29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get enn eigi gert hv. þm. Dala. (B. J.) það til geðs að svara spurningu hans, því jeg get ekki fundið, að um annað sje að ræða en það, sem tekið er fram í nefndarálitinu, eins og annars hefir verið tekið fram áður. En svo virtist, sem hv. þm. (B. J.) taki það illa upp, er jeg sagðist ekki þurfa að svara honum. Þó var eitt atriði í ræðu hv. þm. (B. J.), sem ef til vill er rjettast að svara. Hann segist hafa sagt mjer í vetur, að hann mundi ekki geta gert sig ánægðan með búsetuskilyrði, bundið við jafnstuttan tíma eins og gert er í stjórnarskrárfrv.: kvaðst hann þá ekki geta gert sig ánægðan með styttri tíma en 4 ár. Um þetta þýðir ekki að deila, því að við vitum báðir, að það er rjett. Því hjelt jeg, að hann hefði með vilja komið með brtt. um, að tíminn skyldi vera 4 ár. Fyrst hv. þm. (B. J.) sagði þá, að hann gerði sig ánægðan með 4 ár, þá get jeg ekki skilið, að 5 ár sjeu svo bráðnauðsynleg nú að það gangi landráðum næst að stytta þann tíma. Þegar jeg sje, hvað hv. þm. (B. J.) er sjálfur reikull í ráði með það, hvað sje hæfilega langur búsetutími, er setja beri sem skilyrði fyrir kosningarrjetti, og þegar þess hins vegar er gætt, hvað lítið meiri hluta og minni ber á milli um lengd hans, þá fæ jeg ekki sjeð eða skilið, hvílíkt veður háttv. þm. (B. J.) gerir út úr þessu. Jeg held nærri því, að hann hljóti að renna grun í, hve ónógar tryggingarráðstafanir hans eru, einmitt frá hans eigin sjónarmiði. Jeg hefi annars ekki borið neinar sakir á hv. þm. (B. J.) í máli þessu; en hann verður að fyrirgefa, þótt jeg fari ekki að taka upp aftur það, sem jeg sagði áður um 20. brtt. hv. nefndar og samanburð hv. þm. (B. J.) á henni og því, sem stæði í 9. gr. frv. um ríkisborgararjett. Þó ætti hann að viðurkenna, að munur er á, hvort sagt er sjúklingur á spítala, eða vera til lækninga.