26.07.1919
Neðri deild: 17. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Pjetur Ottesen:

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir tekið margt fram af því sem jeg vildi sagt hafa. Jeg vildi leggja sjerstaka áhersla á það, að þessum salttolli sje ekki haldið lengur en nauðsyn krefur til þess að vinna upp hallann, sem orðið hefir af saltversluninni. Því að eins og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) tók fram, er ekki gert ráð fyrir í greinargerð fjárhagsnefndar, hve nær tollinum skuli af ljett. En við þekkjum það ofurvel, að þegar tollur er kominn á einhverja vöru á annað borð, gengur seint að fá honum af ljett. Hitt er miklu tíðara, að tollinum hafi ekki verið að eins haldið við, heldur hefir verið bætt ofan á hann, sbr. kaffitoll, sykurtoll, tóbakstoll o. m. fl. Jeg vil þess vegna, að það sje tekið skýrt fram, að tolli þessum sje ekki haldið lengur en nauðsynlegt er til að bæta þann halla, sem orðið hefir á saltversluninni.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hefir talið hallann af saltversluninni vera um ½ milj. kr. Af því má sennilega ætla, að saltversluninni hafi verið haldið sjerskildri, eigi verið ruglað saman við aðrar vörur landsverslunarinnar. En í sambandi við þetta vildi jeg spyrja hæstv. stjórn, við hvaða verð tollurinn hefir verið miðaður, hvort hann hefir t. d. verið miðaður við það verð, sem nú er á salti. En þess er að gæta, að saltverðið lækkar. Þess ber að gæta, að nokkur allverulegur hluti af saltbirgðum þeim, sem landsverslunin nú liggur með, er enskt salt, sem er óhæft til fisksöltunar. Að minsta kosti ekki notað ef annað salt fæst. Má því gera ráð fyrir allmiklu verðfalli á þessu salti, þegar betra salt kemur á markaðinn. Eins má gera ráð fyrir, að allmikil rýrnun verði á saltbirgðum þeim, sem nú eru fyrirliggjandi. Það má því gera ráð fyrir, að tapið verði meiru en hæstv. fjármálaráðherra hefir gert ráð fyrir. Eins vil jeg leggja áherslu á það, að þessari saltverslun verði haldið sjerskildri, svo tap, sem verða kann á öðrum vörutegundum, sje ekki fært yfirá saltið, og tollinum á þessari vörutegund þar með haldið lengur en raunverulega rjettmætt er.

Það er óumflýjanlegt, að landssjóður nái upp þeim halla, sem hann hefir beðið af saltversluninni, á þeirri vörutegund. En leiðin til þess er sennilega heppilegust, að tollinum sje jafnað niður á nokkur ár, eins og stjórn Fiskifjelagsins hefir farið fram á. Það kemur miklu vægar niður á þeim, sem þurfa að nota saltið. Að leggja 12 kr. toll á hverja smálest af salti, eins og frv. það sem fjárhagsnefnd flytur, að tilhlutun stjórnarinnar, gerir ráð fyrir, og að ná þar með upp öllu tapinu á einu ári, er alt of freklega í farið. Sá tollur er fullkomlega helmingur þess verðs, er smálestin af salti var seld hjer fyrir stríðið. Þetta nær því ekki nokkurri átt. Brtt. hv. þm. N-Þ. (B. Sv.) er þá sanni nær, en rjettara þó að dreifa þessu á fleiri ár. Jeg óska þessvegna, að fjárhagsnefnd taki tilmæli Fiskifjelagsins til greina og komi með brtt í samræmi við þau við 3. umr. málsins.