram, bæði hjer og annarsstaðar.

Jeg þykist þess fullviss, að till meiri hl. muni eiga vísan meiri hluta atkvæða hjer í deild, og þarf því eigi að þreyta þetta mál lengur. En jeg hefi viljað sýna, að hjer sæti þó þeir menn, sem vildi halda heitorð þau, er þeir gáfu í fyrra.