22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Matthías Ólafsson:

Það er í sjálfu sjer góðra gjalda vert, að landsstjórnin skyldi sjá landinu fyrir nægilegu salti á ófriðarárunum, og tel jeg því sjálfsagt, að sá halli sem hún hefir beðið á versluninni, sje goldinn að fullu. En hins vegar virðast geta verið misjafnar leiðir til þess að fá halla þennan upp borinn. Mjer virðist, að það geti ekki náð nokkurri átt að leggja svo háan toll á saltið, að hallinn fáist greiddur á örstuttum tíma. Þegar um jafnháa fjárhæð er að ræða, sem hvílir að mestu leiti á einni atvinnugrein, verður að jafna henni niður á mörg ár. Það væri t. d. harla lítið vit í því, ef hernaðarríkin ætluðu sjer að vinna upp aftur það fje, sem þau hafa lagt í herkostnað, á 1–2 árum. Jeg vildi óska, að hæstv. stjórn sæi sig um hönd og reyndi að lækka tollinn að miklum mun og skifta honum þannig niður á langt tímabil.