15.09.1919
Efri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Halldór Steinsson:

Það mun hafa litla þýðingu að ræða þetta mál frekar en búið er. Flestir eða allir þm. munu vera búnir að taka ákveðna afstöðu í málinu. En þar sem jeg á brtt. við 29. gr., þá vildi jeg láta fylgja henni nokkrar ástæður. Brtt. mín fer í sömu átt og brtt. nefndarinnar, að öðru leyti en því, að búsetuákvæðinu er breytt. Það er sem sje ætlast til þriggja ára búsetuskilyrðis fyrir kosningarrjetti, en að þann tíma megi lengja með einföldum lögum, ef þörf krefur. Jeg er sannfærður um, að okkur stafar engin hætta af innflutningi útlendinga á næstu tímum Það er því fyllilega tryggilega um búið, að menn bíði þrjú ár eftir kosningarrjetti, einkum þegar tekið er fram, að því megi breyta, sem vitanlega verður þá gert, ef einhver hætta virðist vera á ferðum. Brtt. mín er meðalvegur á milli stjórnarfrv., eins og það var upphaflega, og frv. eins og það nú er úr garði gert, og vonast jeg til að hún geti orðið til að koma á samkomulagi í þessu ágreiningsmáli.