22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Fjármálaráðherra (S. E.):

Frsm. fjárhagsnefndar hefir gert grein fyrir ástæðunum að frv. þessu. Það er fram komið, eins og hann gat um, í þeim tilgangi að vinna upp tap, sem orðið hefir og verða kann á saltverslun landssjóðs.

Eins og kunnugt er, keypti landsverslunin allmiklar saltbirgðir meðan ófriðurinn geysaði, og vissi þá enginn neitt um, hvers vænta mátti af framtíðinni. en fyrirsjáanlegt, að sjávarútvegurinn var í voða, ef salt vantaði. Hins vegar sáu kaupmenn sjer ekki fært vegna verðfallshættunnar að birgja landið að salti, og var það ekki vonlegt. Landssjóður varð aftur að taka þessa áhættu á sig, og verður því að skoða tapið á saltinu eins og lán, sem landssjóður hefir veitt saltnotendum, og er því sjálfsagt, að þeir greiði það lán aftur. Samkvæmt upplýsingum frá landsversluninni hafa á árinu legið í saltversluninni hjer

um bil kr. 2,029,000.00

en selt var 1/7 fyrir .... — 1,100,000.00

Mismunur kr. 929,000.00

Upp í þann mismun eru til í saltbirgðum 4200 tonn, en tonnið er nú selt á kr. 150.00. Það verða kr. 630,000.00, en þar frá dragast áætlaðar fyrir kostnaði kr. 20.00 pr. tonn, eða kr. 84,000.00, og dragast þá frá áður umræddum mismun kr. 546,000.00, og verður þá eftir áætlaður halli kr. 383,000.00 En hallinn verður meiri, því ráð má gera fyrir því, að alt saltið verði ekki selt fyrir kr. 150.00 á tonn. Það lætur því nærri að áætla hallann kr., 500,000.00. Ekki er hægt að fullyrða neitt um, hvað halli þessi er lengi að vinnast upp. Það fer eftir því, hvað mikið verður inn flutt af salti á næstu árum. 1917 og 1918 hafa verið flutt inn hjer um bil 20,000 tonn á ári, en með þeim innflutningi ynnist hallinn upp á rúmum tveimur árum. Á árunum 1911–1916 var aftur á móti flutt inn að meðaltali hjer um bil 46,000 tonn, og með þeim innflutningi ynnist hallinn auðvitað fyr upp. Jeg leyfi mjer að vænta, að hv. deild telji sjálfsagt að vinna hallann upp á þá leið, sem stjórnin stingur upp á. Hvað fljótt hallinn verður unninn upp er vitanlega álitamál.