15.09.1919
Efri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Magnús Kristjánsson:

Umræður um mál þetta hafa verið mjög hóflegar, eins og vera ber. Það er því ekki mikil ástæða fyrir mig að taka til máls, sjerstaklega þar sem mjög lítið hefir fram komið, er fer í bág við það, sem jeg hjelt fram í fyrri ræðu minni.

Þó virðist mjer, að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hafi ekki skilið til hlítar afstöðu nefndarinnar hjer í deildinni. Virðist hann ganga út frá því, að í henni hafi orðið algert samkomulag, og það með ljúfu geði af hálfu okkar, sem vorum í minni hluta samvinnunefndarinnar. — En samkomulag getur það ekki kallast, þó að tilgangslaust hafi verið fyrir okkur að berja höfðinu við steininn, þar sem fyrirsjáanlegt var, að okkar málstaður, þótt betri væri, yrði gersamlega fyrir borð borinn. — Jeg get ekki kallað það samkomulag, þó við svo búið hafi verið látið standa af okkar hálfu, þar sem það hefði orðið stjórnarskránni að falli, ef við hefðum haldið fast við okkar málstað. Og ef ekki hefði staðið sjerstaklega á, myndi jeg ekki hafa skoðað huga minn um að greiða atkvæði móti frv. En nú stendur svo á, að mjög er erfitt um samkomulag hjer á þingi, vegna reipdráttar mismunandi flokksbrota, og er því óhjákvæmilega nauðsynlegt að flýta sem mest fyrir nýjum kosningum.

Þá mintist hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) á það, og ræða hans gekk aðallega í þá átt, að varla væri verjandi, að nokkur ákvæði, er snertu kosningarrjett manna, væru tekin fram í sjerstökum lögum. En jeg álít, að þetta sje ástæðulaust. Þeir sem halda þessu fram, hafa nokkurskonar ótrú á framtíðinni og þeim mönnum, sem fara með mál þjóðarinnar eftir okkur, en jeg lít svo á, að þeim sje eins vel treystandi og okkur til þess að hafa vakandi auga á velferð þjóðarinnar og breyta kosningarskilyrðunum eftir því, sem við á á hverjum tíma.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) komst svo að orði, að hans skoðanabræður teldu sig vera að vinna í þá átt, að sjá hag landsins betur borgið. — Verður ekki annað lagt í þau orð en að hag landsins hefði verið laklega borgið, ef stefna minni hluta samvinnunefndarinnar hefði orðið ofan á í málinu. — Get jeg ekki annað sjeð en að í þessu felist, vægast sagt, svæsin aðdróttun um minni hluta samvinnunefndarinnar, aðdróttun, sem er ómakleg og ósamboðin ráðherra að bera fram að ástæðulausu.

Ætla jeg ekki að dvelja lengur við þetta, enda má það kallast útkljáð mál, þar sem jeg og skoðanabræður mínir höfum orðið að beygja okkur nauðugir. En þeir tímar kunna að koma, að hægt verði að ráða bót á þessu.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á brtt. okkar hv. 1. landsk. varaþm.(S. F.) við 26. gr., á þgskj. 771. Hún er komin fram í fullu samræmi við skoðun okkar í nefndinni um það, að brýn nauðsyn beri til að fjölga bæði landskjörnum og kjördæmakjörnum þingmönnum, sjerstaklega með tilliti til Reykjavíkur.

Þessi skoðun fjekk ekki meiri hluta í samvinnunefndinni, og ekki bljes heldur byrlega fyrir henni í hv. Nd., þar sem sú deild vildi heldur sætta sig við, að Reykjavík búi áfram við það misrjetti, sem nú á sjer stað.

Þó að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) og háttv. frsm. (K. E.) hafi lagst mjög á móti tillögunni, vona jeg, að hv. deild sjái, að hún er til bóta, og leysi þá hnúta, sem ekki eru nema að nokkru leystir með ákvæðinu: ,,breyta má þessu með lögum“, þar sem það nær að eins til kjördæmakosinna þingmanna. Jeg álít, að það, að brtt. þessi verði samþykt, geti aldrei orðið til skaða; en innan skamms mun það talið velviðeigandi.

Jeg skildi ekki, við hvað hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) átti, þegar hann hjelt því fram, að óheppilegt væri, að tölu landskjörinna þm. væri breytt, þar sem það hefði glundroða á deildarskipununum í för með sjer. — Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hlýtur þó að sjá, að sami glundroðinn hlýtur að eiga sjer stað, þegar heimildin til að fjölga kjördæmakosnum þm. með einföldum lögum verður notuð.

Jeg vildi beina þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðh. (S. E), hvort honum hafi verið fullkomlega alvara, er hann sagði að reynslan hefði sýnt, að varhugavert væri, að önnur þingdeildin væri skipuð mönnum, er kosnir væru á sjerstakan hátt. Hann sagði í því sambandi, að það hefði sýnt sig, bæði í Danmörku og á Englandi, að sú hefði orðið raunin á. — Hefir það sennilega átt að sýna, að slíkt gæti einnig komið fyrir hjer. En þetta er alls ekki sambærilegt. Þar er deildaskipunin bygð á æfagömlu og úreltu fyrirkomulagi. — Á Englandi eru t. d. tilnefndir menn í efri málstofuna, sem þjóðin sjálf hefir mjög lítil áhrif á, hverjir eru kjörnir. En hjer á landi er það þjóðin sjálf, sem tilnefnir mennina, og má ganga út frá því vísu, að ekki verði valdir aðrir menn en þeir, sem þjóðin ber mest traust til og byggir frekustu og fegurstu framtíðarvonir sínar á. Þess vegna verð jeg gersamlega að mótmæla því, að aukning landskjörinna þingmanna geti haft nokkur slík áhrif hjer á landi. Annars hygg jeg, að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hafi ekki sagt þetta í alvöru, en slegið því fram í því trausti, að þm. hafi ekki gert sjer grein fyrir þessu.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E ) gat þess, að með fjölgun landskjörinna þingmanna myndi skapast íhald, og taldi hann það hættulegt. En jeg álít, að þó að reynt sje að gera það orð illa þokkað hjá almenningi, muni það ekki hafa haft tilætlaða verkun hjá öðrum en þeim, sem síst eru færir um að leggja dóm á landsmál.

Jafnvel þó þessi deild gæti í bili tafið eitthvert stórmál, sem kemur frá Nd., sje jeg ekki, að neitt sje að óttast, því jeg treysti því, að hvert gott málefni sem er muni ekki verða látið niður falla, heldur borið fram til sigurs, þegar það hefir verið nægilega athugað, en gönuskeiðin — mjer liggur við að segja galgopapólitíkin — í stóru málunum gæti leitt til þess, að stigin yrðu þau óheillaspor, sem seint eða aldrei yrði fyrir bætt, því ef unggæðingsskapurinn einn rjeði lögum og lofum í landinu, gæti afleiðingin orðið sú, að þjóðin yrði leidd út á glapstigu, sem hún umfram alt ætti að varast.

Býst jeg nú við, að hv. þm. sjái, hvað vakir fyrir þeim, er fjölga vilja landskjörnum þm., og það jafnvel svo, að þeir skipi meiri hl. í þessari deild. Því með stórauknum kosningarrjetti geta komið inn í Nd., margir hugsjónamenn með brennandi áhuga, sem vilja vinna stórvirki á skömmum tíma. — Getur það verið gott, en slík mál þurfa að grannskoðast, og gæti þá verið gott, að hin deildin væri þannig skipuð, að þau yrðu vel og vandlega athuguð áður þeim væri til lykta ráðið.