15.09.1919
Efri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal með nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli. Hæstv. forsætisráðherra skýrði frá því, er þetta mál kom fram í hv. Nd., að jeg hefði alveg óbundnar hendur í því.

Þegar jeg fór til Kaupmannahafnar, var farið að ræða þetta mál í stjórninni, en það var ekki til lykta leitt. Jeg hjelt fram 5 ára búsetu, en bjóst við, er jeg fór utan, að 2 ár yrðu ofan á hjá meiri hluta stjórnarinnar, en það varð þó eigi. Leit jeg að vísu svo á, að þetta væri ákaflega mikilvægt atriði, en jeg vildi þó ekki af þeirri ástæðu beiðast lausnar, því jeg bjóst við, að þetta mundi lagfærast á þinginu, og virðast mjer nú allar horfur á, að sú spá muni rætast.

Jeg lít svo á, að kosningarrjetturinn sje svo þýðingarmikill fyrir þjóðfjelagið, að það verði að búa sem allra best um hann. Það er rjetturinn til að ráða yfir landinu, og þess vegna eiga landsins börn að njóta hans, eða þeir, sem hafa búið svo lengi í landinu, að ætla megi, að þeir hafi fengið hlýtt þel til landsins og skilji, hvað landinu er fyrir bestu.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara ítarlegar út í þetta efni nú, því mjer hefir skilist á nefndarálitinu, að meiningin sje að halda 5 ára búsetuskilyrðinu áfram. Skilst mjer, að þeir, sem hjeldu fram styttri tíma, hafi beygt sig, og sje jeg því ekki ástæðu til að halda umræðum um það efni uppi. En fyrir mjer vakti ekki nema 5 ára búsetan. Ef það skilyrði er fastákveðið, get jeg felt mig við, að skilyrðið um kunnáttu í íslenskri tungu falli burt. Jeg verð að játa, að jeg kann illa við, að með sjerstökum lögum megi ákveða fleiri skilyrði fyrir kosningarrjetti, eins og hv. minni hluti samvinnunefndar lagði til. Finst mjer best við eigandi, að kosningarrjetturinn sje fastákveðinn í stjórnarskránni og að honum verði eigi breytt nema með stjórnarskrárbreytingu.

Hv. þm. Ak. (M. K.) þarf varla að svara. Hann gaf í skyn, að þessu væri haldið fram af mönnum, sem vildu afla sjer fylgis við næstu kosningar. Jeg hygg, að þetta sje stórkostlegur misskilningur. Þetta mál er svo stórt og þýðingarmikið, að jeg geri engum manni þær getsakir, að hann reyni að nota það til að afla sjer fylgis við kosningar.

Jeg þykist vita, að meiri hluti hv. þm. sje með 5 ára búsetunni af fylstu sannfæringu, af því þeir telja framtíð landsins best borgið með því móti.

Þá ætla jeg að minnast á brtt. 771. Mjer hefir skilist, að ef hún yrði samþykt, mætti gera hvora deild eins sterka eða veika og vera vildi með einföldum lögum. Þannig mætti breyta algerlega skipun þingsins og þungamiðju þess. Finst mjer það t.d., hvort háttv. Ed. er sterk eða veik, vera grundvallaratriði, sem ekki megi breyta með einföldun lögum. Hvað snertir hina landskjörnu þingmenn, skal jeg geta þess, að um þá hafa verið mjög deildar meiningar. Þegar núgildandi stjórnarskrá var á döfinni, var mikið um þá rætt, en ofan á varð þó, að þeir skyldu vera 6. Menn báru kvíðboga fyrir, að of mikið íhald mundi verða í Ed. ef allir þingmenn hennar væru landskjörnir.

Af dæmum annara þjóða má sjá, að varasamt er að hafa efri málstofuna of sterka. — Get jeg tekið til dæmis frændþjóð vora Dani. Þar hefir þetta fyrirkomulag, eins og mönnum er kunnugt, reynst mjög illa nú á þessu síðasta ári. — Jeg álít því ekki rjett að hafa landskjörna þingmenn í meiri hluta í þessari deild.

Að öðru leyti skal jeg taka það fram, að mjer virðist óvarlegt að gera stjórnarskrána svo úr garði, að það megi breyta flestum atriðum hennar með einföldum lögum. Jeg heyri sagt, að brtt. 796 sje tekin aftur við þessa umr., en jeg ætla þó að benda á, að reynslan hefir sýnt síðustu árin — mig minnir frá 1911 — að altaf hefir verið nauðsyn að halda þing á hverju ári. Yfirleitt eru nú orðin svo mörg og stór mál, sem fyrir liggja, að það veitir alls eigi af, að þing komi saman hvert ár. — Á þeim árum, sem þing ekki kemur saman, er stjórnin og nokkuð einráð. Hygg jeg, að yfirleitt muni reynast heppilegra, að þingið hafi hönd í bagga með henni. — Jeg vona því, að þessi brtt. verði feld, ef hún kemur aftur fram.

Jeg hefi nú gert grein fyrir afstöðu minni og læt þar við sitja að sinni.