29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Matthías Ólafsson:

Jeg á hjer brtt. á þgskj. 52. Hún er við 60. gr. stjórnarfrv., og skal jeg með leyfi hæstv. forseta lesa þá gr. upp. Hún er svo:

„Enginn má neins í missa af borgaralegum eða þjóðlegum rjettindum fyrir sakir trúarbragða sinna, nje heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri fjelagsskyldu.

Enginn er skyldur að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarar guðsdýrkunar en þeirrar, er hann sjálfur aðhyllist.

Nú er maður utan þjóðkirkjunnar, og geldur hann þá til háskóla Íslands eða einhvers styrktarsjóðs við þann skóla, eftir því sem á verður kveðið, gjöld þau, er honum ella hefði borið að greiða til þjóðkirkjunnar, enda heyri hann ekki til öðrum trúarbragðaflokki, er viðurkendur sje í landinu.“

Tvær fyrstu málsgreinarnar eru viturlegar og viðunandi. Það er viðunandi, að enginn megi skjóta sjer undan almennri fjelagsskyldu sakir trúarbragða sinna, og það er viturlegt að ákveða, að enginn skuli skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til annarar guðsdýrkunar en þeirrar, er hann aðhyllist sjálfur. Jeg fer því ekki fram á, að þessu sje breytt. En svo kemur síðari hluti greinarinnar, og í honum er það nákvæmlega tekið aftur, sem veitt er í fyrri hlutanum.

Það má að vísu segja, að ekki sje hjer verið að skylda menn til að borga til guðsdýrkunar; en til háskólans verða þeir að borga. Jeg sje ekki, hvað það á að þýða eða hvaða rjettlæti er í því, að vera að neyða menn til að borga fje fyrir það, að þeir geta ekki aðhylst hina lögvernduðu guðsdýrkun þjóðarinnar. Það getur ekki heitið trúfrelsi að þvínga menn til að greiða aukagjöld vegna trúarbragða þeirra. Jeg tel það smánarblett á stjórnarskránni, ef slíku verður haldið í henni. Þetta er í þá átt, að gera menn að píslarvottum sökum trúarskoðana þeirra. Við getum hugsað okkur mann, sem hefði þá skoðun, að hann gæti best dýrkað guð sinn í einveru inni í herbergi sínu, og svo á að neyða hann til þess að greiða fje til háskólans, til þess að fá að gera þetta, fje, sem hann teldi miklu betur varið til einhvers annars, svo sem til líknarstarfa. Hver er svo ástæðan fyrir öllu þessu? Hún er sú, að menn eru hræddir við, að ef menn komist undan gjöldum með því að segja sig úr þjóðkirkjufjelaginu, þá muni margir nota sjer það og kirkjumar standa tómar eftir. Það eru þá ekki fyrst og fremst trúarástæður, sem hjer eru ráðandi. Vitanlega þykir þessum mönnum betra að þurfa ekki að borga.

Brtt. þessa lagði jeg inn á öndverðu þingi, þá er stjórnarskrárfrv. hafði verið útbýtt. Hefir hún síðan legið fyrir háttv. nefnd, og kvað hún loks hafa tekið einhverja afstöðu til hennar í morgun. Og eftir allan þennan tíma, sem nefndin hefir verið að leggja kollhúfur yfir till., kváðu það svo að eins vera 3 menn í nefndinni, sem ráðið hafa að greiða atkv. með henni. Það er þó gott, eða betra en ekkert. En satt að segja bjóst jeg kann ske við, að í nefndinni mundi verða eitthvað álíka og í Sódómu af rjettlátum mönnum. En þeir reyndust ekki svo margir, hinir rjettlátu í nefndinni. Og jeg heyri jafnvel sagt, að þetta manngerða frelsi, háttv. þm. Dala. (B. J.), sem talaði svo hátt áðan, sje á móti till. Þessi maður, sem er svo frjálslyndur að hann mundi jafnvel veita tukthúslimum atkvæðisrjett, ef hann gæti, vill ekki leyfa þessum mönnum að vera lausum við ranglátt gjald. Það er einkennilegt samræmið í þessum frelsiskenningum. En svona er það, og sannast þar:

„Í einum munni tungur tvær

tálið einföldum brugga þær.“

Jeg sje svo ekki til neins að fara fleiri orðum um þetta einfalda mál. Hjer er farið fram á, að þeir menn, sem ekki aðhyllast guðsdýrkunarsiði kirkjunnar og ýmsar sjerskoðanir aðhyllast í trúarefnum, sleppi við öll gjöld, sem aðrir gjalda til kirkju sinnar. Vona jeg, að þótt þessi sanngirnistillaga næði ekki meira fylgi hv. stjórnarskrárnefndar, þá fái hún þó nóg fylgi hv. þingdeildarmanna til þess að ná samþykki deildarinnar og síðan alls þingsins. Jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á, að þingið þvoi ekki þennan smánarblett af stjórnarskránni.