29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Einar Arnórsson:

Það eru að eins örfá atriði, sem jeg vildi athuga. Jeg var hjer ekki þegar hæstv. forsætisráðh. (J. M.) talaði og veit því ekki, hvað hann kann að hafa sagt. En eftir því, sem mjer hefir skilist á ræðum hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þá mun hann hafa talað um 13. gr. eða ráðherrafundinn. Þeir, sem jeg hefi nefnt, hallast allir að því, að þar eigi afl atkvæða að ráða, en nefndin hefir, sem kunnugt er, lagt til, að það ákvæði verði felt niður. Mjer virðist þetta ákvæði ekki altaf geta staðist, og því betra að hafa það ekki. Það getur hæglega komið fyrir, að forsætisráðherrann rói einn á báti, og hinir 2 sjeu á móti. Þegar svo stendur á, er eitt af tvennu: Annaðhvort beygir meiri hlutinn sig undir álit minni hlutans (forsætisáðherra), eða hann gerir það ekki. Ef meiri hlutinn beygir sig, þá ræður minni hlutinn. En ef meiri hlutinn beygir sig ekki, þá verður hann að sækja um lausn frá embætti. Þá beiðni verður forsætisráðherra að vísu að taka til greina, en meiri hlutinn ræður hjer ekki heldur, heldur minni hlutinn. Ef þar á móti forsætisráðherra hefir annan hinna ráðherranna með sjer, en hinn er andstæður þeim, þá getur afl atkvæða ráðið. En sá, sem þá er í minni hluta, sækir þá um lausn, ef málið er svo mikilsvert að hans áliti, að hann vilji enga ábyrgð taka á framgangi þess eða hinu gagnstæða.

En nú getur auk þess hæglega komið fyrir að ráðherrarnir sjeu að eins tveir. Það eru að vísu lög nú, að þeir skuli vera þrír, en það getur hugsast, að einn forfallist, sje veikur, í siglingu eða forfallaður á annan hátt. Það getur því komið fyrir, að halda þurfi ráðherrafund, og verður þá ákvæðið um afl atkvæða þýðingarlaust. Þá eru að eins 2, og getur þá ekki orðið skorið úr með afli atkvæða. Það er því eins gott að sleppa því alveg. Þegar ágreiningur verður, þá verða ráðherrarnir að skera úr því sjálfir, hvað framkvæmt verður, og geta þeir, sem á móti eru, losað sig við ábyrgð með því að segja af sjer embætti. En þá er hægt að spyrja um það, til hvers ráðherrafundir skuli þá vera ákveðnir í stjórnarskrá, og er því auðsvarað. Ráðherra á þá stjórnskipulega heimtingu á, að hinir komi og taki þátt í meðferð mála, og geta þeir ekki skotist undan því. Þetta hefir mikla þýðingu í sambandi við ráðherraábyrgðarlögin. Enginn getur skotið sjer undan ábyrgð eða látið, sem hann hafi hvergi nærri komið mikilsverðri ráðstöfun, sem ágreiningi veldur. Þegar rætt er um ábyrgð þeirra einstöku ráðherra, þá má leita gerðabókar ráðherrafunda, og sjest þá svart á hvítu, hvað sá ráðherra hefir lagt til málanna. Þetta atriði er ekkert stórmál, og síst að það sje mjer kappsmál, en þó held jeg hentara að hafa það fyrirkomulag, sem nefndin leggur til, og þegar semja á stjórnarskrá, sem standa á lengi, þá er sjálfsagt að vanda til hennar sem mest, þó í smáu sje.

Þá er brtt. nefndarinnar við 15. gr., um að orðin „Hver ráðherra“ og til enda greinarinnar falli burt. Nefndin taldi þessa breytingu sjálfsagða. Ef ráðherra undirritar, þá ber hann vitanlega ábyrgð á henni. En hinir losna ekki við ábyrgðina fyrir það. Það er þegar sagt í 10. gr., að ráðherrar beri ábyrgð á öllum ráðstöfunum, og þá jafnt neikvæðum og jákvæðum, jafnt á því, sem gert er, og látið ógert. Vitanlega minkar það ekki ábyrgð hans að skrifa undir, en þetta ákvæði gæti verið villandi, að því leyti, að hægt væri að líta svo á, að það minkaði ábyrgð hinna ráðherranna, að einn skrifar undir en það hefir ekki verið tilgangur stjórnarinnar með þessu ákvæði; það sjest á 14. gr., og vona jeg því, að hún geti fallist á þessa till. nefndarinnar.

Þá ætla jeg að víkja mjer að athugasemd nefndarinnar við 21. gr. Athugasemdin er um það, að stjórnin fái almenna heimild í ríkisráði hjá konungi til að bera fram frv. á Alþingi.

Það er sem sje kunnugt, að stjórnin ber ábyrgð á öllu því, sem borið er fram af hennar hálfu hjer á þingi, þótt fengið sje, að forminu til, samþykki konungs. Auk þess getur staðið svo á stundum, að hún eigi ekki kost á að ná til konungs. Það er ekki langt síðan síminn slitnaði. Svo gæti staðið á undir líkum kringumstæðum, að stjórninni lægi á að fá samþykki konungs til að bera fram einhver frv. Það yrði þá að bíða. Hitt er annað mál, að í framkvæmdinni skiftir þetta litlu máli. Því að stjórnin getur ávalt snúið sjer til einhverrar nefndar, eða jafnvel einstakra þm., og beðið hana að flytja fyrir sig þau frv., sem um ræðir. T. d. hefir fjárhagsnefnd flutt ýms skattafrv. fyrir stjórnina. — Á þennan hátt hefir hæstv. stjórn oftar en einu sinni farið í kring um þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Það má því segja, að ekki væri neitt lakara að fá heimild til þessa hjá konungi í eitt skifti fyrir öll.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) virtist ekki vera sammála nefndinni um breytingu hennar á 38. gr. stjórnarskrárinnar. Það stendur í greininni: „og skal í frumvarpinu vera fólgin greinileg skýrsla um tekjur ríkisins og gjöld“.

Þetta orðalag sýnir það, að átt er við efni sjálfs frumvarpsins, en ekki athugasemdir þess. En úr því að átt er einungis við efni frv., þá virðist ekki alls kostar rjett að tala um „greinilega skýrslu“. — Eins og menn vita er í fjárlagafrumvarpinu gerð áætlun um væntanlegar tekjur og gjöld ríkisins fyrir það fjárhagstímabil. Mjer finst ekki viðfeldið að kalla það „greinilega „skýrslu“, sem ekki er nje getur verið annað en áætlun. Að það sje ekki annað en áætlun nær einkum til tekjubálksins, og að nokkru leyti til gjaldanna. Allur tekjubálkurinn, síðan 60 þús. kr. árgjaldið frá Dönum fjell niður, er áætlun frá stjórninni um það, hvað hún ætli að ýmsir tekjuliðir gefi af sjer. Þar sem nú það er sýnilegt, að ómögulegt er að gefa „greinilega skýrslu“ um þetta, tel jeg rjettara að kalla það „greinargerð“ um hina mismunandi tekjustofna. Sama máli er að gegna um útgjaldaliðina. Meiri hluti þeirra er áætlun. Jeg skal játa, að þetta er að eins ágreiningur um orðalag. En mjer finst orðið „greinargerð“ vera betra um það, sem við er átt, heldur en „skýrsla“.

Þá vildi jeg minnast lítið eitt á búsetuskilyrðið. Það er nú búið að ræða það svo mikið, að mjer finst óþarft að tala rækilega um það. Þó er eitt atriði í því, sem jeg hefi ekki heyrt minst á.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) inti að því, að ekki væri viðeigandi að ganga fram hjá ráðgjafarnefndinni í þessu máli. Hann sagði, að þegar stjórnarskráin hefði legið fyrir henni í vor, þá hefði henni ekki verið skýrt frá því, að þessi breyting mundi gerð hjer á þingi. Bæði háttv frsm. meiri hlutans (B. Sv.) og háttv. þm. Dala. (B. J.) hafa nú svarað þessu. En jeg ætla að gera háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) það til geðs, að fallast á það með honum, að þetta skuli borið undir ráðgjafarnefndina. En verður þá ekki niðurstaðan alveg hin sama? Jeg geri ráð fyrir, að þetta stjórnarskrárfrv. verði samþykt nú. Þá verður það borið upp á auka þingi næsta ár. Þá býst jeg við, að þetta atriði verði borið fram fyrir þessa nefnd, eins og önnur stjórnarfrv. Er þá ekki háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) fullnægt?

Annað er og hitt, að það er mikið rjett í því, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók fram, að eftir brtt. háttv. minni hluta er mjög skamt á milli hans og háttv. meiri hluta, eftir skilningi minni hluta sjálfs á þessu atriði. Því hann (minni hluti) telur sig vera reiðubúinn til þess að lengja búsetuskilyrðið með sjerstökum lögum, ef á þarf að halda. Jeg get því ekki skilið, hvers vegna minni hlutinn heldur svo fast á því að setja búsetuskilyrðið ekki í sjálfa stjórnarskrána.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) finst, eftir því er hann segir, stappa nærri broti á sambandslögunum, ef sett verður 5 ára búsetuskilyrði, en hins vegar ekki ef sett eru 2 ár, sem svo má framlengja með einföldum lögum. Ef 5 ára skilyrðið á að vera brot á sambandslögunum eða stappa nærri því, en 2 ára tíminn ekki, þá finst mjer það vera lík röksemdaleiðsla og ef sagt væri: Sá, sem stelur 2 kindum, er ekki þjófur, en hinn, sem stelur 5 kindum, hann er þjófur.

Þá vildi jeg að eins minnast á eina brtt.; það er till. háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) á þgskj. 52. Hún er við 60. gr. stjórnarfrv. Brtt. hans fer í þá átt, að þeir, sem eru utan þjóðkirkjunnar, geti losað sig við öll persónuleg gjöld til hennar, svo framarlega sem þeir eru ekki í neinu viðurkendu trúarfjelagi í landinu. Mjer skilst nú, að eftir því, sem komið er málum kirkjunnar hjer á landi, þá sjeu það ekki mikil höft á trúfrelsi manna að vera í þjóðkirkjunni, eða samviskuþvingun á neinn máta. Jeg á auðvitað ekki við þjóðkirkju höfuð-„Patríarkanna“ hjer í háttv. deild, þeirra háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Hún á að vera mjög lögmálsskorðuð. En nú er hún ekki lengur „virkileg“, því að okkar þjóðkirkja líkist miklu fremur „hóteli“, sem allir geta fengið gisting í, af hvaða sauðahúsi sem þeir eru, og það mjög rúmgott „hótel“. Einu sinni var það jafnvel á „prógrammi“ andlegs höfuðs kirkjunnar hjer að hafa þjóðkirkjuna „confessions“ -lausa. Og virðist nú stefnt í þá átt. Þegar svo er komið, gerir kirkjan ekki harðar kröfur til manna. Hún leggur ekki mörg bönd á sannfæringarfrelsi þeirra, þar sem menn virðast geta haft hvaða skoðun sem þeir vilja, á þeim grundvallaratriðum, sem kirkjan heldur fram. (G. Sv.: Er rjettlátt, að menn borgi gistingu á því hóteli, sem þeir vilja ekki gista á?). Nei. Að vísu ekki. En það er kunnugt, að menn verða að gjalda til vega og vegagerða, þó þeir vilji ekki fara um vegina. Í þessu sambandi vil jeg líka benda á það, að á meðan ríkið á annað borð heldur uppi kirkju, þá ber að líta svo á, að hentast muni, bæði fyrir kirkjuna og ríkið, að sem flestir sjeu í henni og gjaldi til hennar. Ef hins vegar allir sem vildu gæfu með því að segja sig úr þjóðkirkjunni losnað við þá skatta, sem því fylgja, þá gætu þeir, sem ekki eru mjög trúhneignir, beinlínis haft sjer vantrú sína að fjeþúfu. Þeir gætu af lítilmótlegustu peningaástæðum smeygt sjer undan þeirri þjóðfjelagsskyldu, sem samkvæmt anda stjórnarskrárinnar á að hvíla á sem flestum. Og á þann hátt auka þeir þau gjöld, sem hinir, er í þjóðkirkjunni haldast, þurfa að greiða til kirkjunnar. Því prestlaunasjóðurinn er ekki annað en hluti af landssjóði. Þótt óánægja rísi einhver af gjaldskyldu þessari, þá sje jeg ekki, að það væri mjög hættulegt. Síst væri það hættulegt frá sjónarmiði þeirra, sem vilja skilnað ríkis og kirkju. Það væri ný hvöt til þeirra til að vinna sem ósleitilegast að skilnaðinum. Ef aftur á móti allir sem vildu gætu losnað við gjöldin með því að þyrpast úr þjóðkirkjunni, þá væri þeim sama, þó hún hjengi uppi áfram. Mjer finst því, að báðir þessir háttv. þm., er jeg nefndi áðan, ættu að reyna að halda í þetta, til þess að hafa það sem röksemd fyrir skilnaðinum og koma honum sem fyrst í framkvæmd.