19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Magnús Torfason:

Jeg skil ekki vel umræðurnar um þetta efni hjer í háttv. deild. Hið eina, sem jeg hefi lært á þeim, er að jeg er alveg hættur að trúa á diplomatiska hæfileika hæstv. fjármálaráðherra (S. E.). Hafi hann ætlað að bæta fyrir vörutollsfrv. með þessari ræðu sinni, hefir honum mistekist hrapallega. Það hefir þó sennilega verið meiningin; annars hefði hann getað sparað sjer lesturinn, því að það er alls engin ástæða til þess að fara að siða hv. Ed. fyrir fjárauka. (S. E.: Talaði um alt þingið.) Eftir atvikum verðum við að taka það beinlínis til okkar.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) lýsti því yfir, að hann hefði hagað skattafrv. sínum eftir því sem hann teldi vænlegast að koma gegnum þingið. Hann játar því, að hann hafi ekki verið að leita rjettlætisins. Og því hefir sjávarútvegurinn fengið að kenna á.