29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Gísli Sveinsson:

Af því að jeg er aðalflutningsmaður að 2 brtt., verð jeg að segja nokkur orð.

Fyrri brtt. er á þgskj. 297. Þar er lagt til, að þjóðaratkvæði eftir á verði ekki að eins látið fara fram, ef breytingar verða gerðar á sambandslögunum, heldur og ef breyting verður á kirkjuskipuninni.

Kirkjunefndin var á einu máli um, að slík breyting væri svo stórvægileg, að sjálfsagt væri að ákveða þetta eitt skifti fyrir öll í stjórnarskránni. Kirkjuskipuninni mætti ekki breyta án þjóðaratkvæðis. Jeg þarf ekki að taka það fram, sem jeg hefi áður látið í ljós hjer í hv. deild í öðru sambandi, að sjálfsagt er, að slíkt stórmál sje undirbúið af þinginu, áður en það er borið undir þjóðaratkvæði. Með þessu er líka átt við, að þjóðaratkvæðis sje ekki leitað um stórmá! óundirbúið. Og af innlendum málum, sem varða alþjóð, skiftir þetta mál svo miklu, að ekki má minna vera en að fólk fái að segja álit sitt um það, af eða á. Stjórnarskrárfrv. getur ekki verið nokkur hætta búin, þótt brtt. þessi verði samþ. En jeg verð að taka undir það, að rjett er að stuðla að því, að þær einar brtt. nái fram, sem ekki eru líklegar til að valda of miklum töfum. Það eru líkindi til, að kosningar eigi að fara fram í haust á ákveðnum tíma, og má þá ekkert dragast að afgreiða slíkt stórmál eins og stjórnarskrármálið, ef það á að koma tilbúið frá þinginu undir kosningarnar.

Önnur brtt., sem jeg býst við að menn geti líka orðið sammála um, er á þgskj. 80 og hljóðar um, að þingtíminn sje færður yfir á veturinn. Jeg býst sem sje við, að menn verði að játa, að þetta sje heppileg breyting. Ef heyja á þingið árlega, gefur að skilja, að þm., sem margir eru bændur, eigi ekki gott með að missa þann tíma, sem við verðum nú að halda þing á, frá nauðsynlegum sumarönnum. Svo er þetta líka annarsstaðar, að þing er háð að vetrinum að mestu, en á sumrin hafa þingmenn „frí“ frá þingstörfum, nema eitthvað kalli að. Spurningin getur að eins verið um það, hvort fyrri eða seinni hluti vetrar er heppilegri. Að öllu samanlögðu er það, að þingið komi saman 15. febrúar, hentugasti tíminn, eins og við flm. till. leggjum til.

Haustið er ekki eins hentugur tími, því að þá stendur skammdegið sem hæst um þingtímann, og eins færi svo, ef þingið væri háð fyrri part vetrar, að talsverð töf yrði frá þingstörfum, meðan hátíðir stæðu yfir. Þann tíma mundi ekkert unnið, og fjelli þannig úr að minsta kosti hálfur mánuður. En slíkt fyrirfram gefið aðgerðaleysi þarf ekki að koma fyrir, ef þingið er háð seinni part vetrar.

Enn fremur eru lítil líkindi til, að neitt hamli verulega ferðum þennan tíma árs. Ís hindrar varla nokkurn tíma skipagöngur þennan tíma vetrar, eða í öndverðum febrúar. En jeg geri ráð fyrir, að skip verði látið sækja þingmenn. eins og tíðkast hefir nú upp á síðkastið. Jeg tel sjálfsagt, þar sem jafnörðugar samgöngur eru eins og hjer á landi, að landsstjórnin láti sækja þessa starfsmenn, svo að þeir komist slysalaust til þings og þingstarfa. Ef þing kæmi saman 15. febrúar, yrði heimfarartími þingmanna í kringum 1. maí, eða má ske öllu fyr. Þá gæti ís að vísu hamlað ferðum, en það kæmi vart niður á nema 2–3 mönnum, sem þá gætu ferðast landveg frá einhverjum þeim næsta stað, er skip kæmust á. Það er kunnugt, að ýmsir, þar á meðal embættismenn, verða að ferðast landveg á vetrum, og yrði það ekki örðugra þingmönnum en öðrum.

Jeg tel helst til snemt, að þing komi saman 1. febrúar. vegna þess að ýmsir, sem trúnaðarstörfum eiga að gegna og reikningsskil þurfa að gefa um áramót eru ekki búnir að lúka þeim fyrir þennan tíma, er þeir yrðu að fara að heiman. Þingið má því ekki byrja fyr en 15. febrúar. Það tímatakmark er heldur ekki of snemt, því að jeg býst við, að margir búandmenn vilji vera komnir heim um mánaðamótin apríl–maí.

Hv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.) gat þess um brtt. þessa, að atkvæði nefndarinnar um hana væru óbundin, og svo er víst um fleiri till. En um leið gat hann þess, að hentara mundi að láta sitja við stjórnarfrv. Jeg hefi nú gert grein fyrir, að svo er ekki.

Út af athugasemdum nefndarinnar, á þgskj. 514, við 21. gr., skal jeg enn fremur segja fáein orð.

Nefndin ætlast til, að stjórnin fái umboð konungs ríkisráðsfundi á undan Alþingi til þess að leggja fram í þinginu frv., sem ráðuneytinu kann að þykja þörf á, þótt eigi hafi verið kostur á að bera þau áður undir konung í ríkisráði. Mjer heyrðist hæstv. forsætisráðherra (J. M.) telja einhver tormerki á þessu. Og það kann líka að virðast fljótt á litið. Hann tók til dæmis, að þetta væri ekki venja í nágrannalöndunum, og er það rjett. En það er ekki saman berandi við okkar ástand hjer. Því að þar er konungurinn við höndina og altaf hægt að ná til hans, hversu brátt sem að kann að bera um frv., sem stjórnin þarf að leggja fyrir þingið. Þó skal jeg ekki leggja svo mikið kapp á, að álit nefndarinnar á þessu atriði sigri hjer í deildinni, nema að því er snertir eitt frv., og það er fjárlagafrv., sem leggja á fyrir hvert reglulegt Alþingi.

Það getur orðið öldungis ókleift að sigla með það á konungsfund, eða á hvaða hátt sem er að leggja það fyrir konung fyrirfram, nema í stórum dráttum. Jeg vil leggja áherslu á það, að þó að vandkvæði kunni að vera á að fá samþykki konungs til þessa fyrirkomulags yfirleitt, þá mætti þó leggja það fyrir þingið á þennan veg. Þegar nánar er að gætt, þá er samþykki konungs líka að eins form eitt og kemur ekki svo mikið málinu við í framkvæmd. Vitanlega er það stjórnin, sem ábyrgðina ber, og þarf ekki annað en minna á margt, sem konungur að forminu til á að fremja, en stjórnin verður þó að bera fulla ábyrgð á og framkvæma, svo sem embættaveitingar o. fl. Konungur verður á engan hátt sakaður, þótt óhöndulega takist til með þetta, því að hann er ábyrgðarlaus með öllu. Þess vegna á það ekki að gera hið minsta til, þótt stjórnin fái umboð í þessu efni, og sjerstaklega þegar þess er gætt, að fjárlög eru ekki nein lagabreyting á ástandi, heldur að eins áætlun um tekjur og gjöld, sem einnig tekur miklum breytingum í meðferð þingsins.

En það gæti komið sjer mjög illa, ef fjárlög yrðu háð framlagningarskilyrðum, ef þing er haldið árlega, og skil jeg þá ekki, að neitt geti verið á móti því, að gera undantekningu þeim viðvíkjandi. Það segir líka berum orðum, svo að ekki verður um vilst, í frv. þessu, að konungur geti látið leggja fyrir þing frv. og annað þess háttar. Það er ekki með því sagt, að hann verði að gefa umboð í hvert skifti; hann getur gefið það fyrir lengri tíma eða í eitt skift fyrir öll. Og þó ekki standi þar, að stjórnin skuli gera það, þá liggur það í hlutarins eðli, að það er hún, og enginn annar, sem átt er við. Ef þetta hefði ekki verið venja, þá er óvíst, að neitt hefði þurft að taka fram um þetta, en nú er sú venja á komin að sigla með stjórnarfrv. öll á konungsfund, og verður því ákvörðun um það, ef undantaka á, nauðsynleg. Jeg býst við, að hæstv. stjórn geti fallist á þessa röksemdaleiðslu, er jeg nú hefi flutt.

Þá kem jeg að ráðherrafundunum og atkvæðagreiðslu á þeim fundum. Það er beint fyrirskipað, að þessa fundi skuli halda. Ef ákvæðið um þessa fundi á að vera annað en nafnið tómt og að eins til þess að taka þetta eftir öðrum, þá verður að ákveða nánar hjer um Ef þeir eiga að verða ályktunarfærir, og til þess munu allir ætlast, þá verður að taka það fram, hvernig sú ályktun skuli gerð. Við höfum til þessa, nú um hríð, bygt á meiri hluta valdi, og virðist því rjett, að ályktanir ráðherrafunda sjeu bygðar á sama grundvelli. Það hefir verið um það rætt, að óviðkunnanlegt væri, ef forsætisráðherra væri einn á móti hinum tveimur, að hann þyrfti þá að lúta í lægra haldi. En til þessa kemur ekki beinlínis. Ef málið er svo mikilsvert, að einhver ráðherranna sjái sjer ekki annað fært en að gera það að ágreiningsatriði, þá verður sá ráðherra væntanlega að fara frá, hvort sem það er forsætisráðherra eða annar. Ráðuneytið beiðist þá lausnar og nýtt verður myndað, að öllu eða nokkru leyti. Ákvæðið verður þá á engan hátt óviðkunnanlegt, heldur sjálfsagt, sem áframhald af þingræðinu.

Þá vík jeg mjer að brtt. hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.). Jeg verð að telja hana sjálfsagða. Það er meiningarlaust að skylda menn til að borga til annara trúfjelaga en þeir eru í, og ef þeir eru utan þjóðkirkjunnar, að þá leggist á þá sjerstakt gjald þess vegna, hvort sem er til háskólans eða annars. Það er ekki rjett að refsa þeim mönnum með peningagjöldum. Þessi brtt. er framhald þeirrar breytingar, sem gerð var 1915, um að losa menn við þjóðkirkjugjaldið ef þeir væru utan hennar, en í öðru trúfjelagi, en sú breyting gekk ekki nógu langt; nú kemur sú nauðsynlega viðbót og er sjálfsagt að taka henni vel.

Þá er brtt. háttv. þm. Dala (B. J.) um að fella burtu það skilyrði fyrir kosningarrjetti, að vera fjár síns ráðandi og vera ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Um sjálfa till. eða innihald hennar skal jeg ekki tala, en vildi að eins benda háttv. þm. (B. J.) á, að hann hefir ekki gengið nógu langt. Það stendur sem sje í næstu málsgr. á eftir, í 29. gr., að „gift kona teljist fjár síns ráðandi“ o. s. frv. Þetta ákvæði verður algerlega óþarft, ef brtt. hv. þm. Dala. (B. J.) yrði samþ., og ætti því jafnframt að falla niður.

Að lokum vildi jeg leyfa mjer að víkja nokkrum orðum að aðalþrætuepli deildarinnar, búsetuskilyrðinu. Jeg hafði heyrt mikið um það talað, að ágreiningur væri allmikill í nefndinni, og von væri á deilum og illindum. Það má segja, að sú spá manna hafi að nokkru ræst; ekki hefir deilurnar vantað, en það hefir verið minna um ágreininginn í raun og veru. Báðir málspartar eru sem sje sammála um það að búseta skuli heimtuð. Það er þá að eins um það að ræða, hve löng hún skuli vera. Sumir halda fram 2 árum, aðrir 4 eða 5. En öllum kemur saman um, að 5 ár sjeu ekki nóg, ef í það fer. Jeg skil því ekki deiluna, sem risið hefir, þótt jeg hafi lesið nál., eða ef til vill heldur af því að jeg hefi lesið þau. Mjer virðist, að minni hlutinn hefði átt að geta fallist á 5 ára skilyrðið, jafnvel þótt hann álíti það óþarflega mikið í svipinn. Jeg sje því ekki betur en að brtt hans hefði mátt vera óframborin. Jeg býst við, að minni hlutinn líka beygi sig, ef 5 ára skilyrðið verður samþ. Það yrði óviðkunnanlegt, ef málið alt ætti að falla á þessu atriði, sem í sjálfu sjer er ekki veigamikið, með því að báðir vilja búsetuskilyrði, og reyndar allir hafa skrifað undir fyrirvaralaust. — Það er annars einkennilegt snið á þessu nefndaráliti eða álitum, og hefir ekki þekst hjer fyr. (P. J.: Jeg hefi sjeð þau mörg með þessu sniði í. Það held jeg að varla geti verið rjett, því að allir skrifa undir fyrirvaralaust, en þykjast þó vera mjög ósammála.