15.09.1919
Efri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Kristinn Daníelsson:

Mjer skildist á svari hv. frsm. (K. E.) til mín, að hann ætlaðist til, að fjölga mætti þingmönnum Reykvíkinga með einföldum lögum, og mundi því tilgangslaust að ætla að koma ákvæði um það inn í stjórnarskrána.

Um brtt. þær, sem fyrir liggja í sambandi við þingmannafjölgunina og landskjörið, vil jeg geta þess, að eins og orðin liggja nú í 26. gr., mætti skilja svo, sem allir liðir væru breytilegir, eftir því sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) segir. En þó að svo mætti leggja út orðin, þá væri þessi skilningur fyrirbygður bæði af því, að þessir landskjörnu menn komu í stað hinna konungkjörnu, og eins af allri meðferð málsins. En ef hins vegar brtt. á þgskj. 771 kemst fram, þá slær hún föstum þeim skilningi, að allar tölurnar sjeu breytilegar. En eins og jeg hefi tekið fram, er jeg því mótfallinn, að þessu yrði slegið föstu, því jeg vil ekki fjölga landskjörnum þingmönnum. Jeg vildi þvert á móti helst afnema þá.

Jeg geri lítið úr því íhaldi, sem skapaðist við þetta fyrirkomulag því þess gætir sama sem ekkert.

En annars ber að gæta, sem ekki hefir verið minst á í þessu máli, og það er það, að þetta fyrirkomulag gæti alveg ruglað meiri hluta afstöðunni í þinginu. Við skulum hugsa okkur, að nýr meiri hluti komi í Nd., en gamli meiri hlutinn sitji eftir sem áður í Ed., svo hvor deildin yrði uppi á móti annari. Þetta gæti gert m. a. ómögulegt að koma fram stórmálum, eða mynda nýja stjórn, og liggur í augum uppi, í hverjar ógöngur það gæti leitt.