18.09.1919
Efri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Jóhannes Jóhannesson:

Mjer er það mikil ánægja að heyra, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) skuli nú vera kominn til viðurkenningar á því, að ástæður hans gegn sambandslögunum hafi ekki verið á rökum bygðar. Jeg ljet þá í ljós, í fyrra, hver vonbrigði mjer væru það, að jafnáhrifamikill og gáfaður maður skyldi fylgja fram þeirri skoðun, sem hann gerði þá. En því gleðilegra er að heyra nú viðurkenning sjálfs hins hv. þm. (M. T.), sem gengur í gagnstæða átt.

Um fyrirspurn hins hv. þm. (M. T.) er það að segja, að mjer er ókunnugt um það, að beðið hafi verið um leyfi dönsku nefndarmannanna til að birta gerðir nefndarinnar, en án leyfis þeirra tel jeg óhæfilegt að birta þær. Hins vegar skal jeg geta þess, að fyrir mitt leyti hefi jeg ekkert á móti því, að þær sjeu birtar.