01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Einar Arnórsson:

Jeg ætla að drepa á þessar tvær brtt., á þgskj. 586 og 606. með fáum orðum.

Brtt. hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), á þgskj. 606, er skýr og glögg, að minsta kosti að því er virðist í fljótu bragði. En brtt. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). á þgskj. 586, getur orkað tvímælis, að minsta kosti það fyrirmæli, að menn hafi „þá almennu þekkingu, sem heimtuð er eða heimtuð kann að verða af ungmennum á fermingaraldri“ Þeir sem nú eru á kjörskrá, halda þessum rjettindum, fyrir ákvæðin um stundarsakir í stjórnarskrárfrv. Meðan lög nr. 59, 22. nóvember 1917, um fræðslu barna, gilda, verður að miða till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.)við ákvæði þeirra laga. Og í 2. gr segir: „Hvert barn, sem er fullra 14 ára, á að hafa lært: „1. að lesa móðurmálið skýrt og áheyrilega og geta sagt munnlega frá því, er það les; það skal og geta gert skriflega grein fyrir efni, sem það þekkir vel, nokkurn veginn ritvillulaust og mállýtalaust; það skal vita nokkuð um merkustu menn vora, einkum þá, er lifað hafa á síðustu öldum, og kunna utanbókar nokkur íslensk kvæði, helst ættjarðarljóð og söguleg kvæði, og geta skýrt rjett frá efni þeirra í óbundnu máli. 2. að skrifa læsilega og hreina snarhönd.“ Þar að auki eiga þau auðvitað að hafa lært það, sem heimtað er í kristnum fræðum og fjórar höfuðgreinar reiknings.

Hjer er heimtað að kjósendur skuli lesa móðurmálið skýrt, og það er ekki um að villast, hvaða móðurmál átt er við; það er auðvitað íslenskan. En það er ekki víst að hægt verði að beita þessu ákvæði við danskan mann, því að hans móðurmál er danska. Jeg veit ekki, hvernig skorið verður úr þessu, nema ef vera mætti, að skilyrðið um, að hann skuli læra íslensk kvæði, taki af allan vafa. En þótt menn kunni utan að nokkur kvæði, þá getur samt skort leikni í að fara með og skilja óbundið mál. Og það er ef til vill nokkuð hörð krafa, að kjósandi láti prófa sig í því, hvort hann kunni utan að kvæði.

Till. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) virðist geta orðið óglögg og valdið ágreiningi og efasemdum í framkvæmdinni, og á hún það að nokkru leyti sameiginlegt við till háttv. 1. þm. Reykv. J. B.), að kröfurnar virðast vera fullharðar, sjerstaklega þó till. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem gerir ráð fyrir, að menn skrifi íslensku nokkurn veginn ritvillu- og mállýtalaust Jeg hygg, að þá yrðu margir kjósendur gerðir afturreka, ef prófdómarinn gengi sæmilega eftir því, að ákvæðinu væri framfylgt, og það ætti ekki að verða dauður bókstafur.

Mjer finst, að óþarft sje að gera harðari kröfur en að kjósandi hafi int af hendi þá kunnáttuskyldu, sem börnum er sett á vissum aldri í landi hlutaðeiganda. Þetta á sjerstaklega við Dani. Aðrir útlendingar hafa hjer ekki ríkisborgararjett. En nú er það kunnugt, að alþýðufræðsla er svo fullkomin í Danmörku sem hjer. Eina sanngjarna krafan er, að þeir skilji íslenska tungu. Aðalatriðið er, að þeir geti skilið ræður manna og lesið prentað mál. En hitt þykir mjer fullstrangt, að þeim sje gert að skyldu að skrifa og tala stórlýtalaust. Margir útlendingar skilja og lesa íslensku sjer til gagns, en þeim er ef til vill ókleift að tala rjett og rita. En nú vantar eitt atriði í brtt., sem veldur því, að nauðsyn væri á að taka málið út af dagskrá. Það er ákvæðið um það, hverjir eigi að hafa eftirlit með þessu. Um það stendur ekkert. Á kjörstjórnin að hafa þetta eftirlit, eða eiga kjósendurnir að sýna kjörstjórnunum vottorð um, að þeir hafi þessa kunnáttu? Og ef svo er, hverjir eiga þá að gefa þetta vottorð? Ekki dugir að vitna til fræðslulaganna. Útlendingar geta sýnt, að þeir sjeu fermdir og að þeir hafi gengið í gegnum barnaskóla eða barnafarskóla, og þar með eru löglíkur skapaðar fyrir, að þeir fullnægi skilyrðunum. En hjer er að ræða um eldri menn, sem ekki fara að ganga í barnaskóla. Jeg spyr þess vegna: Hvernig á að haga eftirlitinu? Á kjörstjórnin í hverjum hreppi að annast það? Á t. d. bæjarstjórn Reykjavíkur eða undirnefnd hennar, sem frumvarp á að gera að kjörskrá, að prófa, hvort Pjetur eða Páll sjeu svo vel að sjer, að þeir megi kjósa? Eða á að stofna sjerstaka prófnefnd til þess, sem allir, er vilja vera á kjörskrá, eiga að snúa sjer til.? Ef svo er, að kjörstjórnirnar eiga að úrskurða þetta eftir lauslegu mati, þá sýnist tryggingin vera lítil og ákvæðið nánast sagt dauður bókstafur. En ef hitt er, þá eru fremur líkur til, að ákvæðinu verði fullnægt. Þessu verða menn að gera sjer glöggva grein fyrir, áður en till. er samþykt. Það er varhugavert að samþykkja ákvæði, sem er alt of hart og mundi bægja útlendingum sem hjer eru búsettir, frá kjörgengi, þótt þeir sjeu ef til vill eins góðir Íslendingar og við, einungis fyrir það, að þeir kynnu ekki að lesa eða rita íslensku stórlýtalaust. Menn mega ekki skilja mig svo, sem jeg sje að tala beinlínis á móti þessu ákvæði. En jeg vil, að gerð sje ákveðin grein fyrir því, hverjar kröfur á að gera og hvernig þeim verður framfylgt. Það finst mjer vera nauðsynlegt. Þess vegna vænti jeg, að forseti taki málið út af dagskrá að þessu sinni.