01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Sveinn Ólafsson:

Till. mín á þgskj. 586 hefir mætt töluverðum andmælum Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) og hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hafa þó tekið till. fremur vingjarnlega, hafa að minsta kosti talið hana þess verða, að hún sje athuguð, og hafa ekki með öllu álitið hana óalandi og óferjandi, svo sem þeir 3 aðrir þingmenn, sem hana hafa vegið. Þeir hafa spreytt sig á hártogunum og fyndni, sem átti að koma í stað röksemda þeirra, sem þá gersamlega vantaði, og má vera, að þeim hafi tekist að skemta einhverjum með þessu, en mjer finst satt að segja nauðalítið púður hafa verið í fyndni þeirra.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) taldi till. óglögga og torvelda til framkvæmda; það þyrfti að ganga betur frá henni, ef að gagni ætti að koma. Það getur verið, að eitthvað sje það í till., sem betur mætti fara, en það er að eins formsatriði, og mætti auðveldlega laga í hv. Ed., ef þessi hv. deild fjellist á hugmyndina, og fyrirkomulagsatriðin geta að öðru leyti komið í kosningalögum. Jeg sje ekki betur en að alt slíkt eigi þar heima, því að stjórnarskránni eru að eins ætlaðir aðaldrættirnir.

Jeg hefi um þekkingarskilyrðið miðað við almenna fræðslu og þá sniðna eftir þeim skilyrðum, sem sett eru í fræðslulögunum frá 1907. Þarna hafa sumir þóst finna þá veilu á, að móðurmál“ þyrfti eigi endilega að tákna íslensku, þegar um framkvæmd laganna væri að ræða, heldur gæti danskur maður skotið sjer undir kunnáttu í sínu móðurmáli.

Jeg held, að enginn geti í fullri alvöru ályktað á þennan veg, og hjer er því um hártogun eina að ræða. Vjer setjum ekki lög fyrir aðrar þjóðir, en að eins sjálfra vor vegna, og móðurmálskunnáttan eftir lögunum frá 1907 getur þess vegna ekki átt við neitt annað mál en íslensku. Jeg er viss um það, að ef hv. 2. þm. Árn. (E. A.) ætti að skýra þetta eins og lögfræðingur, þá kæmist hann að sömu niðurstöðu og jeg. Um þetta efni hefi jeg raunverulegt atvik fyrir augum, þar sem barn af útlendu foreldri átti að ganga undir ungmennapróf. Barnið hafði fengið ágæta tilsögn og var vel að sjer, en tæpt í íslensku, og óskuðu foreldrar þess, að móðurmálskunnátta barnsins yrði miðuð við barnsins upphaflega móðurmál. Fræðslunefnd feldi úrskurð um þetta — og auðvitað var enginn lögfræðingur í henni —, en úrskurðurinn fjell svo, að prófa skyldi í íslensku. Úrskurðinum var fullnægt, barnið látið leggja kapp á málið um nokkrar vikur á undan prófi, og prófið stóðst það sæmilega í málinu, en ágætlega í öllum öðrum greinum. Þannig leit þessi skólanefnd á málið, og þannig held jeg að allir skilji það, sem ekki vilja, af pólitískum ástæðum, beita vífilengjum og hártogunum Þegar talað er um móðurmálið í fræðslulögunum, er átt við íslensku og ekkert annað mál.

Hitt er annað mál, sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók fram, að útlendingur, sem hingað kæmi með tilskilda þekkingu í öllu öðru en íslensku, hann þyrfti ekki að ganga undir próf í neinu öðru er málinu. Mjer heyrðist hæstv. forsætisráðherra (J. M.) halda því fram, að eigi væri rjett að þrengja skilyrði fyrir kosningarrjetti fram yfir það, sem þegar væri komið inn í stjórnarskrárfrv. Jeg get ekki fallist á þetta; og jeg fæ ekki sjeð önnur eðlilegri skilyrði fyrir kosningarrjetti en að kjósandi hafi ábyggilega þekkingu til brunns að bera. Jeg felli mig betur við, að þess sje krafist, en hins, að þeir einir hafi kosningarrjett, sem eigi eru í sveitarskuld, og að því leyti er jeg sammála hv. þm. Dala (B. J.), að hart sje að svifta efnilega og skynbæra menn kosningarrjetti fyrir það eitt, að þeir hafi komist í sveitarskuld, einatt af óviðráðanlegum atvikum. Það er í alla staði eðlilegt að heimta af mönnum þá þekkingu, sem tryggi þjóðfjelaginu, að þeir misbeiti ekki kosningarrjettinum vegna þekkingarskorts. Um hæfileikana að þessu leyti er hægt að dæma, þótt aðrar borgaralegar dygðir verði eigi metnar.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) upplýsti, að svipuð skilyrði fyrir kosningarrjetti væru í Ítalíu, og jeg hygg, að hið sama muni vera í lögum á Frakklandi og víðar, þar sem alþýðumentun er á lágu stigi, enda hafa slík skilyrði mikið gildi, ekki síst þar sem svo hagar til. Þau eru nauðsynlegur hemill gegn áhrifum þeirra manna á löggjafarvaldið, sem ekki eru hæfir til þess að taka þátt í því. Er þetta sú allra sjálfsagðasta vörn gegn áhrifum útlends iðjulýðs, sem flykst getur hingað fyr en varir. En þótt svo verði ekki, getur það þó komið fyrir, að bændur fari að seilast eftir útlendum verkalýð sunnan og austan úr álfunni, Pólverjum, Galizíumönnum eða Rússum, líkt og frændur vorir á Norðurlöndum hafa gert. Lýður þessi hefir reynst harðla ómentaður, og í raun og veru hafa Norðurlandabúar fengið ímugust á fólki þessu, þótt þeir hafi orðið að nota það á sumrin, sökum fólkseklu heima fyrir. Allir sjá, hve varúðarvert það væri, að slíkt þekkingarsnautt fólk næði hjer kosningarrjetti og miklum tökum á meðferð mála hjer á landi; en hins vegar væri varla gerlegt að neita því um þegnrjettinn, ef það tæki að dvelja hjer langdvölum. Vegna þessara manna þótt ekki væri vegna Íslendinga, væri þekkingarskilyrðið nauðsynlegt. Slíkt skilyrði er öruggari þjóðernisvörn en þótt heimtuð sje fárra ára búseta.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) vildi skýra tillöguna svo, að ætlast væri til, að hver maður gengi undir próf, er kosningar ættu að fara fram. Þetta eru hártoganir einar og firrur. Það liggur í hlutarins eðli, að þeir, sem undir próf hafa gengið og öðlast prófskírteini, mundu jafnan sanna þekkingarhæfileika sinn með prófskírteininu. Háttv. þm. (B. J.) kallaði þetta hróplegt ranglæti gagnvart þeim, sem kynnu að missa kosningarrjett við það, að geta ekki fullnægt skilyrðunum fyrir honum; kvað hann þetta helst mundu koma niður á eldri mönnum, sem t. d. hefðu ekki lært að skrifa. Til þessa getur ekki komið, því með bráðabirgðaákvæðum stjórnarskrárfrv. er trygður kosningarrjettur framvegis þeim sem þegar

hafa öðlast hann, er stjórnarskrá þessi gengur í gildi.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók málið einkum frá þeirri hlið, að jeg með því, að setja skilyrðið í samband við annað en þjóðernisvarnir, sýndi yfirdrepskap, og að þetta ætti að vera tálgröf fyrir þá, sem ættu að sæta þessum kröfum. Jeg skil ekki vel, hvað háttv. þm. (G. Sv.) á við með þessu, og efast um, að hann skilji þarna sjálfan sig. Jeg hygg ekki, að þannig verði litið á, því jeg tel það sjálfsagt, að þeir, sem skilyrðin eiga að uppfylla, muni telja þau að öllu eðlileg. Mig furðar sjerstaklega, að háttv. þm. Dala. (B. J.), slíkur föðurlandsvinur sem hann læst vera, og slíkur íslenskumaður sem hann er, að hann skuli vilja mæla Dani undan því, þá er hjer taka bólfestu, að læra eitthvað ofurlítið í íslensku. Slíkt er lítt samrýmanlegt við fyrri kenningar háttv. þm. (B J.) Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) fanst það óviðurkvæmilegt að tala um skrílræði, og að það mundi geta orðið fyrirbygt með þessu skilyrði. Háttv. þm. (G. Sv.) vildi halda því fram, að mentaðir menn gætu hist í hópi hins svo nefnda skríls. Það er auðvitað hugsanlegt, að mentamenn, sakir óreglu eða einhverra skaplasta, kunni að falla svo djúpt í áliti sín og annara. En þar er yfirskinsástæða hjá honum og í sjálfu sjer engin mótbára gegn brtt. minni.

Háttv. frsm.(B. Sv.) hjelt því fram, að þetta skilyrði stappaði nærri því, að vera brot á sambandslögunum. (B. Sv.: Jeg átti við till. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Jeg álít, að hvorug tillagan sje það, en jeg játa það, að kurteislegar er að Dönum farið með minni till., og hina má fremur skoða eins og móðgun við þá. Allir munu játa, að rjett sje að heimta af kjósendum, að þeir beri nokkurt skyn á þjóðhætti og atvinnuvegi þess lands, sem þeir hafa kosningarrjett í, og kunni nokkuð í tungu þjóðarinnar í viðbót við aðra almenna þekkingu. Mín tillaga á að varna því, að mentunarlausir menn nái kosningarrjetti hjer, en till. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) áskilur að eins það, að skilja og tala íslensku „sæmilega: er hún því bæði teygjanleg vegna þessa ,,sæmilega“ óvissa ákvæðis, en opnar svo dýr á víða gátt fyrir hvern grasasna, sem graut kann í málinu!

Háttv. þm. (B. Sv.) talaði um, og reyndi að vera fyndinn, að menn mundu, er þeir væru farnir að eldast, hafa gleymt einhverju af æskufræðum sínum, og yrðu þeir þá að rifja þau upp að nýju. Hver skyldi neita því, að menn geti ryðgað í fornum fræðum, og það er ekki nema þarft og gott að rifja þau upp aftur; en vegna kosningarskilyrðanna gerist þess ekki þörf, því að sá, sem einu sinni hefir staðist próf og fengið prófskírteini, hefir uppfylt þau skilyrði, sem sett yrðu eftir till. minni, og mundi úr því halda kosningarrjettinum æfilangt þeirra hluta vegna.

Þá fann háttv. sami þm. þá veilu á þessu ákvæði, að rosknir menn mistu söngrödd og um leið kosningarrjett, af því að ungmennaprófið áskildi ljóðakunnáttu og söng. Slíkar hártoganir eru einskis virði. Þetta er sama tóbakið og hjá háttv. þm. Dala (B. J.), enda er auðsætt, að sá, sem hefir þann gáfnabrest í æsku að geta ekki sungið, ætti þá líka að fara á mis við borgaraleg rjettindi þess vegna.

Meðaltalseinkunn hvers ungmennis er vitanlega komin fram af ólíkum einkunnum þeirra einstöku greina og getur kunnáttan í sumum nálgast 0, eða jafnvel verið neitandi, og prófið, sem rjettinn veitir, samt við hlítandi. En háttv. þm. (B. Sv.) kom að lokum að þeirri sömu mótbáru gegn tillögunni, sem knúði hann til andmæla, þeirri að till. gerði Ed. hægara fyrir með að færa niður áratal búsetunnar úr 5 eða sleppa því. Það telur hann lífakkerið í þessu efni og vill engu öðru hlíta, og þetta er reyndar rjett athugað, því að svo örugt er þekkingarskilyrðið, eins og jeg legg til að það verði, að 5 ára búsetan verður lítilsverð eða jafnvel óþörf.

Að öðru leyti tel jeg hártoganir hans og afbakanir á till. hjegóma einberan og eigi þess verðan að eyða að þeim fleiri orðum.