18.09.1919
Efri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Magnús Torfason:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að vekja neinar deilur með þeim orðum, sem jeg mælti áðan. Af ásettu ráði forðaðist jeg að leggja nokkurn dóm á það, hvor skoðunin um búsetuatriðið væri rjett, eins og hin hv. deild mun hafa tekið eftir.

Þess vegna liggur ekki fyrir frá minni hálfu nokkur minsta viðurkenning þess, að andstaða mín við sambandslögin hafi verið að ófyrirsynju. Jeg benti einmitt og einungis á atriði, sem sýndu, að hún hefði ekki verið ófyrirsynju gerð.

En úr því að farið er að tala um þessi atriði, þá skal jeg taka það fram, að skoðnn mín reynist nú rjett, og það sýnir nógsamlega þessi afsneiðing, sem háttv. þm Seyðf. (Jóh. Jóh.) hefir þótt svo mikið fyrir. Jeg verð líka að taka það fram, að þótt yfirlýsingar um þennan útveg væru komnar frá okkar mönnum, þá var mjer það alls ekki nóg; til þess þurftu að koma fram yfirlýsingar frá Dönum.

Jeg skil ekki áherslu þá, er Danir lögðu á að breyta orðalaginu frá 1908 um búsetuskilyrðið, hafi þeir, meðan á samningum stóð, rent grun í, hvernig sú breyting yrði skýrð. Eða hvað unnu Danir við það, að vjer þvert á móti skapi voru neyddumst til þess að taka rjett af löndum vorum? Jeg get ekki fundið frá Dana hálfu nokkra aðra ástæðu en þá, að dönsku nefndarmennirnir hafi ekki treyst sjer til að fá samþykki danska þingsins, er um þetta ákvæði væri búið á svipaðan hátt og í uppkastinu 1908. Jeg skal ekki gera neinum getsakir, en aðra ástæðu finn jeg ekki.