19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Magnús Kristjánsson:

Jeg fæ ekki betur skilið en að hæstv. fjármálaráðherra (S. E) sje öðru hvoru að gefa í skyn að fjárveitinganefnd fari harla gálauslega með fje landsins. Þetta er tilhæfulaust. Fjárveitinganefnd þessarar deildar hefir farið mjög skamt í því, að auka útgjöldin. En meinið er það, ef eitthvað er óefnilegt í þessu máli, að sá grundvöllur sem fjárveitinganefnd var fenginn til að byggja á, var afarveill. Jafnframt því, sem stjórnin gerir gangskör að því að koma á stórkostlegum launabótum fyrir embættismenn hefir hún að því er virðist, ætlað að láta aðra starfsmenn ríkisins sitja við óbætt launakjör. Samskonar veila var í tekjubálki stjórnarfrv. í staðinn fyrir að hækka alla tolla og skatta, að undanteknum sykurtollinum, um 2/3 eða því sem svarar mismun peningagildis fyr og nú, lætur hún þá liði halda sjer að mestu óbreytta.

Svo kveður hæstv. fjármálaráðherra nú sífelt við þann tón, að fjárhagur landsins sje í kalda koli. Jeg verð að álíta, að sá söngur sje til engra bóta. Horfurnar eru sæmilegar, eftir öllum vonum jafnvel þó að heppilegar hefði mátt koma sumu fyrir. Nú lítur út fyrir alt að einnar miljónar kr. tekjuafgang í fjárlögunum. Hins vegar er ekki líklegt að þessi tekjuafgangur nægi til allra útgjalda, sem stafa af öðrum lögum frá þessu þingi. En þótt svo reynist, er engin ástæða til að tala um neinn stórkostlegan tekjuhalla. Það er óþarft verk, ef fjárhagsástandið er gert svo óálitlegt að ástæðulausu, fyrir almenningi að það dragi kjark og framtakssemi úr mönnum.