15.09.1919
Efri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg stend að eins upp til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu, með því að jeg á enga brtt. við frv.

Um brtt. á þgskj. 783 skal jeg láta þess getið, að jeg er samþykkur henni, og hefi jeg áður látið þá skoðun mína í ljós þótt ekki væri á þingfundi.

Um brtt. nefndarinnar skal jeg geta þess, að jeg er þeim svo samþykkur, að ef þær næðu ekki fram að ganga, myndi jeg ekki hika við að greiða atkv. móti stjórnarskránni.

Það er helst brtt. á þgskj. 771, sem mjer þykir ástæða til að fara nokkrum orðum um. 26. gr. stjórnarskrárinnar er sú grein hennar, sem jeg hefði helst haft löngun til að breytt yrði, þótt ekki hafi jeg komið fram með brtt. við hana, enda ota Nd.- menn því óspart fram, að gagnslaust sje að breyta stjórnarskránni hjer, Ed. verði að segja já og amen við henni.

Jeg skal nú játa það, að það er ekki gott eða heppilegt, að stjórnarskrárbreytingar sjeu tíðar; en þó er þetta frv. svo úr garði gert, að það getur ekki staðið lengi sem lög, og er illa farið að breyta um stjórnarskrárákvæði eins og menn hafa skóskifti, en 26. gr. frv. er svo, að ekki verður hjá því komist að breyta innan skamms. Frá mínu sjónarmiði hefir brtt. á þgskj. 771 að geyma þann eina veg, sem er til þess að girða fyrir þetta, jafnvel þótt jeg telji alt að því óviðurkvæmilegt að leyfa slíka breyting sem þingmannaskipun með einföldum lögum. Jeg lít svo á, sem rjettast hefði verið, að þingið hefði nú þegar útkljáð í stjórnarskránni sjálfri það atriði, sem enga bið þolir, sem sje fjölgun þingmanna. Það er næstum óhugsanlegt, að þingið sýni það kæruleysi, að verða ekki við hinni rjettmætu kröfu um fjölgun þingmanna í Reykjavík. Þetta misrjetti, sem Reykjavík er beitt, er hreinasta hneisa, og mætti ekki minna vera en hjer væri heilmikið fjölgun um helming. Jeg er einnig á því, að átt hefði að fjölga landskjörnum þingmönnum, en ekki með einföldum lögum. Í sambandi við þetta stendur það, að ef fjölgað yrði þingmönnum, þá þyrfti og að athuga skipun deildanna. Ef fjölgað yrði um 4, væri rangt að hafa þá alla í Nd. Þegar svo er ástatt sem nú, að meiri hluti ráðherranna á sæti í Ed., þá er sú deild ekki fullskipuð, og í rauninni ekki hægt að fullnægja þingsköpunum með þeirri tölu, sem nú er. Millivegur væri sá, að leiða Reykjavík af — því að meira er það ekki — með 2 þingmönnum og fjölga landskjörnum þingmönnum um tvo eða setja tölu þingmanna 44. Jeg er hissa á því, að uppástunga skuli ekki hafa komið fram í þá átt.

En þá er það þessi hræðsla við íhaldið, sem hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) gat um. Jeg fæ með engu móti sjeð, að óttast þurfi, að Ed. verði nokkuð íhaldssamari, ef um verulega skynsamleg mál er að ræða. Ef öll Ed. væri landskjörin, sem jeg er nú helst á, þá mundi hún ekki drepa nauðsynleg mál, sem Nd. vill koma fram; það er ómögulegt að hugsa sjer. Ef svo væri, að öll deildin væri svo forstokkuð, þá er áreiðanlegt, að eitthvað væri bogið við þau mál. Ella myndi þjóðin láta fljótt til sín heyra, svo að Ed. yrði ekki vært lengi.

Annars eru það skrítnar skoðanir, sem koma fram hjá mönnum um þá stefnu, sem menn kalla íhald eða afturhald. Margir telja, að menn verði miklu íhaldssamari þegar þeir verða gamlir. Þessari skoðun verð jeg algerlega að mótmæla. Af eiginni reynslu get jeg ekki fundið annað, er jeg prófa mig, en að jeg sje miklu meiri framsóknarmaður eftir að jeg varð gamall en á meðan jeg var ungur. Jeg hefi heyrt það utan að mjer, að jeg hafi verið talinn mesti berserkur og vígamaður fyr meir. En þetta get jeg ekki samþykt. Við það að rannsaka mig og framkomu mína sje jeg, að jeg hefi fyr meir verið íhaldssamur; t. d. get jeg nefnt það, að þegar járnbrautarmálinu var hjer fyrst hreyft, þá gerði jeg mitt til þess að drepa það; sömuleiðis spyrnti jeg þá af alefli móti akvegum. En nú er jeg á þeirri skoðun, að járnbrautir, akvegir og yfirleitt bættar samgöngur sjeu hið verulegasta skilyrði fyrir sönnum framförum. Þessi reynsla sýnir það, að menn verða framsóknarmenn með aldrinum, þótt verið hafi íhaldsmenn ungir. Vjer höfum og dæmin fyrir oss í hv. Nd.; sumir hinna yngri manna, sem þar láta hæst, eru alt annað en framsóknarmenn.

Nei, jeg hygg það vel ráðið að fjölga landskjörnum þingmönnum, af því að þeir eru fulltrúar þjóðarinnar í heild sinni, og væri þá hentast, að þeir væru kosnir allir í einu, svo þjóðin væri ekki að óþörfu ónáðuð með tíðum kosningum.

Í sambandi við þetta vil jeg hreyfa einu atriði, sem mjer þætti fróðlegt að vita, hvernig háttv. nefnd lítur á; jeg á við landskjörna varaþingmenn. Það er nú svo, að landskjörið fer fram á listum eftir flokkum, og er talið víst, að þeir, sem fremstir eru, sjeu vissir, þótt mönnum lærist æ betur og betur að snúa þeim við, enda er það heimilt. Nú gefur maður kost á sjer á slíkum lista, en úrslitin verða þau, að hann verður varamaður. Það er ósanngjarnt að halda þeim manni í dýflissu, svo að hann megi ekki gefa kost á sjer í einstöku kjördæmi. Vjer þekkjum það allir að maður, sem ekki náði kosningu sem landskjörinn, náði þó kosningu í kjördæmi. Það þykir mjer þó mjög óeðlilegt, að maður, sem þjóðin vill ekki hafa að fulltrúa sínum, jafnvel ekki í varamannssæti, skuli mega verða þingmaður, en hinn, sem hún treystir svo, að hún vill hafa hann að varamanni, skuli ekki mega verða í kjöri í kjördæmi. Þetta þætti mjer gott að nefndin athugaði, og fleiri atriði í sambandi við landskjörið, eins og t. d. það, hversu fara skuli um það, ef landskjörinn þm. segir af sjer og enginn varamaður er til á hans lista, svo að ef til vill komist að varamaður af lista andstæðs flokks. Þetta og fleira er athugavert í þessu sambandi.

En þótt jeg helst vildi í sjálfri stjórnarskránni nú þegar færa upp tölu þingmanna í þá átt, sem jeg nú hefi nefnt, þá verð jeg samt, með því að engin tillaga liggur fyrir í þessa átt, að vera með till. á þgskj. 771, jafnvel þótt jeg telji hana ekki heppilega að forminu til.