01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Pjetur Ottesen:

Jeg á hjer brtt. á þgskj. 587. Jeg skal taka það fram, að þessi till. er miðuð við 17. gr. frv., sem nú er ekki rjett, vegna þess, að við 2. umr. fluttist greinatalan til, þannig að 17. gr. varð 18. gr. Brtt. er því við 18. gr. frv., eins og það er nú. Eins og hæstv. forsætisráðherra tók fram, má sem best breyta ákvæðinu um fjárhagstímabilið. Það er ekki nema orðabreyting, enda stendur það ekki í veginum fyrir því, að till. geti orðið samþykt. Að öðru leyti fanst mjer hæstv. ráðherra (J. M.) ekki gera till. hátt undir höfði, því hann mintist lítið á hana. Eins er með þetta ákvæði í frv. stjórnarinnar; þar er engin grein gerð fyrir þessari breytingu í athugasemdunum, eins og þetta sje svo sjálfsagður hlutur, að það taki engu tali. En jeg lít nú öðruvísi á það mál. Að vísu hefir þing verið háð árlega síðan 1911. En þess er að gæta, að á þessu tímabili hafa verið sjerstakar ástæður fyrir hendi. Þá var verið að þjarka um sambandsmálið, alt fram að 1915, og stjórnarskrárbreytingu í sambandi við það. Nú er það úr sögunni sem deilumál og búið, og við búnir að fá rjett okkar viðurkendan. Síðan hefir ófriðurinn geysað, og afleiðingar hans gert það að verkum, að eigi hefir verið hægt að komast hjá því að halda þing árlega. Nú eru þessar ástæður úr sögunni, og horfir málið því alt öðruvísi við. Auðvitað eru ýmsar fleiri ástæður, sem hægt er að færa fyrir nauðsyn þessarar breytingar, og skal jeg drepa á nokkrar.

Ein aðalástæðan í þessu máli er að sjálfsögðu sú, að tekjur og gjöld landssjóðs hafa síðari árin vaxið mjög mikið af framþróun þjóðfjelagsins, og nú seinustu árin hefir ófriðarástandið aukið þar mikið á.

Þetta gerir áætlun um fjárhaginn náttúrlega örðugri en áður var.

En þess ber að gæta, að stjórnin og þingið hefir sjer til aðstoðar ýmsa ráðunauta við áætlunina á stærstu útgjaldaliðum fjárlaganna.

Má þar fyrst nefna vegamálastjóra, sem leggur fyrir áætlun um framkvæmdir um vegagerðir og brúarsmíði á fjárhagstímabilinu, og er þessum málum nú svo komið, að að þeim er unnið í nokkurn veginn ákveðinni röð.

Og nú er enn fremur þess að gæta, að nýlega hefir verið samþykt frv. hjer í deildinni um að taka stærri brýrnar út af fjárlögum og byggja þær fyrir lánsfje.

Enn fremur er í ráði að hafa sömu aðferðina um byggingar á ýmsum húsum, sem landið þarf að láta koma upp.

Þá eru vitamálin; þar er vitamálastjóri sjálfsagður ráðunautur, sem gerir sínar till. um, hvaða vita skuli byggja þetta og þetta fjárhagstímabilið.

Enn fremur hefir verið ráðinn verkfræðingur til að rannsaka hafnarbætur, og hvaða áhrif þær hafi á atvinnuvegina á hverjum stað. Hann gerir svo sínar tillögur í þeim efnum.

Þá hefir Búnaðarfjelag Íslands búnaðarmálin og gerir tillögur um, hve miklu fje sje varið til framkvæmda á sviði landbúnaðarins yfir fjárhagstímabilið. Sama er að segja um Fiskifjelagið.

Þetta ljettir að sjálfsögðu mjög aðstöðu stjórnarinnar og þingsins til að áætla um fjárlögin. Og gera má ráð fyrir, að slíkum ráðunautum fjölgi heldur en fækki.

En svo eru ýmsir aðrir liðir, og má í því sambandi nefna styrki og bitlinga, sem svo eru kallaðir. Jeg geri sem sje fastlega ráð fyrir, að fjárlagaþing á hverju ári muni heldur gefa fjáreyðslu slíkri undir fótinn, og mun það koma á daginn.

Það hefir altaf orðið að veita allmikið fje í fjáraukalögum, og er það náttúrlega ókostur; en ekki hefir þetta verið hvað minst á þessum síðustu árum er þingið hefir verið háð á hverju ári. Á það að vísu rót sína í því, hve tímar þessir eru breytilegir af völdum ófriðarins. Hefir þess vegna ekki verið hægt að gera ábyggilegar áætlanir um fjárhaginn. En þetta bendir til þess, að naumast verði hægt að komast hjá því, að veita eitthvert fje í fjárlögum eigi að síður.

Þá er tekjuhliðin. Það verður auðvitað örðugra að gera ráð fyrir tekjum ríkissjóðs með því að halda gamla fyrirkomulaginu en ef þingið væri á hverju ári. Það hefir, eins og kunnugt er, við gengist upp á síðkastið að gefa út bráðabirgðalög um tekjuauka, þegar sjerstaklega stendur á. Hefir það auðvitað mælst misjafnlega fyrir, en þó má segja um þá ráðstöfun, sem gerð var síðastliðið vor, um tunnutollinn, að hún var góð og sjálfsögð. Og svo gæti oftar verið.

Jeg gat þess áðan, að jeg væri töluvert smeykur við, að þinghald hvert ár myndi alls ekki verða búhnykkur fyrir fjárhag landsins. Fyrir nú utan það, hvað þinghaldið út af fyrir sig er orðið geysidýrt, geng jeg út frá því, að miklu meira fje verði veitt í fjárlögum með því móti. Við því væri ekkert að segja, ef fjenu væri vel varið og nægar tekjur á móti, en dæmin eru deginum ljósari, að það gengur misjafnlega. Oft hefir fje landsins verið varið til lítilla nytja, jafnvel ver en þótt því hefði verið fleygt í sjóinn.

Þá hefir það verið sagt, að nú og eftirleiðis myndu uppi vera fleiri stórmál en áður. Það er náttúrlega rjett, eftir því sem þjóðfjelagið þroskast og augu manna opnast fyrir auðsuppsprettum landsins og möguleikarnir vaxa til að nota þær. En jeg geri naumast ráð fyrir, að upp komi nein þau stórmál nú á næstunni, er eigi verði við ráðið með þinghaldi annaðhvert ár. En fari svo, þá er ekki annað en að grípa til þess ráðs, að hafa aukaþing, eins og t. d. sjálfsagt er, ef breyting er gerð á stjórnarskránni.

Með því að heyja þingið annaðhvert ár á þingið að sjálfsögðu miklu meira undir stjórninni en ella. Á aukaþinginu 1916–1917 var ráðherrum fjölgað, svo að þeir urðu 3 fyrir einn. Var það auðvitað gert til þess, að stjórnin yrði miklu þrekmeiri og öflugri til að bera uppi heill og velferð landsins, á þeim erfiðu tímum, sem þá stóðu yfir. Hefir verið mikið um það deilt síðan, hvort þessi tilgangur hafi náðst, og það á tvennan veg. Í fyrsta lagi hvort þessi tilgangur náist yfirleitt með fjölgun ráðherra, og í öðru lagi hvernig valið á mönnunum hafi tekist. En það er annað mál, og skal jeg ekki fara út í það. En sje þing ekki háð nema annaðhvert ár, gefur það þinginu mjög öfluga og sterka hvöt til að vanda valið á stjórninni, svo að hún verði virkilega starfhæf og þeim vanda vaxin. Jeg sje ekki annað en hæstv. stjórn ætlist til, að ráðherrarnir sjeu 3 eftir sem áður, þótt þing sje háð árlega, og þarf maður reyndar ekki að undra sig á því. Jeg hefi heldur ekki sjeð, að þingmenn hugsi sjer að fækka ráðherrunum í sambandi við þessa fyrirhuguðu breytingu. Þetta fyrirkomulag ætti þó enn ekki að vera orðið svo rótgróið, að ekki væri ástæða til að athuga það atriði út af fyrir sig. Ef þing yrði háð á hverju ári, þá væri vissulega ástæða til að athuga, hvort ekki væri vert að færa stjórnina í sama horf og áður.

Jeg hefi heldur ekki heyrt, að þetta hafi komið til orða í stjórnarskrárnefndinni, sem þó, að því er virðist, álítur þessa breytingu á þinghaldinu sjálfsagða. En það getur þó verið, og ætti því hv. frsm. nefndarinnar að geta gefið upplýsingar um það. Það verður heldur heppileg úrlausn á þessu máli, ef það verður ofan á að ákveða að halda þing á hverju ári, að þessi breyting verði jafnframt gerð um ráðherrana, og það því fremur, ef þessu flokkasambræðingsviðrinisástandi, sem nú er, ljetti einhvern tíma af.

Þá vil jeg að eins minnast lítillega á ummæli háttv. þm. N.-Ísf. (St. St.) um till. hans um fjölgun landskjörinna þingmanna. Hann sagði, að augnamið sitt væri að skapa meira íhald. Út af þessu vil jeg að eins slá fram þeirri spurningu: Hvar er íhaldið? Eftir reynslu þeirri, sem þegar er fengin í þessu efni, hefði jeg heldur búist við, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) myndi hafa spurt þannig, en að hann færi slíkum orðum um landskjörið.