29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Pjetur Jónsson:

Jeg ætla þá ekki lengur að vera að mögla á móti því, að heita frsm. minni hlutans, úr því að það sýnist vilji allra háttv. þm. að nefna mig þeim titli. Jeg ætla þá ekki að nota mjer framsögumannsrjett minn, þó jeg nú tali í annað sinn, því jeg býst við, að allir yrðu sofnaðir er röðin kæmi að mjer í þriðja sinn. Er því að háttv. þm. Dala (B. J.). gat eftir mikla mæðu áttað sig á því, að jeg væri þm. S.-Þ., þá ætla jeg að svara honum nokkru. (B. J.: En ekki ef jeg hefði staðið fast á, að hv. þm. væri þm. Suður-Dana. Þá hefði jeg svarað hv. þm. Dala. (B. J.) á þýsku. Þessi háttv. þm. (B. J.) lagði þann skilning í fyrri ræðu mína, að jeg hefði talið það brot á sambandslögunum að samþykkja skilyrðið um fimm ára búsetu, en þetta er ekki rjett skilið. Jeg tók sem sje skýrt fram í ræðu minni, að jeg áliti það ekki brot á samningunum. eða lagalega rangt, að setja fimm ára búsetuskilyrðið inn í stjórnarskrána. Jeg rifjaði upp í þessu sambandi nefndarálitið, og ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að rifja það upp aftur:

„Minni hluti nefndarinnar er meiri hlutanum fyllilega samdóma um það, að vjer höfum lagalegan rjett til þess að setja svo langt búsetuskilyrði, sem oss sýnist í stjórnarskrána fyrir kosningarrjetti og kjörgengi til Alþingis, og eins um hitt, að tryggja beri Íslendingum rjett og vald yfir málum sínum. Hins vegar telur hann hvorki nauðsynlegt, hagkvæmt eða fullörugt að einskorða búsetutímann í stjórnarskránni, eins og meiri hlutinn vill gera“.

Það, sem jeg sagði um ráðgjafarnefndina, vildi hv. þm. Dala. (B. J.) leggja út á þá leið, að jeg teldi nefndina hafna yfir þing beggja ríkjanna. En þetta er auðvitað rangt, eins og jeg hefi margtsagt áður. Nefndin er að eins ráðgjafarnefnd, en getur gert málamiðlanir þegar svo ber undir, en annað ekki. Og alt er þetta svo skýrt tekið fram í nál., að algerður óþarfi er að snúa út úr því.

Háttv. þm. (B. J.) kallaði það óorðheldni, ef við samþ. nú ekki búsetuskilyrði meiri hlutans og háttv. framsm. hans sagði landsmenn hjer gabbaða, ef svo yrði ekki gert. En jeg held því fram, að ef þingið nú samþykkir tillögu okkar í minni hl. um búsetuskilyrðin, þá sje fullnægt þeim kröfum, sem landsmenn geta gert til þingsins, og þeir hafi eigi yfir neinum vonbrigðum að kvarta.

Í sambandi við þann mikla ótta, sem virðist hafa gripið suma menn hjer, við einhverskonar danska innrás hingað, þá er það hvorttveggja, að jeg hefi ekki trú á henni, og hefi ekki heyrt færðar fyrir henni neinar sennilegar líkur. En jafnvel þó gert sje ráð fyrir slíkri innrás, getur verið alveg eins mikil trygging í því að eiga hægt með að færa í snatri upp tveggja ára búsetuna eftir þörfum, ef annars búsetuskilyrði er næg trygging gegn illum áhrifum af slíkri innrás á þjóðmál vor.

Þá mintist háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) nokkuð á málið og sagði, að skoðanamunur nefndarhlutanna væri í rauninni ekki svo ýkjamikill, og leit yfirleitt á það með sanngirni, og gladdi það mig En hann virtist líta svo á, að þar sem við hefðum gengið inn á nokkra búsetu, þá gætum við eins játað 5 árum eins og 2. Þessu hefi jeg áður andmælt. En jeg vil skjóta því hjer inn í, að mjer virðist það svo, að hann og fleiri telji ekki neitt búsetuskilyrði í stjórnarfrv. Þar er þó áskilin eins árs búseta í kjördæminu, og auðvitað er ekkert kjördæmi til nema í landinu. Þess vegna er eins árs búsetuskilyrði í því. Tveggja ára búseta er ekki nema lítill stigmunur frá því. En það, að minni hlutinn vill hækka þetta takmark, var bæði af því, að hann vildi sneiða hjá ósamkomulagi í nefndinni, ef hægt væri að miðla málum, og í öðru lagi af því, að ávalt má nokkuð um það deila hvað telja beri fullkomna búseta þegar um eitt ár er að gera, en nokkurn veginn vafalaust annað árið. Þá sjest þó, hvort dvölin hjer er veruleg búseta eða „fingeruð“.

Þá hefir hv. 2. þm Árn. (E. A.) sagt það, að ef jeg gæti talið það höggva nærri brotum á sambandslögunum að ákveða 5 ára búsetu, hlyti jeg líka að líta svo á um 2 ára búsetu. En jeg hefi gert grein fyrir, og í nefndarálitinu gerir minni hlutinn grein fyrir því, hver munur er á 5 árum og 2 í þessu sambandi. Tvö ár eru eðlilegt skilyrði, en 5 ár óþarft, fyrst um sinn.

Svipaður hugsanagangur kom fram hjá hv. frsm. (B. Sv.), þar sem hann gat um, að minni hl. hefði upp á síðkastið færst nær meiri hl. í skoðunum. Til skýringar þessu öllu saman vil jeg nú drepa örstutt á sögu þessa atriðis í nefndinni. Því var sem sje þannig varið, að umræðunum um búsetuna var sí og æ skotið á frest, þegar það varð augljóst, að mestur meiningamunur mundi um hana verða. Var kosið að láta það bíða, uns útgert væri um önnur atriði. En þegar ákveðnar tillögur fóru að koma fram, kom þegar í stað tillaga frá okkur um það, að á eftir greininni um búsetu í kjördæminu skyldi setja setningu um að setja mætti frekari skilyrði með sjerstökum lögum. En þegar það kom fram, að margir nefndarmenn vildu hafa föst ákvæði í stjórnarskránni sjálfri, gerðum við það til samkomulags að stinga upp á tveggja ára búsetu. Það virtist nóg, því ákvæðið er ekki, og átti ekki að vera, annað en öryggisákvæði eða ráðstöfun, og því var sjálfsagt að hafa árabilið ekki hærra en nauðsynlegt var, til þess að tryggja það öryggi gagnvart útlendingum, án þess að íþyngja um of fæddum Íslendingum. Og eins og margsannað hefir verið, þá er þetta næg trygging hjer, án þess að vera nokkurt undanhald á neinu sviði, eins og stöðugt hefir kveðið við frá hv. meiri hluta. Hitt er augljóst, að ef að því kemur, að hætta standi fyrir dyrum, og á því er mönnum innan handar að átta sig og gera nauðsynlegar ráðstafanir á tveimur árum — jeg segi, ef svo reyndist, þá er ekki einungis unt, heldur auðvitað sjálfsagt að grípa til nauðsynlegra úrræða til verndunar rjetti sínum, þó þau verði þá sennilega ekki fólgin í búsetuskilyrði einu, hvort sem það er lengra eða skemra, heldur fleiru. En fyrst kleift er nú að koma á fullgildum vörnum, þegar á þarf að halda, án þessa fimm ára skilyrðis, er þá nokkur ástæða til að vera að halda því til streitu, sjerstaklega þegar það getur ekki orðið til annars en þess, að ala á ríg og tortrygni milli þjóðanna?

Þá hefir það verið sagt, að úr því minni hl. byggist ekki við því, að nokkur hætta mundi verða á ferðum í fyrirsjáanlegri framtíð og að þess yrði langt að bíða, að grípa þyrfti til nokkurs slíks, ætti ákvæðið að minsta kosti að vera svo meinlaust, að ástæðulaust væri að amast við því. En þarna er einmitt munurinn — þarna er einmitt ágreiningurinn. Því ákvæðið er ekki meinlaust gagnvart okkar eigin löndum, sem erlendis eru, og það er þeirra vegna, að við viljum ekki ganga inn á svona tíma. Því það er ástæðulaust að vera að gera sínum löndum óhægra fyrir í veruleikanum, með því að búa til einhverja málamyndatryggingu gegn ímyndaðri hættu seinna meir.

En auk þess, sem sagt hefir verið um búsetuskilyrðið beinlínis — og því hefi jeg nú svarað — hafa ýms önnur atriði og brtt. verið settar í samband við það. T. d. vildi hv. þm. Dala. (B. J.) setja brtt. á þgskj. 566, um fjölgun þingmanna, í samband við það, og þá sjerstaklega ákvæðin um landskjörið. Þetta átti alt að vera gert til þess eins, að opna Dönum greiðari aðgang hingað og gefa þeim betra færi á að beita sjer hjer, okkur til meirs og miska. Ef teknar væru alvarlega þessar ásakanir, þá væru þær þungar, og þyngra þó fyrir hv. þm. að færa þeim stað. Því þetta er í raun rjettri sama sem að drótta að manni landráðum. En jeg kippi mjer ekki upp við þetta, af því að jeg veit, að jafnvel hv. þm. Dala. (B. J.) trúir þessu ekki sjálfur — hvað þá aðrir.

Í þessu sambandi vil jeg líka minnast lítils háttar á annað atriði — og þó að eins til að kvitta fyrir það, sem þar var að mjer vikið. Afskifti mín af þessu máli voru sem sje af þm. Dala. (B. J.) sett í samband við það, að jeg á sæti í stjórn fossafjelagsins Íslands, sem að vísu er nú orðið danskt að nokkru leyti, en var norskt þegar jeg var kosinn í stjórnina. Mjer er að vísu ekki ljóst, hvernig þingmenn hafa farið að koma þessu hvoru í samband við annað — nema ef það ætti að vera einhver verulegur galli á fjelagi, að jeg væri í stjórn þess. Nú býst jeg samt við, að ef menn gera ráð fyrir, að jeg hafi nokkur áhrif í þessari stjórn, þá muni það heldur reynast íhendis en úrhendis fyrir landsmenn.

Þá vil jeg örstutt minnast á tillögu á þgskj. 556, viðvíkjandi skipulagi þingsins, af því að jeg er við hana riðinn. Jeg og fleiri höfum lengi verið þeirra; skoðunar, að það væri heppilegra fyrirkomulag að hafa sjerstaklega kjörna fulltrúa í efri deild, meiri hluta Ed., eða helst alla, og að þeir fulltrúar væru kosnir til lengri tíma en aðrir þingmenn og ekki háðir þingrofi, heldur gengju úr á víxl, líkt og nú er um hina landskjörnu. Þetta er bygt á þeim rökum, að þegar kosningarrjetturinn til kjördæmakosninga er orðinn almennur og kjörtímabil stutt, þá geta orðið svo skjót veðrabrigði í íslenskri pólitík, að ekki sje til hollustu, ef ekkert af þinginu hefir meiri staðfestu. Jeg held líka, að við höfum nú þegar fengið nokkurn forsmekk þessa, og getur jafnvel orðið efi á því, hversu þingræðið yfirleitt yrði langlíft, ef slíku vindur fram til langframa. Jeg held því sem sje fram, að íhaldið eigi sinn tilverurjett, engu síður en framsóknin; hvorttveggja er nauðsynlegt og á að fá að njóta sín. Þó get jeg búist við því, að ekki fái þeirra framgang á þessu þingi, frekar en ýmislegt annað nýtilegt. En að þessu máli mun jeg vinna, ef jeg lifi og fæst við stjórnmál framvegis. Og jeg get huggað mig við það, að í þessu máli er hin sigrandi framtíð mín megin.