23.09.1919
Neðri deild: 71. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Bjarni Jónsson:

Mjer þykir nú bregða einkennilega við, að þegar deildin sendir frá sjer frv. með snotru orðalagi, þá skuli hún síðar fallast á annað ljótara orðalag, fyrir það eitt, að Ed. sýnist það betra. Jeg sje ekkert á móti því, að málið komi í Sþ., því jeg fæ ekki sjeð annað en það sje jafnmerkilegt mál og hundaskatturinn. Veika myndin á aðallega við kvenkynið, eins og t. d. gylta af göltur. Mætti því eins vel kalla háttv. þm. blæsma, breima, álægja og yxna o. s. frv. Sje jeg ekki, hvað háttv. þm. gengur til að vilja láta ríkiserfinga sinn hafa sömu málmynd og gylta. Jeg skil því ekki, hvaða hætta getur stafað af því, þótt breytt sje aftur og frv. þurfi að fara þennan óraveg, inn um dyrnar þarna og inn í Ed. Hugsa jeg, að málfræðingarnir þar þurfi að láta í ljós sína skarpskygni, og hver veit nema eitthvað upplýsist alveg nýtt í málfræðinni við slíka för.