01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Bjarni Jónsson:

Jeg vil drepa lítið eitt á tvær smábrtt., sem jeg hafði við stjórnarskrárfrv. og geymdar voru frá 2. umr. En þar sem jeg hefi áður minst á aðra, mun jeg mæla lítt fyrir henni nú.

Fyrir fátæktar sakir eru menn sviftir grundvallarrjettindum sínum. En í þessu er jafnlítil skynsemd og mannúð, því að allir vita, að kjósendur eru nú svo margir, að þeir eru fáir, sem vegna fátæktar missa atkvæðisrjett sinn, í samanburði við alla hina. Enn fremur eru ýmsir miklu lakari, sem atkvæðisrjett hafa, og í þriðja lagi mega menn ekki láta það koma niður á dugnaðarmönnunum, þótt þeir sjeu reiðir slæpingunum.

Þetta hygg jeg að enginn geti hrakið, sem jeg tók til, og enginn mun álíta slíkt sanngjarnt. Með þessum brtt. vildi jeg nú leiðrjetta þetta.

Út af ummælum háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.) vildi jeg nú biðja hæstv. forseta að skifta í tvent atkvgr. um 1. tölulið á þgskj. 621, en seinni málsgreinina get jeg tekið aftur. Jeg óska þá, að sjerstaklega sje borið upp: „enda ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk“.

Svo hefi jeg aðrar tvær brtt., á þgskj. 573, er jeg gleymdi að tala um við síðustu umr., þá er jeg sagði álit mitt á stjórnarskrárfrv.

Fyrri liðurinn er um þingrof. Ástæðan fyrir þessari till. er mjög einföld. Hún er sú, að þegar um þjóðkjörna þingmenn er að ræða, getur ekki annað komið til mála en að þingrof nái einnig til þeirra. Það gat komið til mála, að þingrof næði ekki til þeirra þm., er kosnir voru af stjórninni. Það var engin ástæða til, að hún færi að skifta um menn, nema henni sýndist svo. En þegar allir þingmenn eru þjóðkjörnir, hvort heldur er um alt land eða í sjerstökum kjördæmum, þá er jafnnauðsynlegt, að fram komi vilji kjósenda þar eins og annarsstaðar. Það þýðir ekki að skjóta til kjósenda málum til úrslita, ef 6 þingmenn sitja kyrrir í annari þingdeildinni, því að til þess þarf allmikinn meiri hluta, að þeir ríði ekki baggamuninn í annar deildinni. Spurningin verður þá ónýt. Þjóðin getur ekki gefið fullkomið svar, er þessi halakleppur situr fastur.

Úr hinu geri jeg lítið, að festa og íhald verði til við það, ef kjósendur til landskjörs eru 10 árum eldri en aðrir kjósendur þurfa að vera. Það verða alls engar sönnur á það færðar, að kjósendur verði íhaldssamari eftir 35 ára aldur en á 10 árunum fyrir. Mjer er nær að halda, að þótt talið væri saman, myndi svo reynast, að menn væru afturhaldssamari á aldrinum 25–30 ára en 35–40 ára. Að minsta kosti munu mikil tímaskifti að slíku. Stundum eru ungir menn frjálslyndari en fullorðnir, en svo er og annað aldarfar til. Og sú öld er uppi í landi nú, að yngri mennirnir eru fult eins íhaldssamir og fullorðnir. Annars sýnist, eftir ræðum ýmsra hjer, að þarflaust sje að bæta á íhaldið. Menn halda í margt, sem ekki á að halda í. Auðvitað geta þeir verið nógu lausir á kostunum, er eitthvað þarf að halda í, tungu, þjóðerni, þjóðsiði og því um líkt. Þá láta þeir vaða með súðum og fara lausbeislaðir og mjög rasandi, en streitast við að halda hverri óvenju, er þeir hafa lært einhversstaðar.

En það er draumur, að þetta landskjör skapi íhald fyrir þennan aldursmun kjósenda. Þess vegna er sjálfsagður þessi 2. liður á þgskj. 573, að orðin „sem eru 35 ára eða eldri“ falli niður. Það er ekki nokkurt rjettlæti, að sumir kjósendur hafi meiri rjett en aðrir. En þessir eru þeir kjósendur, sem mega kjósa þingmenn í kjördæmum, en engan hlut í eiga um landskjörið, Þeir eru hlutræningjar að ófyrirsynju. En hví á svo að vera? Tuttugu og fimm ára gamall maður er talinn fær til allra embætta í landinu. Hann getur orðið þingmaður og ráðherra. Hví má hann ekki kjósa þennan halaklepp? (Fjármálaráðherra: Er hv. þm. að skamma landskjörnu þingmennina?) Nei. Jeg er ekki að skamma þá, heldur þá vitleysu, að skamta sumum kjósendum landsins meiri rjett en öðrum. (S. St.: Jeg mun engu svara). Frsm Íhaldsins segist engu svara. Það er von, því að orð mín verða ekki hrakin. Hans málstaður verður ekki varinn með öðru en því, að vefja ranga hugsun í villandi orðskrúð.

Ein var sú ástæða, er hv. frsm. íhaldsins (S. St.) bygði mikið á. En hún var þessi, að 35 ára gamlir menn hefðu meiri „rót“ í landinu heldur en þeir, sem eru 10 árum yngri. Jeg held, að þessi sje mörgum öðrum yfirskinsástæðum veigaminni. Jeg hygg, að þeir fái ekki miklar rætur í landi, sem eigi hafa fest þær 25 ára gamlir, ef þm. (S. St.) hefir talað í þeirri merkingu. En hins vegar munu engar sönnur verða á það færðar, að eldri menn sjeu að jafnaði „rætnari“ en þeir, sem yngri eru.

Þetta var um mínar brtt. En svo eru ýmsar aðrar brtt. Þarf jeg ekki að nefna brtt. á þgskj. 587, „annaðhvert ár“ í stað „ár hvert“. Það vita allir, hvernig þetta mál horfir við. Það hefir sýnt sig að það er ómögulegt að komast af án þings á hverju ári nú síðustu árin, frá því er hófst lokabaráttan í sjálfstæðismálinu. Og nú eftir að stríðið hófst, að fjárhagur landsins getur aldrei verið öðruvísi en í ólestri, nema þing sje háð árlega. Það getur ekki annað verið en að eftirleiðis köfum vjer meira umleikis en áður. Getur því ekki verið um annað að ræða, sje haldið áfram með löngu fjárhagstímabilin, en að stjórnin noti meira fje, án leyfis þingsins. Alt verður miklu umfangsmeira. Auk þess er það mjög varasamt að trúa stjórninni altaf til þess að stjórna landinu að öllu leyti án eftirlits þingsins.

Skal jeg svo ekki orðlengja frekar um till., því jeg býst ekki við, að hún hafi mikinn byr í hv. deild.

Það er mikið rjett, að Reykjavík ætti að hafa fleiri þingmenn. Jeg væri þess og albúinn, að hún fengi 3–4 auk þeirra tveggja, sem fyrir eru, ef vjer gætum komið því fram, að fjölga þingmönnum með skynsemd, þannig að bætt væri við svo mörgum, sem á skortir fernar tylftir þingmanna. en landskjörið látið sitja við sama, en hinum bætt við önnur kjördæmi. Jeg hefi enn ekki gert upp í huganum, hvar þeir ættu að koma, en fljótlega mun mega finna á ýmsum stöðum allmikið misrjetti. Vjer vitum um Reykjavík. En nærri slíku er ekki komandi hjá vitringum vorrar þjóðar. Þeir telja slíka breytingu skaðlega landinu. Held jeg því langbest að láta þingskipun sitja við það sem verið hefir. Um það mun ekki nást samkomulag á þingi. Það mun verða rekið milli deilda, og kosta fleiri kosningar, ef það gengur fram nú. Er þá ráð að taka það upp í einföld lög, eins og 26. gr. gefur heimild til, er þar segir: „Tölum þessum má breyta með lögum“. Mætti gera þessa kosningalagabreytingu á næsta þingi, er stjórnarskráin hefir verið samþykt hið síðara sinn.

Hins vegar er það afleiðingin af sáttmálanum, sem gerður var síðastliðið ár milli Íslands og Danmerkur, að stjórnarskráin þarf að ganga fram sem fyrst, því sáttmálinn er ekki haldinn fyr en þær breytingar eru gerðar, sem hinn hefir í för með sjer.

Þá eru hjer tvær brtt., á þgskj. 586 og 606. Á þær vil jeg lítillega minnast. Brtt. á þgskj. 606. frá 1. þm. Reykv. (J. B.) er um, að þannig lagað þekkingarskilyrði komi inn í 20. gr., að menn „skilji og tali íslenska tungu sæmilega“. Hefi jeg ekki á móti þessari till. að efni til, ef nokkur leið væri að framfylgja henni. En jeg verð að segja það, að þótt þessi till. sje ekki beint rof á sáttmálanum, þá stappar þó næst því hjer, svo jeg viðhafi orð hv. þm. S.-Þ. (P. J.) sem hann þó notaði í öðru sambandi. Það er líka vitanlegt, að menn, sem hafa verið hjer að eins 5 ár, eru ver fallnir til að standast slíkt próf, sem hjer er um að ræða, en Íslendingar sjálfir. Og erfitt mundi að koma slíkum prófum í framkvæmd. Það yrði þá helst að hafa próf við hverjar kosningar, eins og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) virðist ætlast til. En jeg er hræddur um, að þá yrði að breyta kosningalögunum, og ekki megi ætla svona stuttan tíma til kosninganna og nú er. (M. G.: Prófið verður að fara fram áður en kjörskrá er samin). Já, það er alveg rjett hjá háttv. þm., að svo yrði að vera. En þetta mundi nú alt hafa talsverðan aukinn kostnað í för með sjer, og ólíklegi, ef sjálfur sparnaðarmaðurinn, hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), fellst á það. Og hver ætti svo að prófa? Líklega helst hv. tillögumaður sjálfur. Annars minnir þetta mig á nokkuð, sem jeg sá nýlega í blaði um þennan háttv. þm. Það var þar haft eftir framliðnum manni, sem um langt skeið var þm., að tillögumaður heyrði til öðrum flokki en hann telur sig nú fylgja. Jeg sje líka, að hann hefir einmitt tekið upp sömu till. og sá maður flutti einu sinni. Hún var um kosningapróf. Um till. hv. 1. þm. S.-M (Sv. Ó.) á þgskj. 586 er annars það að segja, að hún er miklu lakara orðuð en till. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) en mjer þykir ólíklegt, að menn samþykki hvora till. sem er, af þeirri einföldu ástæðu, að það er ómögulegt að hafa nokkurt eftirlit með þessu. Og í annan stað er það alls engin sönnun fyrir því, að menn geti ekki verið þjóðnýtir, þótt þeir eigi erfitt með að læra málið svo, að þeir tali það, skrifi og skilji stórlýtalaust. Og hróplegt ranglæti er það, að taka af mönnum þann rjett, sem allir eiga heimting á, fyrir þær sakir einar.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta.