19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal ekki eyða orðum að brtt., er snerta þennan kafla fjárlaganna; þær eru fáar og óverulegar, og hefi jeg ekkert við þær að athuga.

Í hv. Nd. hefi jeg haldið því fram, að nefndir þær, er um fjárhaginn fjalla, ættu straks í byrjun að gera sjer grein fyrir. hvort nokkur halli skuli vera á fjárlögum og hve mikill, ef það verður ofan á.

Það mun oft hafa verið svo, að fjárveitinganefnd hefir ekki haft hugmynd um það, hve mikill halli yrði á fjárlögunum fyr en hún hefir verið að ljúka starfi sínu. Svo mun nú hafa verið um fjárveitinganefnd neðri deildar. Í fjárlögum eru altaf ýmsar fjárhæðir, sem eru algerlega óþarfar hreinasti hjegómi, og þó öllum slíkum upphæðum væri sópað burtu, sem rjett væri. Þá mundu þær þó að sjálfsögðu ekki leiðrjetta hinn mikla halla á fjárlögunum.

Að eins tvær leiðir er hægt að fara til þess að gera hallann engan eða þá svo, að hann sje verjandi. Önnur leiðin er að draga úr framkvæmdum sem telja mætti að vísu nauðsynlegar, en hinn árlegi búskapur leyfir ekki, að ráðist sje í þetta verða einstaklingarnir flestir að gera hvað eftir annað, hver á sínu sviði. Bóndinn veit af ýmsu, sem bæta mundi jörð hans, en ræðst ekki í það fyr en efni hans leyfa. Hin leiðin er að auka skattana. Skal það játað að þetta þing hefir samþ. ýmsa allverulega tekjuauka: en betur má ef duga skal. Jeg játa það, að ef vörutollurinn verður samþyktur, þá kemur óneitanlega allverulegt skarð í miljónarhallann í fjárlögunum. En það er ekki nóg. Jeg lít svo á að það sje skylda næstu stjórnar að koma með nægileg tekjuaukafrv. á næsta þingi, til þess að hallinn verði enginn á fjárhagstímabilinu. þegar til kemur. Jeg mundi álíta það skyldu mína, ef jeg sæti áfram við stjórn. Jeg sje það af hinum góðu undirtektum, sem frv. um vörutollinn hefir fengið að menn vilja vinna töluvert til að hallinn hverfi, því margir munu í hjarta sínu vera á móti vörutollinum yfirleitt, hvað þá heldur hækkun á honum. En svo kemur til kasta næsta þings með það, að rjetta hallann í fjárlögunum algerlega við.