22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Einar Jónsson:

Mjer finst jeg vera nokkurn veginn skyldugur til að tala í þessu máli og lýsa afstöðu minni fyrir hv. deild. Það er ekkert nýtt fyrir oss hjer, að hæstv. fjármálaráðherra fylgi öllum auknum gjöldum til landssjóðs. En svo er að hinu leytinu hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), sem æfinlega er uppi, opinn og aftrandi, þegar um slíkt er að ræða frá hálfu sjávarútvegsins. Samt er jeg samþykkur honum nú að því leyti, að jeg hygg það sje ekki heppileg leið að skatta salt, eins og hjer er farið fram á.

Jeg var búinn að biðja um orðið fyrir nokkrum dögum, þegar hjer var á ferðinni í hv. Nd. samanburður á sjávarútvegi og landbúnaði, en fjell þá frá orðinu. En mjer finst vel við eiga að lýsa því yfir nú, að þessi samanburður hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) er óviðurkvæmilegur og á alls ekki við. Það er góðra gjalda vert, að hvor útvegur fyrir sig borgi sína skatta, en það er alveg ófyrirgefanleg og heimskuleg stífni, að vilja pressa annanhvorn fram yfir það sem kraftar hans leyfa.

Jeg ætla að segja hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) það, að gys hans og spje í garð landbúnaðarins á laugardaginn var að ófyrirsynju og ómaklega gert. Þar sem landbúnaðurinn er sá atvinnuvegur landsins, sem lengst hefir haldið lífinu í Íslendingum, ætti hann að fá að lifa og deyja án þess að sæta gysi og álasi frá hinum og þessum.

Jeg held því fram um frv. þetta, að rjett sje að afgreiða það svo, að gjaldið verði ekki eins hátt og hjer er gert ráð fyrir. Án alls samanburðar á sjávarútvegi og landbúnaði má hjer gera einhverja miðlun. Jeg er alls ekki að tala um að ofþjaka sjávarútveginum með gjöldum, en eins og nú standa sakir, er sjálfsagt, að meiri gjöld hvíli á sjávarútveginum, því að eins og allir vita, eru það allskonar landplágur, svo sem grasleysi, harðir vetur, öskuföll og eldgos, sem landbúnaðinum stendur mest fyrir þrifum, en það kemur sjávarútveginum ekkert við. Sjávarútvegsmennirnir geta viðhaft alfar sínar athafnir úti á sjónum, meðan landbúnaðurinn á við alt þetta að stríða uppi í landinu. Menn verða að athuga það, að skattleggja ekki þessa stjett, án þess að taka þetta til greina. Landhúnaðurinn er þannig stæður, að hann þolir ekki mikið. En þó að hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) segði í skopi, að hann skyldi vera með því, að lausafjárskattur yrði afnuminn, svo að bændur þyrftu ekkert að greiða til landsþarfa, þá var ekki hlegið, eins og hann ætlaðist til. Hann þóttist víst vera fyndinn þá!

En nú er til umræðu þetta frv. og án þess að jeg hafi myndað mjer beina afstöðu til þess, skal jeg enn taka það fram, að jeg tel gjaldið mega vera lægra, því að það kemur mest niður á einum atvinnuvegi. Ef það kemur frá nefnd, þá þýðir ekkert að vísa því til annarar nefndar, enda þótt ekki sje langt síðan svo var gert, (E. A; Mætti kann ske vísa því til launamálanefndar!) Það er vitleysa, þó frá vitrum komi. Jeg set mjer fyrir að greiða aldrei atkvæði með því, að mál sem kemur frá nefnd, fari til annarar. Það er vantraust á viðkomandi nefnd og lengir þingtímann að óþörfu, þegar um ljós og einföld mál er að ræða, jafnvel að vísa máli til nefndar, sem kemur frá stjórn eða einstökum þingmönnum. En kann ske vill hv. 2. þm. Árn. (E. A.) fá þetta mál, eins og önnur, í ruslakistuna, allsherjarnefnd, þar sem hann ræður og ríkir æðstur allra. (E. A.: Þingmaðurinn er þar líka!)