18.09.1919
Efri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg tel óþarft að ræða mikið um þetta atriði, þar sem búið er að skýra það frá ýmsum hliðum. Stjórnin átti miklar umræður um þetta atriði og varð sammála um, að eins og högum og fjármálum þjóðarinnar er nú háttað, væri heppilegast að hafa þing á hverju ári. Tel jeg því sjálfsagt, að hún haldi fast við þetta ákvæði. Enn fremur hefir hv. Nd. fallist á ákvæðið. hvort hún gerði það ágreiningslaust man jeg ekki, en tel víst, að hún muni halda fast við skoðun sína, þó brtt. verði samþykt hjer, sem jeg vona að ekki verði.