18.09.1919
Efri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skal að eins fara fáeinum orðum um brtt. þá, er jeg hefi flutt ásamt hv. þm. Snæf. (H. St.), og er á þgskj. 853, en hún fer fram á, að ekki sje slegið föstu í stjórnarskránni, að Alþingi skuli koma saman á hverju ári, en að haldið sje þeim ákvæðum í því efni, sem nú eru í henni.

Þótt þing hafi verið haldið á hverju ári síðastliðin ár, er ekki sjeð að sama þörfin verði fyrir hendi eftirleiðis. Sambandsmálið og heimsstyrjöldin hafa átt drýgstan þátt í því, hversu títt þing hafa verið haldin upp á síðkastið. Heimsstyrjöldin er nú sem betur fer um garð gengin, og sambandsmálinu hefir verið ráðið til lykta.

Ekki verður heldur sjeð, að nein hætta leiði af því, þó að brtt. þessi verði samþ., því vitanlega stendur stjórninni opin leið til að kveðja saman aukaþing, ef þörf verður fyrir þinghald milli reglulegra þinga.

Mjer virðist það, auk þessa ekki fara að öllu leyti vel saman að ákveða, að þing skuli haldið á hverju ári, þegar háværar raddir eru að koma fram um það, að þingkostnaðurinn sje að keyra svo úr hófi, að hætta verði prentun meiri hluta alþingistíðindanna. Frv. þess efnis hefir fengið mikinn byr í hv. Nd., en nú sje jeg, að frv. það, er útbýtt hefir verið í deildinni, veitir að eins heimild til að fresta útgáfu þeirra um eitt þing í senn. En það kemur að mestu í sama stað niður, því frestinn má framlengja á hverju þingi. Finst mjer næsta óviðkunnanlegt, að kjósendur úti um land skuli ekki geta sjeð, hvað fulltrúar þeirra hafa lagt til málanna á Alþingi.

Jeg hefi minst á þetta við ýmsa hv. þm., og hafa þeir helst haft á móti brtt. þessari, að hún muni ekki koma að haldi, þar sem þing muni verða á hverju ári alt að einu. En eins og jeg tók fram áðan, er það alls ekki víst, þótt svo hafi reynst síðustu árin, og finst mjer þetta því veigalítil ástæða.

Hæstv. fjármálaráðh (S. E.) fór nokkrum orðum um brtt. þessa, er hún kom fram við 2. umr. í öðrum búningi. Mintist hann á það, að altaf síðan 1911 hefði verið þing á hverju ári, og finst mjer það ekki nægileg mótbára, samkvæmt því, sem jeg áður hefi tekið fram. Þá drap hann og á það, að með því að hafa þing ekki nema annaðhvert ár væri of mikið vald lagt í hendur stjórnarinnar.

Jeg er allsendis óhræddur við þá mótbáru. Ekkert slys bar að höndum af þeim orsökum, meðan ekki var nema einn ráðherra, og ætti hættan að vera enn minni, þegar þeir eru orðnir þrír.

Jeg veit, að hv. þm. hafa haft nægan tíma til að hugsa um mál þetta; auk þess kom lík tillaga fram í hv. Nd., þó hún næði ekki fram að ganga, enda verður brtt. ekki móti mælt með rökum.

Ef brtt. yrði samþ., mætti — þótt jeg telji þess ekki þörf — setja viðauka við 18. gr. stjórnarskrárinnar, um það, að breyta mætti þessu með lögum, og væri þá siglt fyrir öll andnes.