23.09.1919
Neðri deild: 71. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Einar Arnórsson:

Jeg heyri nú, að hv. frsm (B. Sv.) mælir móti þeim brtt., er nefndin og hann sjálfur með hafa skrifað undir.

Nefndin leggur til, að sett sje sterka myndin ,,lögráður“ fyrir ,,lögráða“ Er það meðal annars fyrir þá sök að sterka myndin er þegar komin inn í sambandslögin. Fer illa á því, að hún standi í sambandslögunum, en ekki í stjórnarskránni, heldur sje það sitt á hvað.

Það var gert til samkomulags við hv. Ed. að halda veiku mynd lýsingarorðsins í lögræðislögunum á Alþingi 1917, en jeg held, að hún sje ekki alment notuð síðan. Að minsta kosti er hún ekki notuð við kenslu í háskólanum. Jeg held, að kennarinn í þessari grein við háskólann, Lárus H. Bjarnason, noti eingöngu sterku myndina, og býst jeg við, ef bækur verða skrifaðar um það efni, að þá verði sú myndin jafnan notuð. Þá hefir og þingið í sumar afgreitt lög, þar sem sú mynd er höfð, landamerkjalögin.

Það virðist því, að þótt veika myndin hafi slæðst inn í lögin 1917, þá sje ekki ástæða til að halda henni í stjórnarskránni. Vitanlega er þetta ekki stórt atriði. En vitanlegt er, að þessi mynd var tekin upp í Ed. fyrir frumkvæði eins manns. Þeir voru svo fastheldnir þar við gamla formkreddu frá 1917.