19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Hv. þm. (M. K.) fann það einkum að frv. stjórnarinnar, að því er mjer skildist, að útgjöldin til opinberra starfsmanna hefðu verið of lágt áætluð. En stjórninni hafði komið saman um það að eiga ekkert við að hækka laun opinberra starfsmanna. fyr en útsjeð væri um það, í hvaða mynd launafrv. væri afgreitt. Jeg fæ ekki sjeð annað en að þetta hafi verið rjettmæt ákvörðun, enda er þetta í fyrsta sinni sem jeg heyri að því fundið. Það má og vera, að stjórnin hafi áætlað ýmsa aðra liði of lágt. En þá er því að svara, að stjórnin sá sjer ekki fært að fara í öllu eftir tillögum ráðunauta sinna. Fjárveitinganefnd neðri deildar hefir aftur tekið upp flestar tillögur ráðunautanna og borið þær fram til sigurs. Jeg vil segja það um þessa ráðunauta, og segi þeim það til hróss, að þeir eru allir nokkuð djarfir í óskum sínum eftir landsfje, til framkvæmda hver í sinni grein. En af því leiðir aftur, að það er skylda hverrar stjórnar að halda heldur í við þá, þar sem fjárhagurinn er frekar þröngur, enda hefir svo altaf verið. Til dæmis má benda á vegamálin. Það má segja, að allar vegagerðir sjeu góðar og nauðsynlegar, en ef alt ætti að framkvæma, sem gott er og nauðsynlegt, þá er hætt við að hallinn í fjárlögunum yrði svo mikill, að jafnvel þessu þingi ofbyði hann. Tekjuáætlanir sínar hefir stjórnin gert af mestu varfærni, eins og jafnan hefir þótt sjálfsagt.

Þá talaði hv. þm. Ak. (M. K.) um skattana og taldi að stjórninni hefði borið að gera tillögur um hækkun á þeim, sem næmi verðhækkun á vörum. Jeg geri ráð fyrir að einhvern tíma hefði heyrst kurr í þinginu, ef stjórnin hefði farið að þessum ráðum hv. þm. Ak. (M. K.). Tökum til dæmis kaffitollinn. Hann er 30 aurar á kg., en hefði eftir tillögu hv. þm. (M. K.) átt að hækka líklega upp í 90 aura. Jeg er hræddur um að kurr hefði heyrst í herbúðunum út af annari eins tillögu. Það er ekki nóg, að færa megi góð og gild rök fyrir hækkun skatta: stjórnin verður líka að hugsa um hvaða útgjaldaauka sjeu mestar líkur til að fá samþykta í þinginu, og það hefir stjórnin reynt að gera. Það er nú líka svo, að ýmsir af gömlu sköttunum hafa verið hækkaðir að mun, ekki að eins á þessu þingi, heldur einnig á undanförnum þingum. Má t. d. nefna hina miklu hækkun á síldartollinum er úlfaþytur hefir orðið út úr, en þó væntanlega verður látinn standa, að minsta kosti í einhverri mynd, jafnvel þegar endurskoðun á skattalöggjöfinni fer fram. Ætli það verði ekki fleiri, sem standa af núverandi sköttum, þó að þeir sjeu kallaðir hrófatildur?

Jafnvel þó að svo fari, að það verði einnar miljónar króna málamynda-tekjuafgangur í fjárlögunum, þá má það ekki villa menn. Launalögin gleypa 2 miljónir í viðbót við það, sem áður hefir farið í embættislaun á fjárhagstímabilinu, og ætli önnur gjöld nemi ekki nálægt 1 miljón? Ef menn vilja líta í landsreikningana, þá geta menn sjeð heila syrpu af lögum, sem hafa sjerstök útgjöld í för með sjer, en eru ekki talin í fjárlögunum.

Hv. þm. Ak. (M. K.) taldi, að jeg málaði ástandið of svart. En það hefir aldrei verið tilætlun mín. Jeg hefi viljað mála það rjett og það held jeg að mjer hafi tekist.

Jeg hefi togast á við þingið um tekjuhallann. Jeg hefi verið kallaður afturhaldsmaður fyrir það, að jeg hefi viljað halda í útgjöldin. En koma munu þeir tímar, að þjóðin mun gera þá kröfu, að þingið sníði sjer og þjóðinni stakk eftir vexti með útgjöldin. Framtíðin mun taka í strenginn með mjer.