01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg bjóst við, að frsm. mundi segja álit sitt, fyrir nefndarinnar hönd, um þær breytingartill, er nú liggja fyrir. Jeg á hjer tvær brtt., á þgskj. 605 og 606. Jeg skal geta þess, viðvíkjandi brtt. á þgskj. 605, eins og jeg reyndar drap á við 2. umr. þessa máls, að eiginlega hefði jeg ekki átt að þurfa að koma með þá till., svo sjáfsagt er að fjölga þm. hjer í Reykjavík. Stjórnarskrárnefndin hefði átt að taka þetta upp hjá sjálfri sjer. Í till. fer jeg fram á, að þm. verði að eins fjölgað um tvo, og auðvitað er það ætlun mín, að Reykjavík njóti þessarar fjölgunar. Jeg vil ekki fara að endurtaka þau rök, sem flutt hafa verið fyrir þessari sanngjörnu kröfu. Jeg get í því efni vísað til ummæla minna á Alþingi árið 1917. Að eins vil jeg drepa á eitt atriði, sem sýnir hve rjettmæt og sanngjörn þessi ósk er. Nú eru á kjörskrá fyrir Reykjavík 5510 alþingiskjósendur. Þessi kjósendafjöldi á að eins tvo fulltrúa á Alþingi. Á Seyðisfirði eru tæplega 300 kjósendur: þeir hafa einn fulltrúa hjer á Alþingi. Hvaða rjettlæti er nú í þessu? Auk þessa má benda á, hversu atvinnugreinarnar í þessum bæ eru orðnar fjölbreyttar og margvíslegar, og hversu margt nýtt kemur hjer fyrir svo að segja nærri daglega. Það geta því allir sjeð, hversu erfitt, að jeg ekki segi ókleift, er fyrir þessa tvo fulltrúa að fylgjast með í málum bæjarins og vera svo vel heima í öllum atvinnugreinum hans, að þeir geti flutt mál hans vel og talað fyrir þeim hjer á Alþingi. Þeir hljóta því að vera litblindir á alla sanngirni og rjettlæti, sem geta lagst á móti þessari till. Það er ekki einu sinni farið fram á að fá nærri eins mikið og bænum ber, borið saman við mörg önnur kjördæmi.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) grípur hjer fram í fyrir mjer og vill, að jeg taki þessa brtt. aftur. Honum er nú ekki altaf svo sýnt um að verða við rjettmætum óskum annara kjördæma en hans eigin og er ekki altaf sem framsýnastur. Hv. 1 þm. Árn. ( S. S.) mætti nú muna sum ummæli sín frá þinginu 1911 um hafnargerð í Reykjavík, En þótt hann muni þau ekki, eru þau þó geymd í þingsögunni, en hvort þau eru til þess að sýna, hversu maðurinn er framsýnn, það ætla jeg mjer ekki að dæma um. Þegar farið er fram á eitthvað, sem sanngjarnt er og sjálfsagt, þá er það í mesta máta óhyggilegt að verða ekki við þeim óskum.

Þegar svo er ástatt, ættu menn meir að líta á sanngjörn rök og óhrekjanleg heldur en þröngsýnar skoðanir óþroskaðra kjósenda úti um landið. Ef það er þá annars nokkur kjósandi til á landinu, sem er svo nærsýnn. Best gæti jeg trúað því, að það væru að eins nokkrir þm., sem ekki sjá lengra. Það mætti nú segja, ef jeg ætlaði mjer að vera hjer í Reykjavík framvegis, að þetta væri sprottið af eigingirni hjá mjer, en þar sem jeg býst við að verða framvegis búsettur úti á landi, þá verður mjer ekki brugðið um slíkt.

Að svo mæltu læt jeg útrætt um þetta atriði.

Þá á jeg brtt. á þgskj. 606. Jeg tek aftur brtt. mína á þgskj. 64, sem er um líkt efni. Við 2. umr. málsins lýsti jeg því yfir, að jeg mundi koma fram með þessa till. Sneið jeg hana eftir þeim undirtektum, er hin brtt. mín fekk hjá háttv. þm. Hefi jeg dregið úr brtt. minni á þgskj. 64 það atriði. er þótti kröfuharðast, en það var það ákvæði, að útlendingar skyldu tala og rita málið stórlýtalaust. Nú er till. svo orðuð, að þeir verða að skilja málið og geta talað það sæmilega. Þetta er vægasta krafan, sem hægt er að gera til manns, sem á að fá full rjettindi í landinu á við landsins eigin börn. Það má líka með rjettu segja, að þeirri þjóð væri undarlega varið, sem ekki vildi setja þá tryggingu fyrir meðferð þjóðmála sinna, að þeir, sem um þau fjölluðu, skildu tungu þjóðarinnar. Þá fyrst er líka hægt að vænta þess, að útlendingar þekki þjóð vora og kjör hennar og atvinnugreinir og alla hætti, er þeir skilja tungu vora, og geta mælt við landsmenn. Það er því ekki að ástæðulausu, að jeg ber fram þessa tillögu. Færi nú svo, að útlendingum fjölgaði hjer mikið á næstu árum, er þetta ákvæði í stjórnarskránni alveg nauðsynlegt. Væri ekkert aðhald í þessu efni, býst jeg við, að margir þeirra útlendinga, er hingað kæmu, legðu ekki mikið á sig til að læra málið.

Nú vita menn, að allmargir Danir eru hjer: sumir þeirra hafa dvalið hjer í mörg ár, og allmargir þeirra tala ekki íslensku og skilja hana alls ekki. Nærri má geta, hvort þeir hafa gert sjer far um að læra málið. Nú má geta nærri, hvort þessir menn hafa mikla þekkingu á þjóðmálum vorum, þegar þeir sýna ekki meiri áhuga á að læra málið. Þó ættu þeir að hafa óskoraðan rjett til þess að greiða atkvæði um mál vor! Jeg vænti þess vegna að allir þeir, sem vildu hafa búsetuskilyrðið 5 ár, og jafnvel hinir líka, fallist á þessa tillögu mína. Það sjá líka allir, að ef trygging er fólgin í því, að útlendingar skuli hafa dvalið hjer 5 ár áður en þeir fái kosningarjett og kjörgengi, þá er þó meiri trygging í því, að þeir skuli skilja málið. Mjer er líka nær að halda, að útlendingar gætu verið hjer 10–15 ár án þess að vita nokkuð um landsmál vor, ef þeim væri ekki gert að skyldu að læra málið til þess að öðlast full rjettindi. Þó vil jeg geta þess, að þótt þessi till. verði samþ., þá álít jeg rjett að samþ. 5 ára búsetuskilyrðið samt sem áður. Já, jeg mundi jafnvel verða með því að tíminn yrði lengdur enn þá meira.

Að þetta sje brot á sambandslögunum nær ekki nokkurri átt, því að þetta tekur jafnt til allra. Þótt heyrst hafi einhver rödd um það, að ekki væri rjett að setja þetta ákvæði inn í stjórnarskrána, jafnvel ekki sæmilegt, þá vænti jeg þess, að hv. deildarmenn láti ekki slíkt á sig fá, þótt eitthvert þjóðkunnugt fífl sje með fávíslega sleggjudóma um þetta mál. Því hvað eru allar þjóðir að gera nú? Þær eru einmitt að reisa rammar skorður við innflutningi útlendinga og óhollum áhrifum þeirra á mál sín. Þetta gera stórþjóðirnar úti um heim og smáþjóðirnar miklu fremur. En svo ættum við, fámenn þjóð og fátæk, að opna allar dyr upp á gátt fyrir útlendingum, án þess að gera þá sjálfsögðu kröfu, að þeir, sem flyttust inn í landið til að setjast hjer að, lærðu að tala og skilja málið áður en þeir fái að hafa áhrif á úrslit þjóðmála vorra.