23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

64. mál, stækkun verslunarlóðarinnar á Nesi í Norðfirði

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Það er óþarfi að hafa langa framsögn fyrir þessu máli, því að það er hvorki margbrotið nje frv. fyrirferðarmikið.

Kauptún það, sem hjer um ræðir, hefir á seinni árum vaxið tiltölulega meira en önnur kauptún á Austurlandi, og hefir nú þegar færst út fyrir takmörk þau, sem því voru sett með lögunum 22. okt 1912 Afleiðingin af þessu, að menn hafa neyðst til að byggja fyrir utan takmark lóðarinnar, er sú, að þeir hafa farið á mis við hlunnindi þau, sem því fylgja að búa á löggiltri lóð.

Eins og kunnugt er, veitir veðdeild Landsbankans eigi lán út á húseignir, sem eigi standa á löggiltri lóð, nema þær, sem fylgja jörðum, og hefir því veðhæfi húseigna þarna að engu orðið, eigendum til stórbaga. Þeir hafa því óskað þess að frv. þetta væri flutt inn í þingið og kaupstaðarlóðin stækkuð, en sú ósk hefir einnig verið studd af öðrum íbúum kauptúnsins.

Vænti jeg þess, að enginn hv. þingdm. muni hafa á móti málinu, og sje því eigi ástæðu til að tefja tímann með lengri ræðu eða að vísa því til nefndar.