26.07.1919
Neðri deild: 17. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Fjármálaráðherra (S.E.):

Menn gleyma því of oft, þegar rætt er um þennan salttoll að hann er lagður á til þess að gera sjávarútveginum hægra fyrir. Ef landssjóður hefði viljað fá alt saltverðið undir eins inn, hefði smálestin kostað 250 kr. Og þetta hefði landssjóður getað gert með einokun. En af því að stjórnin skildi vel, að tillit þurfti að taka til sjávarútvegsins, færði hún saltverðið niður um 100 kr. Þar af stafar þessi tollur. Fiskifjelagið kannast og við það, að halli þessi eigi að vinnast upp aftur. Og sömu skoðunar eru allir, sem líta með nokkurri sanngirni á málið. Hitt er álitamál, á hversu löngum tíma hallinn skuli vinnast upp. Það er auðvitað vinningur fyrir landssjóð að fá hallann sem fyrst upp borinn. Og það er rangt, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hjelt fram, að landssjóð muni engu, hvort hann fengi hallann bættan undir eins eða á nokkrum árum. Frá sjónarmiði landssjóðs er ekki ósanngjarnt, að hann nái upp hallanum sem fyrst.

En samt mun stjórnin geta fallist á brtt. háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), þá að tollurinn verði 8 kr., en það þýðir 7 kr., því vörutollurinn var áður 1 kr. Það er óvíst, hversu langan tíma tæki að vinna upp hallann með þessu móti; það færi eftir því, hversu miklar saltbirgðir flyttust til landsins. Ef aðflutningurinn verður álíka mikill og tvö síðustu árin, tekur það 4 ár. Ef hann verður álíka mikill og fyrir stríðið, tekur það styttri tíma. En hyggilegast er að fara gætilega í þessu efni og miða við tvö síðustu árin. Annars vill Fiskifjelagið auðvitað fara sem lengst í kröfum sínum. Tollurinn yrði þess vegna að færast langt niður, ef fullnægja ætti þeim. Hins vegar er eðlilegt, að landssjóður vilji fá upp borinn hallann sem allra fyrst.

Jeg skal taka það fram, að stjórnin mun ekki gera ágreining um 2. tölulið brtt. En í sambandi við fyrirspurn hv. þm. Borgf. (P. O.), um það, hvort saltreikningnum væri haldið sjer, vil jeg gefa þær upplýsingar, að svo er. Hann spurði enn fremur, hvort miðað væri við það verð, sem nú er á salti, eða gert væri ráð fyrir verðfalli á því og rýrnun. Um þetta efni get jeg vísað til ummæla minna við 1. umr. málsins, þar sem jeg tók fram, að ef saltið yrði selt á kr. 150.00, þá mundi hallinn á því verða hjer um bil kr. 383,000.00, en þar sem óvarlegt væri að gera ráð fyrir, að alt saltið seldist þessu verði, þá taldi jeg, að hallinu mundi verða um ½ miljón króna.

Það er rjett hjá háttv. þm. Borgf. (P. O.). að varla er við að búast, að alt það salt, sem eftir er, seljist með 150 kr. verði tonnið, og með fram með tilliti til þess er gert ráð fyrir, að tapið á saltinu muni nema hálfri miljón króna; þó skal jeg taka það fram, að rjett þessa dagana fjekk jeg skýrslu frá landsversluninni um, að nú væru eigi eftir nema 2409 tonn óseld af saltinu; svo mikið hefir selst af því síðan 1. júní. Það er því ekki líklegt, að hallinn verði öllu meiri en hálf miljón króna, þótt selja þurfi eitthvað af því, sem eftir er, undir 150 kr. tonnið. Þó verður ekki sagt um það með vissu, og síst ástæða til nje ráðlegt að setja tollinn lægri en hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) stingur upp á í brtt sinni.

Stjórninni hefir aldrei komið það til hugar, að salttollinum yrði varið til nokkurs annars en til að jafna upp hallann við saltsöluna, enda væri annað óverjandi. Tollur þessi á eingöngu að leggjast til að bæta úr því, að saltið hefir nú um hríð verið selt undir sannvirði; stjórnin greip til þessa úrræðis til þess, að menn gætu sem fyrst fengið salt með tiltölulega lágu verði; og hún gerði það eingöngu til að ljetta undir með sjávarútveginum.